Pistill til heiðurs hinu hæga og varfærna

Mig langar til að segja nokkur orð um það sem sumir kalla gömlu stjórnarskrána okkar. Hún er að vísu enn í gildi og hefur verið síðan 1944 og byggir að mestu leyti á enn eldri stjórnarskrá frá Danmörku á 19. öld. Hún hefur hins vegar uppfærð nokkrum og tekið breytingum en þær hafa verið frekar hægar og varfærnar.

Hægt og varfærið, stöðugleiki og festa þykja kannski ekki sérstaklega eftirsóknarverðir eiginleikar í dag. Nova myndi sennilega ekki markaðssetja nýja símann þannig. En þetta eru einmitt þeir kostir sem eiga að prýða stjórnarskrá.

Stjórnarskrá er æðri öðrum lögum. Þetta þýðir að lög sem Alþingi setur þurfa að standast stjórnarskrána og ákvæði hennar. Ef Alþingi setti t.d. lög um að banna tiltekna umræðu, taka eignir af íbúum landsins, mismuna gagnvart ákveðnum hópum osfrv. þá þyrftu þessi lög að standast ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi, eignarrétt og jafnræði. Sem þau myndu sennilega ekki gera.

Stjórnarskráin geymir þannig ákveðnar meginreglur, lýsir stjórnskipun landsins og mannréttindum.

Fyrir um áratug voru gerðar tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þótt hún hafi ekki orðið að veruleika, kannski einmitt af því að þetta var alltof stór biti til að taka í einu, þá var margt í þeim tillögum sem má nýta. Ferlið við að breyta stjórnarskránni er ekki einfalt, Alþingi þarf að samþykkja breytingar á henni en þegar það er gert ber að rjúfa þing og halda kosningar og þá þarf nýtt þing að staðfesta þessar sömu breytingar.

Það er því innbyggð ákveðin íhaldssemi í stjórnarskrána og það er gott, því það væri ekki til bóta ef stjórnarskránni væri breytt reglulega. Ef til að mynda það væri vaninn að ný ríkisstjórn tæki sig til og endurskrifaði stjórnarskrána eftir sinni pólitísku hugmyndafræði þá eru allir líkur á að næsta ríkisstjórn myndi gera slíkt hið sama til að vinna upp á móti því sem var gert síðast. Og svo koll af kolli. Þetta myndi þýða að grundvallarlögin væru stöðugt að breytast, það væri stöðugt verið að setja nýjar stjórnarskrár með tilheyrandi óvissu.

Ég ætla ekki að hljóma eins og sá sem heldur að ef einhverju verði breytt einu sinni, þá sé hætta á að öllu sé breytt alltaf en þetta skiptir samt máli. Ákvæði stjórnarskrárinnar mótast svo frekar eftir að dómstólar hafa fjallað um ákvæði hennar, dæmt dóma og skapað fordæmi, skýrt vafatilvik og þar fram eftir götunum. Ef við erum stöðugt að hræra í þessum ákvæðum þá missum við þessa framkvæmd og þennan fyrirsjáanleika.

Eigum við þá ekki að breyta neinu? Jú, en það er einmitt mikilvægt að gera þetta í góðri sátt. Í þessum málaflokk á að skipa mikið af nefndum, skrifa margar skýrslur og fara sér að engu óðslega. Annars er hætta á að stjórnarskráin missi sinn sess.

Það má heldur ekki gleyma því að hún hefur þjónað okkur ágætlega. Íslenskir borgarar hafa unnið ýmsa sigra gegn kerfinu með því að beita ákvæðum stjórnarskrárinnar fyrir sig. En hún er auðvitað ekki heldur nein allsherjarlausn, rétt eins og stjórnarskráin sem er lagt til að leysi hana af hólmi mun ekki útrýma spillingu eða gefa okkur fullkomið lýðræði.

Var þessi pistill skrifaður í inniskóm og með tebolla í hönd? Já. Og höfundur skammast sín ekkert fyrir það.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.