Okkar minnstu bræður

Heimurinn allur upplifir nú hamfarir. Fámenna eyjan okkar í N-Atlantshafinu hefur ekki farið varhluta af ástandinu þar sem líf okkar og heilsa hefur verið í hættu. Gífurlegar efnahagsþrengingar eru skollnar á og margir eiga um sárt að binda. Að sumu leyti er ástandið og tilfinningin kunnugleg fyrir þjóð sem fyrir svo skömmu  komst í gegnum djúpa efnahagskreppu. Íslenska efnahagsundrið lagðist þá í djúpan en skammvinnan dvala. Ekki leið langur tími þar til harðduglegir landsmenn, atvinnurekendur, hófust handa við að skapa störf og afla þjóðarbúinu erlends gjaldeyris. Heimsfaraldur var ekki fyrr skollinn á en við fórum að sjá svipaðan kraft og útsjónarsemi í íslensku atvinnulífi. Samstaðan og samheldnin sem ríkt hefur hér undanfarnar vikur og mánuði gefur sömuleiðis góða von um betri tíð.

Flestir Íslendingar hafa gengið í takt að undanförnu. Þvegið hendur, sprittað hólf og gólf, forðast félagsskap eftir fremsta megni, virt fjarlægðarmörk og pantað nauðsynjar á netinu með heimsendingarþjónustu. Yfirvöld hafa stýrt aðgerðum af festu, rakið smit og veitt nauðsynlegar leiðbeiningar og upplýsingar. Árangurinn er betri en við þorðum að vona og við erum komin í gegnum erfiðasta hjallann, a.m.k. í þessari atrennu; í þessum slag. Aðstæður hjá okkur eru enda eins og best verður á kosið. Við vorum tilbúin og verðum það áfram.

Aðstæður víða í heiminum eru langt frá þessum veruleika. Um 75% af íbúum fátækustu landa heims hafa ekki aðgang að sápu og vatni. Tæplega 30% af íbúum heimsins búa í fátækrahverfum. Við slíkar aðstæður hlýðir enginn Víði. Tugmilljónir manna eru þegar háðir mannúðar- og mataraðstoð og heilbrigðiskerfi víða verulega takmörkuð eða ekki til staðar. Leiða má líkur á að vegna aldurssamsetningar í þróunarríkjunum verði afleiddar afleiðingar af faraldrinum þar mun meiri en bein áhrif.

Það er ljóst að sú heilsufarsógn sem nú steðjar að virðir engin landamæri. Afleiðingarnar eru farnar að koma fram um allan heim og þær munu einungis aukast. Óstöðug ríki þar sem aðgangur að heilbrigðisþjónustu er takmarkaður eru líkleg til þess að verða verst úti. Faraldurinn mun bitna sérstaklega á konum. Þær verða undir meira álagi, eru í aukinni hættu á ofbeldi og þær sinna 70% starfa í framlínu heilbrigðis- og félagsþjónustu á heimsvísu.

Þær þjóðir sem hafa borð fyrir báru geta ekki skorast undan. Um leið og við tökumst á við ástandið hér heima fyrir verðum við að leggja þróunarríkjum lið í baráttu þeirra. Fjölþjóðlegar hnattrænar aðgerðir gegn COVID-19 eru til hagsbóta fyrir alla íbúa heimsins.

Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

(MAT 25:40)
Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.