Næstbesta lýðræðið

Þau ótrúlegu völd til að skipta sér af fólki sem stjórnmálamenn eða embættismenn um heim allan hafa fengið í hendurnar í þessum faraldri—líka hér á Íslandi—eru hættuleg. Kannski eru þau nauðsynleg—en þau eru án vafa hættuleg, einkum ef ástandið varir mjög lengi.

Í vikunni birtist hjá The Economist yfirlit yfir stöðu lýðræðis í heiminum. Hið sorglega við samantektina er að á heimsvísu virðist lýðræðið á undanhaldi. Þetta á ekki bara við í fjarlægum og framandi löndum, heldur ekki síður á slóðum sem flest okkar hafa alist upp við að teljast sjálfkrafa í brjóstvörn lýðræðislega gilda.

Samantekt The Economist metur stöðu lýðræðis út frá fimm þáttum sem snúa að: (1) framgangsmáta kosninga og stjórnmálaþátttöku, (2) hversu vel stjórnvöld starfa, (3) raunverulegri þátttöku í kosningum og stjórnmálum, (4) stjórnmálamenningu, og (5) ástandi borgaralega mannréttinda (svosem réttinum til tjáningar, mótmæla og vernd frá óréttmætum afskiptum yfirvalda).

Hæstu einkunn í samantektinni fá frændur okkar Norðmenn (9,81) en Ísland er í öðru sæti (9,37) og á eftir kemur kunnuglegt samsafn þeirra samfélaga sem jafnan raðast efst á lista yfir þau lönd þar sem best þykir að búa (hin Norðurlöndin, Nýja Sjáland, Kanada o.s.frv.). Alls teljast 23 ríki bjóða þegnum sínum upp á fullmótað lýðræðisfyrirkomulag. Í þessum 23 ríkjumbýr þó einungis 8,4% heimsbyggðarinnar.

52 ríki bjóða upp á „gallað lýðræði“ – sem þýðir líklega eitthvað álíka eins og „hæfni ekki náð“ í nútímalegu einkunnaskipulagi. Í þann flokk falla meðal annars Frakkland og Bandaríkin—tvö ríki sem hafa um aldabil hafa verið álitin merkisberar þeirra gilda sem lýðræðisúttektin byggist á. Í 52 gölluðum lýðræðisríkjum býr 41% jarðabúa—og munu þá þeir sem fljótir eru í hugarreikningi sjá að meira en helmingur mannkyns býr í ríkjum sem ekki teljast vera lýðræðisríki. Annars vegar búa 15% í ríkjum sem kallast „hybrid-regimes“—og bjóða upp á einhvers konar tilburði í átt að lýðræði en þó þannig að venjulegt fólk ætti ekki að fá háar hugmyndir um áhrif sína á stjórnarfarið. Flest ríki jarðar flokkast því miður í neðsta flokkinn hjá The Economist; 57 lönd teljast vera einræðis/harðstjórnarríki (authoritarian regimes)—og eru íbúar þeirra 35,6% mannkyns.

Stór hluti skýrslu Economist fjallar um áhrif heimsfaraldursins á lýðræði og mannréttindi. Þau áhrif eru mjög slæm, og þeim mun verri eftir því sem stjórnvöld voru valdgírugri fyrir.

Það er ekki nýtt að utanaðkomandi ógnir séu notaðar til að réttlæta frelsisskerðingu venjulegra borgara. Eftir því sem hættuástand er álitið varanlegra, þeim mun meira monlar undan bæði lýðræði og borgaralegum mannréttindum. Í þessu eins og mörgu öðru skiptir því máli að passa vel upp á stöðu þessara dýrmætu gilda—ekki bara þegar ógn steðjar að þeim, heldur ekki síður þegar „allt leikur í lyndi“ og engin þörf virðist vera á að verja þau. Sterk lýðræðisríki ættu nú að njóta góðs af því að geta „gengið ögn á lýðræðisforðann“ á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir; þótt vitaskuld væri best og réttast að þeim mikilvægu réttindum væri alls ekkert fórnað.

Þau ótrúlegu völd til að skipta sér af fólki sem stjórnmálamenn eða embættismenn um heim allan hafa fengið í hendurnar í þessum faraldri—líka hér á Íslandi—eru hættuleg. Kannski eru þau nauðsynleg—en þau eru án vafa hættuleg, einkum ef ástandið varir mjög lengi. Sem betur fer njótum við góðs af því að íslenskir embættismenn og stjórnmálamenn sem nú fara með þessi hættulegu völd kunna vel að fara með þau. Það er mikið lán og mildi; en það er alls ekki óhætt að reikna með því að það sé eingöngu vandað fólk sem sækist eftir störfum sem fela í sér lítt heft völd til þess að setja takmarkanir á frelsi almennings.

Í samanburði við flesta jarðarbúa erum við heppin—en við þurfum að fara varlega og gætilega með þau miklu verðmæti. 9,37 er vissulega há einkunn í samanburði við aðra; en hún er umtalsvert lægri en 9,71 sem Ísland fékk í könnunni árið 2006.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.