Leyndarmál frægðarinnar

Að öðlast frægð og frama er keppikefli margra og sumir gera næstum hvað sem er fyrir frægðina, þar á meðal að koma naktir fram. Flestir verða yfirleitt frægir fyrir eitthvað sem þeir hafa gert og margir eru bara frægir fyrir það sem þeir eru. Þannig er Neil Armstrong heimsfrægur fyrir að vera fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið en Karl Bretaprins er bara frægur fyrir að hafa fæðst inn í tiltekna fjölskyldu sem er mjög fræg.

Frægð er ekki nýtt fyrirbæri en eðli frægðarinnar hefur breyst á undanförnum áratugum og ekki síst hin allra síðustu ár. Í sýningarskrá fyrir listsýningu á Nýlistasafninu í Stokkhólmi árið 1968 skrifaði Andy Warhol að í framtíðinni yrðu allir heimsfrægir í 15 mínútur. Þetta innsæi Warhols lýsir vel þeirri byltingu sem varð með tilkomu sjónvarpsins og nútímafjölmiðlunar. Raunar á þetta enn við í dag en þó með þeirri breytingu eftir innreið netsins og samfélagsmiðlana að allir geta orðið heimsfrægir í 15 sekúndur.

Að vera frægur er annað og meira en að vera þekktur, þótt þessu sé oft ruglað saman. Frægur maður er augljóslega þekktur en þótt margir þekki mann þarf hann ekki endilega að vera frægur. Frægð er ekki hlutlæg heldur huglægt fyrirbrigði. Svokallaðar samfélagsmiðlastjörnur og áhrifavaldar eru ekki endilega frægir í þessari merkingu, þeir eru ekki frægir fyrir neitt sérstakt annað en að vera frægir eða öllu heldur þekktir.

Draumur Stinna Stuð um að slá í gegn var draumur um raunverulega frægð, að vera dáður og virtur. Flestir sem skapa eitthvað eiga sér þennan draum, að slá í gegn með einum eða öðrum hætti, ekki endilega í því augnamiði að græða peninga, heldur að öðlast frægð og frama, og hitt fylgir þá oftar en ekki með. Stinni var ekki áhrifavaldur og hefði ekki haft neinn skilning eða áhuga á því konsepti. Stinni var listamaður og vildi að allur heimurinn heyrði hvað hann syngi listavel. Þráin að slá í gegn er þannig og hefur alltaf verið drifkraftur listsköpunar. Þannig frægð er góð og það er gott að hún sé eftirsóknarverð. Hitt er bara eitthvað allt annað.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.