Jólin eru ákveðinn tími

Ég er eins og klukka þegar dimma tekur á hverju ári. Um leið og haust verður nógu dimmt og kalt svo byrja megi að kalla haustið vetur, þá fæ ég einhverja ónotatilfinningu.

Ég er eins og klukka þegar dimma tekur á hverju ári. Um leið og haust verður nógu dimmt og kalt svo byrja megi að kalla haustið vetur, þá fæ ég einhverja ónotatilfinningu. Það byrjar yfirleitt alltaf eins: um leið og auglýsingunni utan á IKEA, þeirri sem snýr að Setberginu og Kaplakrika, er breytt. Jólin þín byrja í IKEA stendur skýrum stöfum, alltaf eins á ári hverju. Og þá fæ ég tilfinninguna. 

Ég myndi seint kalla tilfinninguna kvíða – það nær ekki svo langt – heldur frekar bara svona algjört grunnstef annars frekar sterkrar tilfinningar, sem líklega í sinni alvarlegustu mynd væri einhvers konar ofsakvíði. En eins og ég segi, tilfinningin nær ekki svo langt. Soldið eins og þegar unglingar segjast vera ástfangnir, þegar þeir raunverulega geta alls ekki skilið stærð þeirrar tilfinningar. Unglingurinn hefur bara rétt svo dýpt tánni ofan í það grunnstef tilfinninga sem hrifning hans á sætu stelpunni í bekknum er, í samanburði við uppsafnaða ást hjóna sem gift hafa verið í áratugi. 

Jólin byrja því klárlega í IKEA, já, eins og segir í auglýsingunni. Eða öllu heldur þessi tilfinning mín kannski frekar, hún byrjar í IKEA. Tilfinningin sem er við hlið kvíða það sem skot unglings er við hlið sannrar ástar. Tilfinningunni get ég eingöngu lýst sem meðvitund um að einhver ákveðinn tími sé núna í gangi og að því fylgi einhver eftirvænting. Jólin eru ákveðinn tími, og meðvitundin um jólin er ansi sterk – það fer ekkert framhjá manni þegar jólin ganga í garð.

Það situr bara einhvern veginn alltaf í mér, áberandi sterkt yfir jólin, að þá sé einhver algjörlega afmarkaður tími. Það er ekkert bara eitthvað að gerast, ekki bara einhver venjulegur þriðjudagur í mars. Nú er sko jólahátíð og það er sko allt öðruvísi tími núna en vanalega. Lykilatriðið er svo að til þessa tíma sé gerðar kröfur. Eftirvæntingar. Það SKAL sko bara vera gaman á jólunum.

Allar jólahefðirnar skapa auðvitað væntingar, af því af hverju ættum við að halda í hefðirnar nema bara af því okkur þykja þær skemmtilegar? Margir bíða spenntir eftir því að gera hitt og þetta af því þeir hafa gert það áður og hefur fundist það gaman áður. Gallinn við að lofa sjálfum sér upp í eigin ermi með þessum hætti, er að maður setur endalausa pressu á sjálfan sig og aðra með þessu. Við stillum upp alls konar viðburðum í aðdraganda jóla og lofum okkur sjálfum og öllum í kringum okkur að það verði ógeðslega gaman og notalegt á þessum afmarkaða tíma sem við köllum jól.

Ég trúi því samt að það sé önnur tilfinning sem trompi þá tilfinningu sem ég lýsti hér áðan: tilfinningunni um að með jólunum gangi í garð einhver tími og að til þess tíma séu gerðar kröfur. Það tekur mig enda alltaf svona um það bil mánuð, frá því að jólin byrja að gera vart við sig og þar til þau ganga formlega í garð klukkan sex á aðfangadagskvöld, að fatta að jólin eru frábær. Ég sagði áðan að fyrrgreind ónotatilfinning helltist yfir mig með IKEA-auglýsingunni ár hvert, eins og ef um klukku væri að ræða – einu sinni á ári hringdi hún bara inn ónotatilfinninguna. Málið er nefnilega að ónotatilfinningunni er hringt jafnskjótt út úr mínu lífi á ári hverju, líkt og ef um sömu klukku væri að ræða. 

Það gerist með komu sjálfra jólanna á aðfangadag, þegar maður er búinn að öllu, getur bara sest niður og slakað fullkomlega á í faðmi vina og fjölskyldu, þó það sé jafnvel bara í örfáa klukkutíma. Þegar maður þarf ekki lengur að uppfylla eigin væntingar til jólanna, heldur bara að upplifa jólin sjálf. Það er þá sem meðvitundin um tímann hverfur og maður hugsar ekki lengur til hans, heldur er maður bara í honum miðjum. 

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.