Opið bréf til einhvers

Sæll. Smá viðvörun: Fyrstu þrjár efnisgreinar af þessu opna bréfi munu ekki innihalda nein málefnaleg rök heldur einungis rætnar árásir í þinn garð. Þær munu fyrst og fremst ganga út á það að gera lítið úr þér, viðtakanda bréfsins, til dæmis með því að kalla þig öðru nafni og með öðrum starfstitli heldur en þú hefur sjálfur kosið að nota. Ef þú værir afkastamikill vísindamaður gæti ég til dæmis alltaf kallað þig “millistjórnanda hjá stóru bandarísku lyfjafyrirtæki”. Þannig diss.

Þar með væri ég búinn að koma því til leiðar að ég, ekki þú, fæ að skilgreina hver þú ert. Og ég ætla nýta það vald til að gera lítið úr þér. Slökkva á þínu kerti til að mitt myndi skína bjartar. Kalla þig einhverju þú kallar þig ekki sjálfur. Svona bara upp á djókið.

Aðrir pistlahöfundar munu segja mér að ég gæti klippt þennan fyrsta kafla opna bréfsins út, því hann bætir engu við og dregur athyglina frá því sem “máli skiptir”. Eitthvað samhengislaust skítkast á ekkert erindi á prent. En þá missa menn sjónar af aðalatriðinu! Þetta var sá partur bréfsins sem skemmtilegast var að skrifa! Ég skrifaði opna bréfið út af þessu! Ég skrifaði ekki bréfið til að rökræða, ég skrifaði það til að hæðast og stríða! Og þá get ég ekki sleppt besta og fyndnasta hluta þess!

Jæja. Nú er komið að þeim hluta bréfsins sem ég kvíði hvað mest. Hér þarf ég nefnilega að setja fram einhver efnisleg rök máli mínu til stuðnings. Ef ég geri það ekki er einhver hætta á að mikilsvirtir vef- og prentmiðlar munu hreinlega neita að birta það. Mér sýnist reyndar lítil hætta á því miðað við reynslu seinustu vikna. En hvað veit maður?

En allt í lagi. Kannski er ágætt að setja fram einhver rök í málinu. Ég ætla þó að halda stílnum þannig að lesendur velkist ekki í vafa um að ég megi nú varla vera að því. Svo ómerkileg og fátækleg eru rök þín í málinu að það er nú eiginlega tímasóun fyrir mig að fara að í gengum þau.

Höfum það á hreinu. Rökin þín eru einfaldlega bull og rugl og afleiðingar af því að fólk trúir þeim eru hættulegar! Ég mun segja það þó svo ég hafi kannski verið á annarri skoðun áður og jafnvel þótt munurinn á minni og þinni skoðun sé kannski ekki himinn og haf. Kannski að annar okkar vilji beita þyngstu útfærslu á landamæralokun af sóttvarnaástæðum sem lögð var til, en hinn þeirri næstþyngstu. Þannig munur. Ég ætla að láta þann mun hljóma eins og þar á milli liggi gap sem er svo óbrúanlegt að útilokað sé, að mínu mati, að gáfað fólk geti staðsett sig öðru megin þeirrar víglínu en ég hef nú gert.

Hjúkket, þá er þessi kafli búinn. Einhvers konar röksemdarfærsla komin og hægt að ljúka opna bréfinu á þann hátt sem mér finnst skemmtilegastur: Með fleiri svívirðingum í þinn garð! Ég er að hugsa um að tengja svívirðingarnar í niðurlagi við einhverjar svívirðingar í innganginum. Þannig loka ég pistlinum. Ég lærði að gera það í ritun í menntaskóla.

En kannski get ég frekar hrósað þér fyrir eitthvað? En það yrði þá alltaf að vera svona frekar yfirborðskennt og í reynd niðrandi hrós. Svona eins að segja við einhvern að hann sé í fínu formi og líti nokkuð vel út miðað við þennan aldur. Og helst hrós sem hefur ekki neitt með faglega hæfni þína að gera.

Eða kannski lýk ég þessu á að gefa þér ráð? Oft er gott að gefa ráð. En ráðið sem ég gefa þér mun bera það með sér að ég beri í raun ekki mikla virðingu fyrir vitsmunum þínum. Þetta verður svona ráð sem maður gefur barni. Ég mun til dæmis, ef þú ert tíður pistlahöfundur í blöðum, segja þér rifja upp grundvallatriði í greinarskrifum.

Ég mun benda þér á stytta innganga og skera burt langa kafla af níði og einkahúmor sem fáum finnst gaman að lesa, þótt þér hafi ef til vill þótt gaman að skrifa þá. Þannig ráð.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.