Lífsins lotterí

Tilgangsleysi stríðsins þurfti eflaust ekki frekari vitnanna við en þetta lotterí um líf ungra manna sem birtist á skjánum heima í stofu.

Þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst við lok sjöunda áratugarins og andstaða við stríði óx hröðum skrefu samfara vaxandi mannfalli og augljósu tilgangleysi stríðsins datt ráðamönnum í Bandaríkjunum í hug að taka upp sérstakt lotterí við val á þeim sem sendir voru þarna austureftir.

Mig skortir skilning á grunnatriðum tölfræðinnar til að útlista fyrir lesendum svo gagn væri að þær aðferðir sem beitt var í þessari andstæðu happdrættis, en í grófum dráttum var um að ræða 366 miða og táknaði hver miði einn dags ársins, að hlaupársdegi meðtöldum. Væri miði með númerinu 35 dreginn út þá voru þeir kvaddir til herþjónustu sem áttu afmæli 4. febrúar og voru á tilteknu aldursbili. Raunar var um tvöfalt lotterí að ræða því einnig var dregið úr bókstöfum enska stafrófsins, þannig að fyrsti stafurinn í nafni viðkomandi afmarkaði enn fremur hverjir voru dregnir út.

Til að kóróna vitleysuna var útdrættinum sjónvarpað um gervöll Bandaríkin og gátu ungir menn því fylgst með í beinni útsendingu hvort röðin væri komin að þeim. Væntanlega hafa mæður og feður líka fylgst með, flestir í angist yfir því hvort afmælisdagur sonarins kæmi upp ásamt fyrsta stafnum í nafninu sem þau völdu honum.

Tilgangsleysi stríðsins þurfti eflaust ekki frekari vitnanna við en þetta lotterí um líf ungra manna sem birtist á skjánum heima í stofu. Óánægja með stríðsreksturinn magnaðist enda í kjölfarið, þótt af ástæðum sem ógjörningur er í dag að réttlæta hafi stríðið dregist um nokkur ár til viðbótar.

Það var þess vegna eilítið súrrealískt að íslensk heilbrigðisyfirvöld skyldu hafa fengið ekki ósvipaða hugmynd við útdeilingu bóluefnis; að fá landsmenn að skjánum til að fylgjast með bóluefnalotterí.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.