Haturberar I

Úlfar í sauðagæru

Hér á landi eru nú starfrækt a.m.k. þrjú meint rasistasamtök, Félag íslenskra þjóðernissinna, Félag framfarasinna og hin nýja Aríska upprisa. Þessi samtök berjast öll opinberlega gegn búsetu og dvöl fólks af erlendum uppruna hér á landi. En baráttan gegn nýbúunum einskorðast ekki við þessi félög. Stundum koma fram einstaklingar ótengdir þeim sem boða eða bergmála mikið afturhald í málum útlendinga með sama hræðsluáróðri og einkennir málflutning rasistaklúbbana.

Hér á landi eru nú starfrækt a.m.k. þrjú meint rasistasamtök, Félag íslenskra þjóðernissinna, Félag framfarasinna og hin nýja Aríska upprisa. Þessi samtök berjast öll opinberlega gegn búsetu og dvöl fólks af erlendum uppruna hér á landi. En baráttan gegn nýbúunum einskorðast ekki við þessi félög. Stundum koma fram einstaklingar ótengdir þeim sem boða eða bergmála mikið afturhald í málum útlendinga með sama hræðsluáróðri og einkennir málflutning rasistaklúbbana. Þessir einstaklingar eru mun hættulegri en klúbbarnir því þeir sigla einnig yfirleitt undir fölsku flaggi sem gerir það að verkum að erfiðara er að sjá undirliggjandi hatur og hræðslu í málflutningi þeirra.

Hræðsluáróður gegn útlendingum byggist að mestu á þremur lykilþáttum eða klisjum. Í fyrsta lagi að taka neikvæðar fréttir af fólki af erlendum uppruna og heimfæra þær upp á alla útlendinga. Í öðru lagi að ýkja og afskræma alla tölfræði um málaflokkinn. Í þriðja lagi að heimfæra satt og logið ástand og tölfræði erlendis í þessum málum upp á Ísland.

Til að rökstyðja og efla áróðurinn hafa haturberarnir síðan legið yfir öllum erlendum fréttum um útlendinga og tekið allar neikvæðar fréttir, upplýsingar eða tölfræði um þá og slegið þeim upp sem áróðri gegn innflytjendum. Þessar fréttir og upplýsingar eru iðulega teknar úr samhengi og aldrei er minnst á jákvæðar fréttir tengdar innflytjendum sem eru eflaust álíka margar. Hræðsluáróðurinn er síðan ávallt notaður til ýta undir neikvæða mynd af útlendingum.

Það er algengt að haturberarnir sigli undir fölsku flaggi og oft heyrist:

ég er ekki rasisti en…

og síðan kemur hræðsluáróðurinn og hatrið.

Raunverulegur boðskapur slíkra haturbera sést bersýnilega ef hann er skoðaður nánar. Undantekningalaust er boðskapurinn rökstuðningur fyrir því að það eigi að takmarka möguleika útlendinga á að setjast að hér á landi eða snúa þeim sem hingað hafa flutt aftur „heim” til sín. Aldrei heyrast haturberarnir segja að við eigum að læra af vandamálum erlendis og nota það til að hjálpa einstaklingum af erlendum uppruna til að aðlagast íslensku samfélagi og verða virkir þegnar. Ó nei, lausnin er alltaf að hindra útlendinga í að koma til landsins. Með öðrum orðum þá eru viðkomandi haturberar að segja að þeir hafi ekkert á móti útlendingum en vilji bara ekki búa á sama stað og þeir! Þetta viðhorf var t.d. mjög ríkjandi hjá ríkisstjórninni í Suður-Afríku þegar hún reyndi að útskýra fyrir umheiminum af hverju aðskilnaðarstefnan bæri ekki vott um kynþáttahatur. Það er því ljóst að þrátt fyrir að haturberarnir sverji af sér rasisma þá verður ekki litið fram hjá þeirri örgustu kynþáttahyggju sem felst í málflutningi þeirra. Úlfur í sauðagæru er alltaf úlfur, sama hversu mikið hann jarmar.

Þrátt fyrir að þessi hræðsluáróður sé yfirleitt borinn á borð af vitleysingum þá verðum við samt að hafa varann á því dropinn holar steininn. Svona áróður hefur einmitt verið mjög algengur í löndunum í kringum okkur og hefur oft verið orsök vandamála en ekki afleiðing þeirra. Þannig hefur hræðsluáróðurinn kynnt undir hræðslu og fordóma í garð útlendinga sem hefur gert þeim erfitt að nálgast vinnu og aðlagast samfélaginu að öðru leyti. Hræðsluáróðurinn hefur þannig getið af sér innflytjendavandamál.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að hræðsluáróðurinn sé einnig að virka ágætlega hér á landi. Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um stöðu mannréttinda í heiminum sem var kynnt í síðustu viku koma fram áhugaverðar upplýsingar um Ísland. Þar kemur meðal annars fram að orðið nýbúi hafi neikvæða meiningu hér á landi og sé aðallega notað yfir litaða einstaklinga. Jafnframt að asískar konur séu taldar vændiskonur sjáist þær á ferli eftir sólsetur og að börnum innflytjenda sé strítt á því að þau hafi verið seld hingað til lands á Internetinu.

Útbreiðsla á svona hræðsluáróðri fer yfirleitt fram óopinberlega á milli manna. Það er aðallega vegna þess að fáir haturberar þora að birta fordóma sína opinberlega. Einnig hafa fjölmiðlar verið blessunarlega tregir til þess að veita slíkum málflutningi vettvang. Við þurfum þó alltaf að vera á varðbergi, líta á svona málflutning með gagnrýnum augum og nota skynsemina. Á næstu dögum mun undirritaður taka frægustu klisjur kynþáttahataranna sérstaklega fyrir því það er mikilvægt að frjálslynt fólk, sem ber virðingu fyrir mannréttindum og frelsi einstaklingsins, hafi rök á takteinum þegar það mætir misvel dulbúnum rasistaáróðri fólks sem virðist hafa fátt annað en grundvallarlausan kynþáttahroka til haldreipis í lífinu. Staðreyndin er nefnilega sú að fæstir aðrir en rasistar nenna að leggja á sig að koma sér inn í þá umræðu sem haturberarnir bergmála hver ofan í annan. Því miður eru staðan orðin þannig hér á landi að ekki er hægt að leyfa þessum aðilum að einoka umræðuna.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.