Hinn göfugi tilgangur

Hann gladdi, statusinn sem ég rakst á núna um hátíðirnar, þar sem fram kom að viðkomandi myndi ekki senda rafrænar jólakveðjur að þessu sinni, þar sem fjölskyldan myndi senda jólakort.

Þetta er ákveðinn snúningur á hinni algengu tilkynningu um að ekki verði send nein jólakort þetta árið, heldur eingöngu rafrænar kveðjur. Oft fylgir með að þetta sé gert af virðingu við umhverfið og jafnvel að andvirði kortanna og frímerkjanna verði varið í göfug málefni.

Þakklæti – njóta

Þetta er eins og margt í dag. Við gerum ekkert lengur af því bara heldur tengjast athafnir okkar og ákvarðanir gildum og markmiðum. Enginn myndi lýsa því að hann ætlaði ekki að senda jólakort því hann nennti ekki að standa í umstanginu eða fyndist það leiðinlegt og gamaldags, heldur byggir ákvörðunin á virðingu við móður jörð og er tekin í þágu góðs málefnis. Allt hefur göfugan tilgang. Fólk vinnur orðið ekki lengur til að fá pening og eiga fyrir salti í grautinn heldur til að hjálpa, láta gott af sér leiða og breyta heiminum. Og eftir vinnu er ekki dauð stund heima á sófanum, heldur tími til að njóta með sínum nánustu og sýna þakklæti. Ég stend sjálfan mig að þessu, þegar ég er spurður hvers vegna ég hafi ákveðið að verða lögmaður svara ég því til að ég hafi fyrst og fremst viljað hjálpa fólki. Ég trúi því jafnvel í eitt augnablik áður en ég sný mér aftur að tölvunni og klára innheimtuviðvörunina. Kröfuhafar eru náttúrulega líka fólk.

Fórnarlamb nútímans

Á dögunum voru birtar niðurstöður úr könnun þar sem fram kom að fjórðungur landsmanna hygðist senda jólakort fyrir þessi jólin, en fyrir þremur árum var þetta hlutfall helmingur. Jólakortin eru að mörgu leyti fórnarlamb nútímans. Ekkert er lengur einfalt eða sjálfgefið heldur skapa einföldustu mál nagandi efa um allt og ekkert. Er ég tilbúinn að fórna mikilvægum trjágróðri á tímum hnattrænnar hlýnunar til þess eins að senda fólki, sem ég þekki lauslega, blað með forskráðum texta um gleðileg jól og farsælt komandi ár? Eða er þetta kannski skemmtileg og góð hefð sem væri gaman að viðhalda, persónuleg leið til að eiga í samskiptum á tímum þar sem öll okkar samskipti fara fram í gegnum tölvu og netið?

Allt hljómar sannfærandi á sinn hátt og það er vandasamt að staðsetja sig í þessari eilífu orrahríð um alla hluti, tala nú ekki að taka afstöðu og fylgja henni eftir. Fyrir hvern þann sem vill afnema jólakort vegna umhverfisspjalla er einhver annar mættur til að minna á að þessi sjálfskipuðu, yfirlætisfullu góðmenni samtímans ráði nú ekkert yfir okkur. Smám saman er maður lentur í rafrænum hvirfilbyl sem hlífir engu á sínum vegi, allt þar til deiluaðilar fara að líkja aðferðarfræði hvors annars við uppgang nasistanna og lítill engill deyr. Venjulegt, sómakært fólk leggjur því eðlilega lykkju á leið sína til að forðast slík ósköp en veifar hvítum lækfána ef að því er sótt.

Búin að steypa kjallarann

Ég náði rétt svo í skottið á jólakortatímabilinu. Á gullöld jólakortana voru þetta nokkurs konar samfélagsmiðlar síns tíma. Fólk sagði af sér helstu fréttir í stikkorðastíl, laumaði jafnvel framkallaðri mynd með og sendi út til fjölda manns. Í áttunni hefði strangheiðarlegt, íslenskt jólakort getað verið eitthvað á þessa leið: „Flugum til Lúx í sumar og leigðum bíl, erum búin að steypa upp kjallarann í nýja húsinu og krakkarnir elska nýju Nintendo tölvuna. Bestu kveðjur, Silla og Gummi“.

