Hraðamyndavélar á hjólastígum og aðrar vondar hugmyndir

Við hjólum yfir Wörtu-á og niður í miðbæ Poznań. Leiðin liggur eftir sérmerktum og aðgreindum stígum allt fram að Bernardínatorginu (p. Plac Bernardyński), rétt áður en komið er að Chopin-garðinum á hægri hönd. Ég geri ekki ráð fyrir að allir lesendur Deiglunnar gjörþekki svæðið í kringum Chopin-garðinn í Poznań svo við skulum skoða kort.


Hluti Grænugötu (p. Zielona) er merktur sem sameiginlegur göngu- og hjólastígur. En síðan endar sérmerkti stígurinn og velja þarf á milli þess að fara út á götuna á þessum stutta kafla eða reiða hjólið á gagnstétt (en almennt er óheimilt að hjóla á gangstéttum í Póllandi).

Auðvitað láta sumir sig hafa að hjóla þessa stuttu vegalengd á gangstéttinni. Sumir fara líka aðeins norðar og hjóla eftir Janiny Lewandowskiej-götu þar sem er mjög breið og slétt gangstétt og þar ekki einu sinni hægt að hjóla götuna enda hún einungis ætluð sporvögnum.

Nema hvað. Í gegnum tíðina hefur löggan auðvitað að komið sér fyrir bak við eitthvað tré í grennd og gripið hjólreiðamenn glóðvolga fyrir brot á umferðarlögum.

Fólk hefur því um tvo kosti að velja og báða slæma: a) að hjóla á gangstétt og eiga á hættu á fá sekt eða b) reiða hjólið og verða álitinn “frajer” af öllum samborgurum sínum. (“Frajer” er einstaklingur sem hlýðir fyrirmælum yfirvalda jafnvel þótt þau séu augljóslega heimskuleg og, já, Pólverjar eru með orð yfir það).

Stress við það vera nappaður af löggur dregur óneitanlega úr ánægjunni við að hjóla. Á Íslandi hefur lögreglan að mestu látið gangandi og hjólandi vegfarendur vera og stundar ekki virkt eftirlit með að þeir fari að umferðarlögum. Enda engin sérstök ástæða til. En reglulega koma upp raddir um að nú þurfi að breyta til. Setja þurfi hámarkshraða á hjólastíga og helst fylgjast grannt með að þeim reglum sé fylgt. Ein slík tillaga var borin upp á fundi í Reykjavík um daginn.

Sífellt fleiri hjóla sem er gott. Ef árekstrar myndast milli gangandi og hjólandi er það oftast vísbending um að breikka þurfi stigana og aðskilja vegfarendur betur. Á stöku stað þar sem því verður ekki komið við má hvetja til tillitsemi og treysta á skynsemi fólks. En að reyna að innleiða menningu boða, banna og eftirlits er vond hugmynd. Löggan hlýtur að hafa eitthvað betra við tímann að gera en að flagga niður racer-lið fyrir að hjóla á 33 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 30.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.