Hin óleystu vandamál

Áður en heimsfaraldurinn hófst og áður en fyrirsjáanlegar efnahagslegar hamfarir urðu mönnum ljósar, glímdi heimsbyggðin við mörg stór og að því er virtist óyfirstíganleg vandamál. Ekki einungis átti heimsbyggðin sem slík í vök að verjast heldur var vandi einstakra heimshluta, þjóða, hópa og auðvitað einstaklinga mikill og alvarlegur. Ekkert af þessum vandamálum hefur verið leyst.

Áður en heimsfaraldurinn hófst og áður en fyrirsjáanlegar efnahagslegar hamfarir urðu mönnum ljósar, glímdi heimsbyggðin við mörg stór og að því er virtist óyfirstíganleg vandamál. Ekki einungis átti heimsbyggðin sem slík í vök að verjast heldur var vandi einstakra heimshluta, þjóða, hópa og auðvitað einstaklinga mikill og alvarlegur.

Ekkert okkar þarf að hugsa langt til baka eða kafa djúpt í sjálfið til þess að rifja upp þau vandamál sem við var að glíma. Þetta voru ekki endilega lúxus- eða gervivandamál. Þetta voru raunveruleg vandamál og hér skal alls ekki gert lítið úr þeim. Sá sem þetta skrifar hafði og hefur raunar enn áhyggjur af áhrifum sjókvíaeldis á villta laxastofninn og það voru sannarlega ekki einu áhyggjurnar sem plöguðu og plaga enn þann hinn sama. Óþarfi er og kannski bara alls ekki við hæfi hér og nú að tíunda það allt saman í smáatriðum.

Og þær áhyggjur flestar og vandamál bliknuðu vitaskuld í samanburði við áhyggjur þær sem aðrir höfðu. Súrnun sjávar, flóttamannavandinn, ófriðarbál fyrir botni Miðjarðarhafs, sýklalyfjaónæmi, nýtt vígbúnaðarkapphlaup, bráðnun jöklanna, uppgangur ólýðræðislegra afla, svo fátt eitt sé nefnt. Ekkert af þessum vandamálum hefur verið leyst.

Þá hafa þúsundir manna víðs vegar um heiminn dáið fyrir aldur fram úr hungri, malaríu og viðlíka sjúkdómum og í stríðsátökum á meðan við höfum glímt við fordæmalausar aðstæður síðustu vikur og mánuði. Fæstir þeirra höfðu eflaust nokkru sinni heyrt um covid-19 og dóu því án vitneskju um hinar fordæmalausu aðstæður sem uppi voru um gervalla heimsbyggðina.

Þegar faraldrinum linnir – og honum mun linna eins og öðrum faröldrum sem hrjáð hafa mannfólkið frá örófi alda – þá munu öll þau vandamál, sem við glímdum við áður en við fengum að reyna hið fordæmalausa, enn vera óbreytt.

Það verður hins vegar forvitnilegt að sjá hvort við verðum það og hvort við lítum vandamálin sömu augum, hvort sem það eru okkar eigin litlu og stóru viðfangsefni eða tilvistarlegar spurningar mannkynsins. Nýtt sjónarhorn er stundum nauðsynlegt til að leysa hið óleysanlega.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.