Illskan við völd

Litlu skiptir hversu oft velmeinandi gáfufólk á Vesturlöndum leysir deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs í formi ályktana, áskorana og fordæminga. Grundvallarforsenda þess að friður og réttlæti komist á er að leiðtogar Ísraels og Hamas hafi bæði umboð og áhuga á því að koma á friði. Sú forsenda virðist því miður alls ekki vera til staðar.

Allt frá því ég man eftir mér hef ég heyrt fréttir af „ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs.“ Og allan þann tíma hefur mig langað til þess að skilja það. Reyndar var ég svo einfaldur þegar ég fyrst fór að velta fyrir mér þessu svokallaða ástandi, að mér fannst lausnin vera algjörlega augljós. Ef allir aðilar sammæltust einfaldlega um framtíðina í stað þess að velta sér upp úr fortíðinni þá væri hægt að draga úr þjáningunum og gera líf fleiri betra til lengri tíma. En þetta var auðvitað mjög barnalegt. Ég hafði ekki hugmyndaflug til þess að gera ráð fyrir því að til væru einstaklingar sem beinlínis vilja ofbeldi, illdeilur og þjáningar frekar en frið. En þannig fólk er sannarlega til og sumt af því liði er ákaflega valdamikið.

Ólíkt mörgum öðrum mannskæðum deiluefnum þá virðst mjög margir telja sig geta tekið einarða afstöðu þegar kemur að „ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs.“ Og eins grátlegt og það hljómar þá skiptast línurnar á einhvern furðulegan hátt meira eftir flokkspólitískum línum en nokkru öðru. Þetta er mjög merkilegt og segir töluverða sögu um raunverulegan sess þessara málefna í stjórnmálalífi Vesturlanda, þar með talið hér á Íslandi.

Þó er víst að þessi mál eru alls ekki einföld. Ísraelsmenn telja sig margir búa við stöðuga tilvistarógn, sem meðal annars lýsir sér í heitstrengingum óvina þeirra um að drekkja þjóðinni í Miðjarðarhafinu. Og sjálfir reka Ísraelsmenn ríki sem byggist á trúarbrögðum—þar sem öfgahópar á jaðrinum ráða sífellt meiru.

Þróun síðustu vikur er ískyggileg. Fréttir frá Ísrael virðast bera með sér að ísraelsk stjórnvöld hafi að undanförnu viðhaft ýmis konar ögranir, smáar sem stórar, og hent sprekum á hina síkraumandi ólgu milli fólks á svæðinu. Margar af þessum ögrunum virðast hafa verið hannaðar til þess að undirstrika vanmátt múslima til þess að hafa aðgengi að heilögum stöðum í Jerúsalem. Svoleiðis valdníðsla er örugg leið til þess að framkalla heitar tilfinnignar.

Það er mjög erfitt að verjast þeirri hugsun að forsætisráðherra Ísraels, sem nú á í vandræðum með að mynda ríkisstjórn og á hugsanlega yfir höfði sér margvíslegar málsóknir ef hann fellur úr embætti, hafi verið býsna meðvitaður um að stórar sem smáar ögranir gætu egnt illskuöflin í Hamas til ofbeldisverka. Og þótt allt sæmilega innrætt fólk horfi með hryllingi á þróun mála þessa dagana, þá er ekki hægt að horfa framhjá því að hún hentar Netanyahu alls ekki illa.

Og vitaskuld má hið sama segja um forystufólk Hamas, sem viðhefur algjöra ógnarstjórn yfir sínum þegnum. Það er mjög hæpin forsenda að halda að þrá eftir frelsi, frið, lýðræði og mannréttindum séu raunveruleg markmið slíkra afla.

Litlu skiptir hversu oft velmeinandi gáfufólk á Vesturlöndum leysir deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs í formi ályktana, áskorana og fordæminga. Grundvallarforsenda þess að friður og réttlæti komist á er að leiðtogar Ísraels og Hamas hafi bæði umboð og áhuga á því að koma á friði. Sú forsenda virðist því miður alls ekki vera til staðar.

Hamas-samtökin eru spillt og illgjörn—og núverandi forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanyahu, virðist vera algjörlega siðblindur og heltekinn af þeirri einföldu hugmyndafræði að svífast einksis til þess að ná og viðhalda völdum. Raunverulegar lausnir virðast því ekki í sjónmáli fyrir hið hrædda og þjáða fólk sem á allt sitt undir þessum hörmulegu leiðtogum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.