Horfumst í augu við nýjan veruleika

Gjörbreyttur veruleiki blasir við frá undirritun kjarasamninga 2019. Algjört hrun stærstu atvinnugreinar Íslands veldur því að 300 milljarðar hurfu úr hagkerfinu innan árs. Þó að innlend eftirspurn hafi að hluta til komið í staðinn er ljóst að afleiðingar minni umsvifa eiga eftir að koma að fullu fram og verður veturinn mörgum erfiður.

Samtök atvinnulífsins fullyrtu  í síðustu viku að forsendur lífskjarasamninganna væru brostnar og til alvarlegrar skoðunar kæmi að segja þeim upp. Viðbrögð verkalýðsforystunnar voru að ekki kæmi til greina að hnika við samningunum enda hefðu flestir áfangar þeirra náðst.

Kaupmáttur hefur aukist, vextir eru lágir ásamt því sem ríkisstjórnin hefur hrundið í framkvæmd flestum þeirra atriða sem þau tóku að sér samkvæmt samkomulaginu.

Gjörbreyttur veruleiki blasir þó við frá undirritun samninganna 2019.

Algjört hrun stærstu atvinnugreinar Íslands olli því að 300 milljarðar hurfu úr hagkerfinu innan árs. Þó að innlend eftirspurn hafi að hluta til komið í staðinn er ljóst að afleiðingar minni umsvifa eiga eftir að koma að fullu fram. Verður veturinn því mörgum erfiður.

Ríkisstjórnin hefur lagt kapp á það að nýta góða stöðu ríkissjóðs til að milda höggið þó líklega geti þau aðeins frestað afleiðingum hrunsins.

Við blasir grafalvarleg staða. Þó svo að ferðaþjónustan muni að lokum rétta úr kútnum verður nokkur bið í að hún nái fyrri styrk. Við þurfum því að horfast í augu við breyttar aðstæður næstu mánuði og jafnvel ár.

Mikið kapp var lagt í að búa til þann efnahagslega stöðugleika sem við nutum í upphafi árs 2020. Var það meðal annars gert til að auka fyrirsjáanleika í rekstri og til þess að skapa aðstæður lægri vaxta í þeirri von að auka stöðugleika, almenningi til hagsbóta.

Verkalýðsforystan lagði mikla áherslu á að lánskjör færðust nær því sem gengur og gerist í Norðurlöndunum og gekk það eftir. Forsenda þess var stöðugt gengi krónunnar og að verðbólga héldist innan skynsamlegra marka. Þessar aðstæður, ásamt mikilli eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum, olli því að lánskjör eru sögulega hagstæð. Einnig hafa flestir lántakendur valið sér að taka óverðtryggð lán og því hefur hlutfall slíkra útlána aukist hratt í samræmi við óskir stéttarfélaganna.

Forsenda þessarar þróunar var stöðugt gengi íslensku krónunnar en segja má að þær aðstæður hafi verið skapaðar með handafli. Gjaldeyrismarkaðnum var sniðinn þröngur stakkur með takmörkunum á viðskiptum og inngripum Seðlabankans.  Aukinn skyldusparnaður almennings í gegn um lífeyrissjóðakerfið leiddi síðan til meiri eftirspurnar eftir ríkisskuldabréfum og þar af leiðandi til lægri vaxta.

Stöðugt gengi ásamt uppgangi ferðaþjónustunnar skapaði síðan hagvöxt til að greiða niður skuldir ríkisins hraðar en flestir bjuggust við. Lægra hrávöruverð og aukin samkeppni í verslun og þjónustu voru síðan meðal þess sem hélt verðlagi í skefjum.

 COVID er prófsteinn á nýjar efnahagsaðstæður

Í fyrri kreppum hefur gengi krónunnar aðlagað samkeppnishæfni launa að nýjum aðstæðum. Nú virðist stefnan tekin á að gera þetta öðruvísi og freista þess að halda genginu stöðugu, verðbólgu í skefjum og vaxtakjörum lágum, þrátt fyrir áfallið, til þess að freista þess að verja kaupmátt almennings.

Sá efnahagslegi veruleiki sem samningsaðilar stóðu frammi fyrir við undirritun kjarasamninga hefur þó gjörbreyst og er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins horfist í augu við það. Aðlögun verður að eigi sér stað og hagkerfið að leita jafnvægis.

Annað hvort verðum við að sætta okkur við aukið atvinnuleysi, með því vonleysi sem því fylgir, eða að stilla launakröfur að nýjum veruleika.

Nú þegar ljóst er að verkalýðsforystan neitar að fresta hækkunum tímabundið þurfa launþegar að þiggja hærri laun sem mun kosta samstarfsmenn þeirra vinnuna.

Það er ekki skemmtileg tilhugsun.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.