Neysla eða þátttaka

Það að fara á leikinn og horfa á leikinn eru tvennt mjög ólíkt—annað er þátttaka og hitt er neysla. Kannski munu lok heimsfaraldursins, og mótþróinn gegn fjármálavæðingu fótboltans, leiða til þess að þess að stærstu íþróttalið heims missi aðdráttarafl sitt, en að aðdáendur sæki frekar í hrárri, nánari og ástríðufyllri keppni.

Óeirðirnar á Old Trafford, heimavöll Manchester United, kunna að vera til marks um að vindáttinn sé að breytast nokkuð hratt í vestrænum samfélögum. Margt leggst á eitt og vekur fólk til umhugsunar um hvort samfélagsþróun síðustu ára og áratuga kunni að þurfa einhvers konar endurskoðun.

Í viðtali við einn aðdáanda Mancheter United í dag kom fram í miklum hneykslunartón að þegar bandaríska Glazer fjölskyldan keypti Manchester United þá hafi klúbburinn verið skuldlaus en mari nú í hálfu kafi hálfs milljarðs punda skuldsetningar. Fyrir flesta er það óskiljanleg staða að stöndugu félagi eða fyrirtæki sé vísvitandi stefnt í svo miklar skuldir að þegar á bjátar þurfi að grípa til einokunartilburða til þess að halda sjó. Hvernig getur svona lagað gerst?

Vera má að heimsfaraldurinn spili nokkuð stóra rullu í því óþoli sem fékk útrás hjá hópi stuðningsmanna Manchester United í dag. Líf almennings hefur verið snúið á haus, margir hafa misst lífsviðurværi sitt, félagsleg tengsl hafa tjónast, og líklega hafa margir þeir sem áttu erfitt fyrir sogast í áttina að vonleysi og óreglu. Reiðin yfir taktleysinu í tengslum við Ofurdeildina var líklega bara korn sem fyllti mæli, og kannski er mælirinn ennþá stappfullur og jafnvægi næst ekki fyrr en stuðningsmenn liðanna fá aftur þá tilfinningu að þeir séu ekki bara álitnir neytendur knattspyrnusýningar heldur þátttakendur í leiknum.

Þegar fólk fær aftur að mæta á fótboltaleiki í Englandi og víðar þá er ekki víst að fólk sætti sig við þá þróun sem orðið hefur á síðustu árum, þar sem miðaverð hefur rokið upp úr öllu valdi og „upplifunin“ orðið sífellt settlegri. Þótt vissulega sé gaman ef skuldsettur klúbbur fagnar sigrí, þá er hin raunverulega ástríða fótboltans gjarnan tengd allt öðrum hlutum heldur en árangri og sigursæld á vellinum.

Á heimavelli Napólí, sem nú heitir eftir Diego Armando Maradona, má finna öðruvísi stemnmningu en á flestum settlegri knattspyrnuvöllum Evrópu. Áður en heimsfaraldurinn gekk yfir þá sáu sjónvarpsáhorfendur gjarnan tóm sæti næst vellinum á neðri svölum, en mikinn söng og dans bak við mörkin. Ástæða þess að stór hluti sætanna er tómur er sú að félagið hefur ekki heimild til þess að hleypa fólki í þau sæti sem almennt eru dýrust af því að Napólíbúum hefur ekki tekist að sætta sig við ýmsar þær kvaðir sem lagðar hafa verið á knattspyrnuáhorfendur á síðustu árum og áratugum—eins og bann við því að skjóta flugeldum inn á völlinn, og kröfum um að allir séu í númeruðum sætum.

Þeir sem kaupa sér miða á leiki í Napóli fá vissulega úthlutað sætum, en nákvæmlega engin virðing er borin fyrir „rétti“ fólks til að sitja í því sæti sem þeim var úthlutað, enda er ekki til siðs að sitja, heldur standa, dansa, reykja sígarettur, drekka bjór og syngja. Þannig eru þeir þátttakendur í því sem er að gerast, en ekki settlegir áhorfendur eins og í leikhúsi.

Víðast hvar hefur þessi hráa og óheflaða stemmning vikið smám saman á undanförnum árum fyrir penari áherslu á upplifun og sjónvarpsútsendingar. Það að fara á leikinn og horfa á leikinn eru tvennt mjög ólíkt—annað er þátttaka og hitt er neysla. Kannski munu lok heimsfaraldursins, og mótþróinn gegn fjármálavæðingu fótboltans, leiða til þess að þess að stærstu íþróttalið heims missi aðdráttarafl sitt, en að aðdáendur sæki frekar í hrárri, nánari og ástríðufyllri keppni.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.