Hvers vegna eru lög og regla?

Við notum lög til þess að fá fram samfélagslegt réttlæti, öryggi og velferð. En til þess að þau virki þurfa þau að vera skýr og óumdeild; við viljum búa í réttarríki. Því verður að gera þá kröfu að stjórnvöld á borð við sóttvarnarlækni gæti þess sérstaklega að þau hafi nægar lagaheimildir til athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum sem teljast verulega íþyngjandi og mikið inngrip í líf þeirra.

Ekki benda á mig, segir varðstjórinn

Það vakti nokkra furðu í vikunni þegar haft var eftir sóttvarnarlækni að það væri ekki hans mál að túlka lög eða framkvæmd laga og reglugerða. Fókus sóttvarnaaðgerða væru sóttvarnarsjónarmið en ekki endilega lögfræðihlutinn þótt hann þyrfti auðvitað að vera í lagi. Tilefnið var  að tugir og síðar hundruð einstaklinga, þar á meðal Íslendingar búsettir hérlendis, höfðu verið sviptir frelsi og skikkaðir til dvalar í svokölluðu „sóttkvíarhóteli“. Þeim var færður matur inn á herbergi þrisvar sinnum á dag og óheimilt að yfirgefa herbergi sín. Á meðan að á a.m.k. 5 sólahringa innilokun stendur fá þeir enga útivist. Einstaklingarnir höfðu það til sakar unnið að hafa ferðast um svæði með tiltekið nýgengi smita samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu.

Þessi yfirlýsing sóttvarnarlæknis vakti athygli mína fyrir margra hluta sakir. Okkar forréttindastaða í mannréttindamálum hérá Vesturlöndum hefur verið mér hugleikin í skrifum mínum m.a. hér. Okkur hefur tekist að festa í sessi grunngildi mannréttinda og frelsis og þeim erum við farin að taka sem sjálfsögðum. Þeir sem hafa vogað sér að skrifa og tjá sig um ákveðin mannréttindi sl. mánuði hafa verið sakaðir um óeiningu og sundurlyndi og jafnvel merkir rithöfundar  hafa afþakkað „akademískar hugleiðingar um frelsi…þar til þessi plága er gengin yfir.“

En af hverju erum við með lög og reglur? Af hverju spörum við okkur ekki gífurlegan kostnað við löggæslu, dómstóla og lagasetningu og setjum ákvörðunarvaldið í hendur, tjah, nefndar t.d. þriggja embættismanna?

Í réttarríki setjum við lög og reglur til þess að kveða á um tengsl og samskipti milli einstaklinga í samfélaginu. Þessar reglur hafa það hlutverk að draga úr árekstrum á milli einstaklinga; láta sambúð þeirra ganga betur. Mikilvægt er að lög og reglur sem við setjum okkur séu skýr og ekki leiki vafi á um efni þeirra. Í réttarríki setjum við lög og reglur og breytum þeim reglulega til þess að ná því fram sem við teljum sanngjarnt og réttlátt hverju sinni. Ein allra mikilvægasta regla réttarríkisins er sú að mönnum sé ekki refsað fyrir það sem ekki hefur verið lögfest og miklar kröfur eru gerðar til skýrleika refsiheimilda.

Útbreidd eru samfélög þar sem lagabókstafurinn er ekki meitlaður í stein og túlkun hans háður geðþótta valdhafa. Þar er ekki tryggt að lögbrjótar hljóti viðurlög og ekki hægt að treysta á óvilhalla dómstóla til að tryggja réttláta niðurstöðu. Lagakerfi hafa verið lögð niður og þeim umbylt í nafni byltingarinnar, líkt og í Rússlandi 1917.

Spyrjið þá sem voru á vakt

Við notum lög til þess að fá fram samfélagslegt réttlæti, öryggi og velferð. En til þess að þau virki þurfa þau að vera skýr og óumdeild; við viljum búa í réttarríki. Því verður að gera þá kröfu að stjórnvöld á borð við sóttvarnarlækni gæti þess sérstaklega að þau hafi nægar lagaheimildir til athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum sem teljast verulega íþyngjandi og mikið inngrip í líf þeirra.

Nokkrir einstaklingar létu á það reyna fyrir dómi að skikkan þeirra í sóttkvíarhús væri ólögmæt frelsissvipting og hefur héraðsdómur staðfest að svo sé. Þegar þessi pistill er ritaður eru úrskurðir málanna ennþá óbirtir, en undirrituð skorar á aðra Deiglupenna að brjóta þá til mergjar um leið og færi gefst.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.