Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum?

Covid þokunni er að létta og bjartari tímar eru framundan.Landsmenn eru sloppnir af heimaskrifstofunni og úr (flestum) samkomutakmörkunum og taka sumri fagnandi.

Covid þokunni er að létta og bjartari tímar eru framundan.Landsmenn eru sloppnir af heimaskrifstofunni og úr (flestum) samkomutakmörkunum og taka sumri fagnandi. Það er mikið af gleðskap og mannamótum sem þarf að vinna upp og nú þarf að ganga rösklega til verks. Aldrei hefur verið meira að gera í sölu á partý vörum enda afmælisveislur, fermingar, brúðkaup, útskriftir og önnur mannamót verið á ís alltof lengi. Í anda okkar Íslendinga munum við örugglega ganga svo hratt um gleðinnar dyr að með haustinu verðum við útkeyrð og farin að sakna rólegheitanna sem fylgdu faraldrinum. 

Enn faraldurinn margumræddi varð til þess að við tókum uppalls konar nýja hegðun. Er líklegt að eitthvað af þessu muni festast í sessi til lengri tíma? 

Almennt hreinlæti

Í fyrsta lagi má nefna að almennt hreinlæti jókst mikið í faraldrinum. Öll fórum við að passa betur upp á þvo hendur vel og spritta og fyrir einhverja var það hreinlega nýjung. Markmiðið var að sjálfsögðu að draga úr smitleiðum fyrir Covid veiruna og í leiðinni minnkuðum við smit á öðrum umgangspestum. Flestir foreldrar hljóta að fagna þeirri breytingu að póstum frá leik- og grunnskólum um lús og njálg hefur fækkað gríðarlega í faraldrinum. Mikið væri nú gott ef það myndi haldast. 

Það er alþekkt staðreynd að alls staðar þar sem fólk kemur saman og kvenna- og karlaklósett eru til staðar er alltaf mun styttri röð á karlaklósettið. Því hefur verið haldið fram að konur þurfi lengri tíma til athafna sig og það skýri muninn. Líklega er eitthvað til í því. En undanfarna mánuði í faraldrinum hefur borið á því að raðir virðast hafa lengst á karlaklósettin. Heyrst hefur að það sé vegna þess að nú séu karlmenn að þvo sér svo vel um hendurnar, sem þeir voru greinilega ekki að gera svo mikið áður! Ég sel það svosem ekki dýrara en ég keypti það en vona innilega að karlmenn haldi áfram að þvo sér vel um hendur. Almennt betra hreinlæti hlýtur að vera komið til að vera. 

Sprittnotkun

Almenn notkun á handspritti var ekki svo algeng fyrir faraldurinn en nú er sprittbrúsi staðalbúnaður á öllum mannamótum, í verslunum og víðar. Sprittbrúsarnir hafa ekki horfið með minnkandi takmörkunum á samkomum og ekki ólíklegt að t.d. verslanir muni áfram bjóða upp á handspritt fyrir gesti og gangandi. Hvort fólk nýtir sér það áfram er svo annað mál. Sprittbrúsinn mun líklega fylgja okkur eitthvað áfram. 

Grímunotkun

Grímunotkun var einn leiðinlegasti fylgikvilli faraldursins að mati höfundar. Það var í raun merkilegt hvað fólk fór hratt úr því að horfa skringilega á þessa örfáu sem gengu upp með grímur í að spotta út þann eina sem var grímulaus og fordæma hann með grimmu augnaráði undan grímum. Almenn grímunotkun er alveg örugglega ekki komin til að vera og við verðum fljót að komast á þann stað, eða erum komin þangað nú þegar að horfa skringilega á þessa fáu sem ganga um með grímur. 

Förum í röð

Þá virðist faraldurinn líka hafa leitt til þess að við Íslendingar höfum nú loksins lært að standa í röð. Slík hegðun var landsmönnum almennt mjög framandi fram að heimsfaraldrinum og við fylgdum reglunni um sá sem er bestur að troðast, kemst fyrst að. Með fjöldatakmörkunum í verslunum, röðum í sýnatöku og nú síðast löngum röðum í bólusetningu hefur okkur tekist að læra þessa hegðun. Vonum að okkur takist að halda í þessa hegðun. 

2m reglan

Reglan um 2 metra milli manna er kannski dæmi um hegðun sem okkur tókst aldrei almennilega að læra. Allavega virtist mælieiningin metri vera stundum á flökti. Þó að margir kunnivel við að hafa sitt persónulega rými nokkuð mikið þá eru 2 metrar á milli manna þannig að engin eðlileg samskipti geta farið fram. Enda erum við strax komin aftur í góða nálægð milli fólks, þar sem flestir kjósa að vera. Það er því ólíklegt að við munum halda því áfram að halda fjarlægð milli fólks.

Handaband

Handabandið var eitt það fyrsta til að hverfa en virðist vera smám saman að koma til baka. Mögulega því við fundum ekki nógu góðan arftaka. Ýmis látbrigði voru reynd sem náðu illa að festa sig í sessi. Flestir notuðust við vandræðalegt bros og setninguna „við megum víst ekki takast í hendur“. Handbandið mun því örugglega snúa aftur sem er kannski ekki svo slæmt ef höldum öll áfram að þvo okkur vel um hendurnar. 

Skemmtanalífið

Faraldurinn gerði nánast út um skemmtanalífið í miðbænum en tækifærin lágu í fámennum heimapartýum. Samkomutakmarkanir og takmörk á opnunartíma þvinguðu okkar til að fara fyrr af stað í bæinn og fyrr heim. Þótt auðvitað sé margt jákvætt í því að fólk fari fyrr heim úr bænum og lögreglan hafi viðrað þá skoðun sína að opnunartími skemmtistaða ætti ekki að fara í fyrra horf aftur þá er mjög ólíklegt að svo verði áfram. Slík frelsisskerðing er með öllu óréttlætanleg þegar faraldurinn er að renna sitt skeið. Þó margir haldi því fram að ekkert gott gerist eftir 3 um nótt þá er alls ekkert útilokað að slíkt geti gerst og ástæðulaust að hafa þann möguleika af fólki.

Heima þegar við erum veik

Faraldurinn fékk okkur til að hætta að mæta veik í vinnuna. Lengi vel var stemningin að fólk mætti þrælkvefað í vinnuna og harkaði af sér flensueinkenni í stað þess að vera heima. Þetta hætti alveg í faraldrinum og allir voru heima með minnstu einkenni. Þótt ólíklegt sé að þau ströngu viðmið haldi um lengri tíma þá vonandi mun fólk hætta að mæta veikt í vinnuna og smita þar aðra með tilheyrandi raski fyrir vinnustaðinn. 

Fjarvinna

Á skömmum tíma voru gríðarlega mörg heimili orðin að vinnustað foreldra og jafnvel skólastofu fyrir börn líka. Fjarvinnutæknin var til staðar vel áður en faraldurinn braust út en hann skaut okkur ljósár fram í tímann að því að tileinka okkur þessa tækni. Þetta sýndi fram á að fjarvinna er góður möguleiki fyrir mörg störf og marga vinnustaði og án efa er fjarvinna komin til að vera í einhverri mynd. Það mun líklega hafa góð áhrif á jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Búseta fólks mun líka skipta minni máli fyrir atvinnu þegar fjarvinna er hluti af vinnustaðarmenningunni. 

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Eitthvað gott hljótum við að taka úr þessum faraldri. 

Göngum nú saman inn í sumarið, í þráðbeinni röð, út að skemmta okkur, með hreinar hendur og vel sprittuð. 

Gleðilegt sumar!

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.