Hvern skaðar þetta?

Í brjóstafári liðinnar viku mátti heyra ófáar gagnrýnisraddir kveða sér hljóðs.

„Ósmekklegt!“
„Þetta skilar engu!“
„Athyglissýki!“
„Hugsið um börnin!“
„Þetta er ekki femínismi!“
„Veit fólk ekki að mín útgáfa af femínisma er hin eina rétta!“

Jæja þá, líklega sagði enginn þessa síðustu málsgrein upphátt, en það mátti skilja á sumum að þessi spurning brynni á þeim líkt og særð geirvarta sem dælir blóði blandaðri mjólk í svangt ungabarn. Fyrir þær okkar sem það þekkjum.

Fyrir mitt leyti segi ég að þessar hugrökku konur sem stóðu að #freethenipple eigi skilið dúndrandi lófaklapp, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þær tóku af skarið, þær tóku völdin, þær vöktu fólk til umhugsunar og urðu til þess að fólk úti um allan heim fóru að velta fyrir sér allskonar hugmyndum tengdum stöðu kvenna, jafnrétti og líkamsvirðingu. Vel gert, stelpur.

En auðvitað er öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og vera ósammála. Það er eðlilegt, sjálfsagt og yndislegt að svo sé. Við erum heppin að lifa í samfélagi sem leyfir fólki að rökræða, rífast og storma út í fússi þegar einhver byrjar að líkja einhverjum öðrum við nasista. Sem gerist nánast alltaf.

Svo má líka alveg þykja #freethenipple vera plebbalegt eða ekki nógu „classy“ eða hvaðeina. Það er þó ekki úr vegi að hafa í huga, þegar eitthvað kemur við kauninn á samfélaginu, að það er ákveðið grundvallaratriði að velta fyrir sér eftirfarandi þremur orðum: Hvern skaðar þetta?

Hvern skaðar þetta?

Og ef svarið er „engan“ þá er kannski ekki þess virði að ráðast að fólki með svívirðingum. Bara hreint ekki.