Heimurinn sem börnin okkar munu erfa

Heilbrigt lýðræði þarf nauðsynlega á því að halda að mismunandi fylkingar líti ekki hvor á aðra sem hættulega óvini ríkisins.

Það eru rúm 11 ár síðan ég skrifaði síðast pistil hér á Deigluna. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum tíma. Ríkistjórnir hafa komið og farið. Alls kyns krísur hafa dunið yfir. Heimurinn hefur hlýnað. Tækninni hefur fleygt fram. Hagvöxtur hefur dregið verulega úr fátækt í heiminum. Sumt af þessu er gott,  annað slæmt eins og gengur. Það sem stendur hins vegar upp úr í mínum huga þegar ég horfi til baka og hugsa um það hvernig sýn mín á heiminn hefur breyst er hnignun lýðræðis og sú hætta sem steðjar að frjálslyndi í veröldinni.

Þegar ég var yngri, gaf ég mér að frjálslyndi og lýðræði væri komið til að vera og myndi sigra þann hluta heimsins sem þá þegar var ekki sigraður. Ég var til dæmis mjög eindregið þeirrar skoðunar að það væri einungis tímaspursmál hvenær Kína yrði lýðræðisríki. Þróun mála í Suður Kóreu væri gott dæmi um það sem myndi gerast annars staðar. Fyrst efnast fólk. Síðan krefur það stjórnvöld um lýðræði og frjálslyndi. Heimsmynd mín ekki ósvipuð þeirri sem Francis Fukuyama lýsti í The End of History. Þó ég gerði mér ekki grein fyrir því, þá trúði ég því að okkar tímar væru endalok sögunnar.

Í dag er þessi bjartsýni horfin. Nú er ég alls ekki viss hvort er líklegra á minni lífstíð, að stjórnarfar í Bandaríkjunum verði eins og það er nú í Kína eða að stjórnarfar í Kína verði eins og það er nú í Bandaríkjunum.

Á síðustu árum hef ég hugsað og skrifað mikið um iðnbyltinguna (sjá hér). Margir gefa sér að sá hagvöxtur sem við höfum búið við síðustu 250 árin muni halda áfram að eilífu. Í þessu sambandi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að stærstan hluta af sögu mannkyns var enginn hagvöxtur. Enginn. Allur þorri fólk bjó við sultarmörk. Einhver áhugaverðasta spurning sögunnar (að mínu mati) er: Hvað breyttist? Af hverju byrjaði allt í einu hagvöxtur? Þetta er flókin spurning sem fræðimenn eru ekki á einu máli um. Mín skoðun er að lýðræði og frjálslyndi hafi skipt sköpum í þessari þróun. Ef svo er er alls ekki útilokað að sú hnignun lýðræðis sem við búum við í dag muni á endanum drepa hagvöxt og hagsæld í heiminum.

En um hvað er ég að tala þegar ég segi að við búum við hnignun lýðræðis? Árás Trumps á trúverðugleika nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum er vitaskuld augljósasta dæmið þessa dagana. Hér er Trump að grafa undan grundvallarstoð í lýðræði Bandaríkjanna. En þó Trump sé sérstaklega slæmur þá er hann ekki rót vandans. Stoðir lýðræðis í Bandaríkjunum hafa verið að veikjast í nokkra áratugi. Um þetta skrifa Steven Levitsky og Daniel Ziblatt í How Democracies Die.

Heilbrigt lýðræði þarf nauðsynlega á því að halda að mismunandi fylkingar líti ekki hvor á aðra sem hættulega óvini ríkisins. Ef svo er verða stjórnmál að styrjöld þar sem báðar fylkingar svífast einskis. Þá verður auðvelt fyrir leiðtoga annarrar fylkingarinnar að telja stuðningsmönnum sínum trú um að það sé betra að lýðræðinu sé umbylt en að hin fylkingin komist til valda.

Lýðræði víða hefur átt erfitt uppdráttar í gegnum tíðina vegna þess að kommúnistar voru taldir óvinir ríkisins. Baráttan gegn kommunisma átti stóran þátt í því að fasismi náði tökum á stórum hluta Evrópu á fyrri hluta 20. aldar. Það var ef til vill heppni að slíkt gerðist ekki í Bandaríkjunum. Theodore Roosevelt var einstaklega hæfileikaríkur „miðjumaður“ í þessum slag sem ef til vill átti stóran þátt í að Bandaríkin þræddu mjóan meðalveg. Síðari hluti 20. aldarinnar markaðist svo annars vegar af minningunni um afleiðingar fasismans og hins vegar af baráttunni við Sovétríkin. Sú ytri ógn þjappaði mönnum saman.

Nú er hins vegar saga fyrri hluta 20. aldarninnar flestum gleymd og ekki í tísku að gera mikið úr þeirri ógn sem gæti stafað af Kína á næstu áratugum. Þar til fyrir skömmu var heldur ekki í tísku að hafa áhyggjur af hratt vaxandi ójöfnuði í samfélaginu. Það þótti ekkert tiltökumál að nánast allur ávöxtur hagvaxtar síðustu 50 ára hafi runnið til fámenns hóps þeirra sem mest hafa milli handanna. Í Bandaríkjunum hefur þar að auki breytt samfélagsmynd og vaxandi krafa um raunverulegt jafnrétti kynþátta og kynja valdið því að margir hvítir karlmenn (sérstaklega þeir sem eru ekki vel menntaðir) hafa áhyggjur af því að sú Ameríka sem þeir ólust upp í og „áttu“ sé að renna þeim úr greipum. Allt hefur þetta gert það að verkum að auðveldara er nú en áður að telja stórum hópi fólks trú um að þeir sem hafa aðrar skoðanir séu hættulegir óvinir ríkisins og að það sé nauðsynlegt að beyta öllum brögðum til þess að knésetja þessa andstæðinga. En sú braut endar fyrr eða síðar með falli lýðræðis og frjálslyndis.

Þegar ég horfi til Íslands frá Bandaríkjunum (þar sem ég bý), er ég ánægður að sjá að þessi þróun hefur ekki átt sér stað með nándarnærri jafn afgerandi hætti á Íslandi eins og í Bandaríkjunum. Á Íslandi starfa Vinstri Grænir og Sjálfstæðismenn saman í ríkisstjórn. Það segir sína sögu. Það eru hins vegar fletir í íslenskum stjórnmálum þar sem fólk á til að líta á skoðanir andstæðinga sína sem hættulegar skoðanir. Það á helst við um mál sem hafa með Evrópusambandið að gera. Og það eru aðilar í íslenskum stjórmálum sem eru að reyna að sundra þjóðinni. Í þessu sambandi er held ég mikilvægt að allir minni sig reglulega á það að andstæðingar þeirra í stjórmálum eru líka upp til hópa gott fólk sem vill láta gott af sér leiða. Slíkt hugarfar er líklegast til þess að viðhalda sterku lýðræði í landinu.  

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.