Þetta voru kannski fréttir sem viðtakandinn hafði ekkert endilega heyrt af, þurfti jafnvel tíma til að melta og leggja á minnið. „Bara búin að steypa kjallarann, djöfull eru þau seig“. Þetta voru áhugaverð tíðindi á tímum þegar íslenska millistéttin hafði engan tíma til að njóta og sýna þakklæti eftir vinnu þar sem hver einasta lausa stund fór í húsbyggingar og uppsteypu. Í dag væri viðtakandi svona jólakorts búinn að fá mjög reglulegar upplýsingar um framvindu allra þessara mála og ýmissa fleiri yfir árið í formi Facebook-statusa, Insta-sagna og Snapchatta og viðtakandum fyndist í þokkabót verulegur ókostur að geta ekki lækað þetta enn einu sinni.

Ítarlegt bókhald

Haldið var nokkuð ítarlegt bókhald um hverjum voru send kort og hverjir sendu til baka. Spurningar gátu vaknað um hvers vegna hinn eða þessi sendi ekki kort. Erum við ekki nógu skemmtileg lengur? Það gat verið áhættusamt að senda aftur ári síðar því ef viðkomandi sendi þér ekki önnur jólin í röð var þetta orðið erfitt. Svona eins og að heilsa einhverjum úti á götu sem heilsar þér ekki til baka, rekast á hann aftur nokkrum mínútum síðar og endurtaka leikinn með sömu niðurstöðu. Sá möguleiki að þetta hafi verið misskilningur í fyrra skiptið hafði verið útilokaður.

Svo gat orðið víxlverkun, ein jólin sendir þú og hinn ekki. Þegar viðtakandinn gerði listann sinn næsta ár bætti hann þér á og sendi en þú varst búinn að stroka hann út og sendir ekki. Svona gat þetta gengið árum saman. Viðhélt félagslegri spennu á jákvæðan hátt og skapaði ákveðinn hvata til að vanda sig í samskiptum. Benedikt Jóhannesson fyrrum fjármálaráðherra lýsir þessu vel í pistli sem hann birti á dögunum.

Umfang sendinganna gaf ákveðnar vísbendingar; segðu mér hvað þú sendir mörg jólakort og ég skal segja þér hver þú ert. Svipað og við myndum rýna í vinafjölda á Facebook í dag. Áttu 50 vini? Það er ígildi þess að hafa bara sent 3 jólakort. Áttu 3000 vini? Þú ert allavega 100 korta maður.

Póstburður er deyjandi list

Annað stórt högg fyrir jólakortin er svo sú staðreynd að fólki þykir það almennt verulegur ósigur að þurfa að skrifa eitthvað með penna, keyra út á pósthús og setja frímerki á umslagið. Svipað og að þurfa að fara niður í geymslu, sækja orðabók ofan í kassa og fletta upp í henni, allt til að komast að því hvað eitthvað orð þýðir. Af hverju allt þetta umstang þegar hægt er að gera þetta í tölvu með nokkrum smellum?

Þetta á svo sem ekki bara við um jólakortin, heldur bréfaskipti almennt. Póstburður er deyjandi list og Íslandspóstur, einokunarfyrirtækið á þessum markaði, er rekið með neyðarlánum frá ríkinu vegna þess að það eru svo fá bréf til að bera út. Það er orðið lítið eftir þegar einokunarfyrirtækið græðir ekki pening. Vélmennin hugsa sér þar að auki gott til glóðarinnar og eftir nokkur ár verður það ekki Pósturinn Páll sem læðir bréfum inn um lúguna þína, heldur nafnlaus dróni sem þú vilt helst ekki að börnin þekki.

Eftirsjáin

Eins og allt sem er deyjandi fer maður fyrst að finna eftirsjána á lokametrunum, þegar það er orðið um seinan. Þegar ég sit og skrifa þennan texta sé ég fyrir mér sjarmerandi endurkomu jólakortaskrifanna og að um næstu jól muni ég sitja og skrifa einlæg jólakort til fjölda fólks. Þegar þau berast til viðtakanda lýsist andlitið upp af einskærri gleði en undir hljómar notaleg íslensk jólatónlist.

Auðvitað veit ég að raunveruleikinn verður annar, ég á eftir að ýta þessu á undan mér allan desember og enda svo með því að skrifa kannski tvö jólakort, bara þau sem ég get alls ekki sleppt því að senda og póstlegg þau of seint hjá einokunarfyrirtækinu þannig að þau berast ekki fyrr en milli jóla og nýárs. Ef ég þarf að gefa á þessu einhverjar frekari skýringar ber ég fyrir mig umhverfisvernd og umhyggju fyrir ýmsum málefnum.

Annars vildi ég nú aðallega óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á árinu.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.