Með tímavél í sumarfríið

Allt útlit er fyrir að ferðalög til útlanda verði annað hvort ómöguleg eða miklum takmörkunum háð í töluvert langan tíma. Takmarkanirnar er ekki bara þær sem stjórnvöld hér á Íslandi og annars staðar munu reisa, í mismunandi áköfum tilraunum sínum til að koma í veg fyrir innflutning kórónaveirunnar. Allir innviðir alþjóðlegrar ferðamennsku liggja undir skemmdum og óvíst er hversu hratt og í hversu miklum mæli fyrri staða verður endurheimt.

Útþráin vex vitaskuld hjá mörgum og persónulega vona ég að íslensk stjórnvöld verði frekar í fyrra en seinna fallinu að opna fyrir ferðalög til og frá landinu. Hvernig sem það mun fara þá er ljóst að skynsamleg væntingastjórnun fyrir sumarið felst í því að gera ráð fyrir því að skipuleggja ferðalög innanlands—í landinu sem milljónir manna eru tilbúnir til þess að heimsækja á sumrin, og Íslendingar vilja ólmir yfirgefa í lengri eða skemmri tíma.

Ekki er mjög langt síðan ferðalög til útlanda voru fáheyrður lúxus fyrir örfáa útvalda. Og það er tiltölulega stutt síðan langflestir gátu leyft sér útlandaferðir sjaldnar en einu sinni á ári. Það eru auðvitað geggjuð forréttindi að svo margir hafi fengið tækifæri til þess að ferðast um heiminn og kynnast merkilegri menningu, skynsamlegu verðlagi og mildilegra veðurfari. En það er kannski dulin blessun að við neyðumst öll til þess að lifa örlítið meira í samræmi við það sem Billy Joel hvetur til í laginu Vienna (og er þýtt nokkurn veginn hérna):

Hvar brennur bálið? Hvað liggur á?
Þú brennur upp nema þú slakir á.

Þú ætlar svo margt,
en tími hvers dags er tæmandi uppsprettulind.


Og það verður sannarlega allt umtalsvert rólegra í bili. Þetta getur verið tilhlökkunarefni því þótt framfarir heimsins hafi haft ótrúlega margt í för með sér á undanförnum árum, þá fylgja einfaldleikanum líka kostir. Að ferðast um og njóta síns eigin lands hjálpar okkur vonandi að vera þakklátari fyrir það lán að eiga saman þessa eyju og eflir með okkur sameiginlegan metnað að gera hana til frambúðar að góðum stað fyrir þá sem fæðast hér, fyrir þá sem velja að flytjast hingað og fyrir þá sem koma hingað í heimsókn.

Sumarið 2020 verður örugglega að mörgu leyti líkara sumrinu 1985 heldur en sumrinu 2019. Fyrir börn og ungmenni gefst því einstakt tækifæri til þess að kynnast þeim tímum af eigin raun sem foreldrarnir eru að vísa til þegar þau segja: „Þegar ég var að alast upp…“ Nú þarf bara að henda iPöddunum, farsímunum og snjallúrunum út í sjó, panta til landsins nokkra gáma af Prins Póló í álpakkningum og lækka verðið á svala niður í sex krónur. Þá er þetta komið, því Spaugstofan er nú þegar byrjuð aftur.

Gleðilegt sumar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.