Íslenskir hestar á jóskum heiðum

Það má segja að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, hafi kastað sprengju inn í íslenska samfélagsumræðu í viðtali við Vísi nú um helgina. Þar hélt hann því fram að það væri stórkostlegur misskilningur að hestamennska væri ekki íþrótt.

Það má segja að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, hafi kastað sprengju inn í íslenska samfélagsumræðu í viðtali við Vísi nú um helgina. Þar hélt hann því fram að það væri stórkostlegur misskilningur að hestamennska væri ekki íþrótt.

Kannski er þó réttara að segja að Guðmundur hafi ekki kastað heldur grafið upp sprengju frá löngu gleymdu stríði íslenskra þjóðmála. Við erum enn nokkur sem munum þá tíð þegar tekist var harkalega á um það hvort hestamennska væri íþrótt eða landbúnaður.

Líklega hefur þessa hápólitíska og hámenningarlega deila aldrei náð hærra en sumarið 2003 þegar heimsmeistaramót íslenska hestsins var haldið í Herning á Jótlandi. Í aðdraganda mótsins urðu talsverð átök innan stjórnarráðsins um það hvort menntamálaráðherra eða landbúnaðarráðherra ætti að sækja mótið fyrir Íslands hönd. Sá sem þetta ritar stóð deilunni nærri sem aðstoðarmaður þáverandi menntamálaráðherra.

Í embættunum tveimur voru á þessum tíma aðsópsmiklir stjórnmálamenn, ríklyndir báðir tveir, og þetta mál stóð hjarta þeirra nærri. Tómas Ingi Olrich var þá menntamálaráðherra en Guðni Ágústsson gegndi embætti landbúnaðarráðherra. Loftið var lævi blandið og uppgjör virtist óumflýjanlegt.

Okkur Tómasi fannst augljóst að hestar ættu undir ráðherra íþróttamála á meðan þeir væru á fæti og notaðir til keppnisreiðar. Að öðru leyti væru þeir landbúnaðarafurð, ýmist verðandi eða orðin. Landbúnaðarráðherrann var á öndverðum meiði og gaf sig hvergi.

Fór svo að hvorugur gaf eftir og báðir ráðherrararnir voru fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar á mótinu í Danmörku. Tómas Ingi hélt opnunarávarpið á sinni hljómþýðu hástéttarensku en Guðni sleit mótinu með eftirminnilegri ræðu sem flutt var á kjarnyrtri íslensku en leikþýdd samhliða af þáverandi Umboðsmanni íslenska hestsins, Jónasi R. Jónssyni, sem stóð við hlið ráðherrans á sviðinu.

Rennur gjörningur þeirra félaga aldrei úr minni þeirra sem viðstaddir voru þennan sólríka dag á jósku heiðunum.

Frá þessu móti eru til fleiri sögur en þær bíða betri tíma.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.