Næst: Núllstilla normið

Hvernig getum við beint athygli allra að því að í dag eiga ljót orð, hótanir og níð ekki upp á pallborðið. Hvernig sýnum við fólki að það er ekkert eðlilegt við það að missa kúlið í athugasemdakerfum – eða í heita pottinum ef því er að skipta.

Fréttir af skotárás á húsnæði stjórnmálaflokka og nú síðast á fjölskyldubíl borgarstjóra virðast hafa vakið margan Íslendinginn upp af værum svefni.   Fólk sem við þekkjum til, býr kannski í næstu götu – eða sjáum oft í sjónvarpi –  er orðið skotspónn ofbeldisfólks og mögulega í hættu. Þessi staðreynd brýtur ákveðinn múr, því langflest fólk á Íslandi verður ekki fyrir ofbeldi. Það þarf aldrei, og mun líklega aldrei, upplifa ógn af því tagi sem lýst hefur verið. 

Síðastliðin ár hefur færst mjög í vöxt að illa sé talað til stjórnmálafólks, þá sérstaklega á netinu.  Orðræðuna má flokka allt frá illa orðuðu ranti upp í hatursorðræðu og virðast margir eiga erfitt með að átta sig á línunni.  Hversu langt má eiginlega ganga?

Ákveðinn hópur innan íslensks samfélags þekkir þetta vel. Hópurinn þekkir hvernig norm myndast við ítrekað níðstal í þeirra garð. Og það þekkir sömuleiðis hræðsluna við það að orðin verði að lífshættulegum árásum. Hörður Torfason gerði þetta að umtalsefni á Facebook síðu sinni í gærkvöldi en þar minntist hann á allt það ofbeldi sem hann hefur mátt þola sem hommi og aðgerðarsinni.  Hótanir, kóganir, eyðileggingu eigna, hnífaárásir.  Ég veit að Hörður á þar ekki við einstök tilfelli, því miður eru þau fjölmörg.  Í lok uppfærslunnar tekur hann fram að því miður hafi staðan verið svo að honum hafi ekki alltaf verið trúað. 

Það er ekki raunveruleiki sem íslenskt stjórnmálafólk þarf að eiga við.  Hér efast enginn um það sem átt hefur sér stað og er það vissulega ákveðið hraustleikamerki á íslensku samfélagi.   Við ætlum ekki að sætta okkur við ofbeldi. 

En hvað gerum við nú?  Hvernig getum við beint athygli allra að því að í dag eiga ljót orð, hótanir og níð ekki upp á pallborðið. Hvernig sýnum við fólki að það er ekkert eðlilegt við það að missa kúlið í athugasemdakerfum – eða í heita pottinum ef því er að skipta. 

Við höfum þurft að gera þetta áður. Hópur fólks ákvað að fræða landann um hinsegin málefni. Í dag þykir það langt frá því töff að fara níðsorðum um þann hóp – þótt það þekkist vissulega ennþá.  Þurfum við að ganga í slíka vinnu gagnvart stjórnmálafólki?  Sýna almenningi að þar fer ekki hópur eiginhagsmunaseggja heldur fólk sem er tilbúið til að vinna langt umfram eðlilegan vinnutíma, fórna oft eðilegu fjölskyldulífi og einkalífi fyrir vinnu sem snýr að því að búa okkur hinum betra samfélag.  

Getur einfaldlega verið að hópur innan íslensks samfélags sé illa að sér í því hvernig samfélagið okkar byggist upp; hvernig sveitastjórnarmál virka, og Alþingi?  

Þetta eru spurningarnar sem ég spyr mig að í dag og ég hlakka til umræðunnar. Því ef við högum okkur – öll sem eitt – þá getur eitthvað gott komið út úr þessu öllu.

Latest posts by Helga Margrét Marzellíusardóttir (see all)

Helga Margrét Marzellíusardóttir skrifar

Helga Margrét hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2010.