(Háskóla)menntun sem nýtist í starfi

Staða drengja í íslenska skólakerfinu hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið og því miður ekki af góðu heldur vegna þess að opinber gögn sýna að 34,4 prósent drengja geta vart lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla.

Staða drengja í íslenska skólakerfinu hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið og því miður ekki af góðu heldur vegna þess að opinber gögn sýna að 34,4 prósent drengja geta vart lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Þetta hefur Tryggvi Hjaltason, faðir, tekið saman og vakið athygli á undanfarið í fjölmiðlum og viðtölum. 

Það er líka verulegt áhyggjuefni að vandamálið virðist vera séríslenskt og sambærileg afturför í lestri er ekki að merkja hjá drengjum í öðrum löndum. Afleiðinga þessa er líka farið að merkja í framhaldsnámi s.s. framhaldsskólum og háskólanámi þar sem hlutfall drengja í háskólum á Íslandi er komið niður í 32%. 

Það virðist vera erfitt að benda á einhverja ákveðna ástæðu fyrir þessari alvarlegu þróun. Eflaust er hún flókin og sambland margra þátta. Það er hins vegar alveg öruggt að við verðum að kafa ofan í kjölinn á þessari mjög svo sorglegu stöðu og bregðast við henni á öllum skólastigum. 

Sem móðir 15 ára drengs á lokaári í grunnskóla er ég í senn verulega áhyggjufull en á sama tíma spennt fyrir framtíð hans og tækifærum hans til frama og lífsviðurværis. Samkvæmt þeim opinberu tölum sem lagðar hafa verið fram geta einn af hverjum þremur drengjum í hans hópi ekki lesið sér til gangs að loknum 10. bekk. 

Samtöl okkar mæðgina snúast mjög oft um nám, heimavinnu og tilgang menntunar, þetta eru bæði skemmtilegustu og erfiðustu samtölin heimavið. Sonur minn er einn af þeim sem á oft erfitt með að sjá tilgang með grunnskólanáminu en á sama tíma biður hann um árs áskrift af Masterclass.com í jólagjöf. 

Hann er fróðleiksþyrstur, áhugasamur og metnaðargjarn en hefðbundnar kennsluaðferðir grunnskólans höfða ekki sterkt til hans og sjaldan nennir hann að lesa bækur, þó hann sé fenginn (píndur/mútað) til þess með einum eða öðrum hætti. 

Hann hikar hins vegar ekki við að leggjast í djúpar rannsóknir á áhugamálum sínum og er ekki í neinum vandræðum með að kynna sér hluti til hlítar. Hann er sterkari í eðlisfræði en MRingurinn móðir hans en það sem hann hefur lært hefur hann lært fyrst og fremst á netinu, aðallega á ensku. 

Framundan bíður hans val á framhaldsskóla og hærri námsstigum en ég óttast helst að ærði skólastigin hérlendis séu síður en svo betri en grunnskólinn til að bjóða upp á þær kennsluaðferðir eða námsleiðir sem hans kynslóð kallar á. 

Á undanförnum áratugum hafa t.d. orðið til aragrúi af sérhæfðum störfum sem ekki eru eru beinlínis kennd í háskólum. Störf í tæknigeiranum eins og hugbúnaðarprófari, leitarvélabestari, growth hacker, stafrænn vörustjóri eða stafrænn leiðtogi eru dæmi um algeng starfsheiti í dag en enginn námsleið í háskóla hér á landi skilar sérstakri gráðu í þessum fræðum. Einstaklingurinn þarf hreinlega að afla sér tiltekinnar reynslu eða óhefðbundinnar menntur á ákveðnu sérfræðisviði til þess að geta leyst þau verkefni af hendi. Þessa má oftar en áður sjá merki um í atvinnuauglýsingum nú til dags þar sem ekki er lengur gerð krafa um tiltekna menntun í ákveðnu fagi eða grein heldur hreinlega farið fram á ákveðna hæfni og (háskóla)menntun eða menntun sem nýtist í starfi. 

Sem betur fer þá hefur atvinnulífið og einkageirinn áttað sig á þessu gati í námsframboði og í dag bjóðast ýmsar leiðir til að afla sér sérhæfðrar þekkingar, óháð fyrri menntun, sem eykur starfsmöguleika enn ferkar umfram hefðbundið nám. Jafnframt er mun auðveldara en áður að afla sér slíkrar menntunar erlendis í gegnum netið án þess að þurfa að fara utan. 

Ef tölur yfir atvinnuleysi eftir menntun og kyni eru skoðaðar fyrir síðustu tvo áratugi þá koma áhugaverðar tölur í ljós. 

Atvinnuleysi er langmest á meðal drengja sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi og það er klárlega mikill ávinningur af því að afla sér frekari menntunar. 41% þeirra sem voru atvinnulausir árið 2020 voru eingöngu með grunnskólapróf samanborið við 11% sem voru með stúdentspróf. 

Það er hins vegar áhugavert að tæplega þriðjungur atvinnulausra árið 2020 voru með háskólapróf. Alls var hlutfall atvinnulausra með háskólapróf 26% árið 2020 eða tæplega þrefaldur fjöldi á við fólk sem eingöngu hefur lokið stúdentsprófi (11%). Karlmenn koma reyndar aðeins betur út borið saman við konur með háskólamenntun.

Þetta er ekki ný þróun heldur hefur þessi samanburður verið háskólamenntuðum í óhag frá árinu 2004. Frá árinu 2014 hefur hlutfall háskólamenntara í hópi atvinnulausra verið ríflega tvöfallt hærri en þeirra sem aðeins hafa stúdentspróf og þrefalt hærra frá árinu 2015 en þeirra sem hafa iðnpróf. 

Miðað við þessar tölur á vefsíðu Vinnumálastofunar um atvinnuleysi þá er vert fyrir ungt fólkt í dag að huga vel að starfsmöguleikum að loknu háskólanámi og velja sér nám sem líklegt er að skili tækifærum til atvinnu. 

Að sama skapi má velta fyrir sér hvort að ungir menn sjái meiri tækifæri fólgin í því að afla sér óhefðbundinnar menntunar og/eða reynslu á meðan konur eru eru líklegri til að að velja hefðbundara nám, jafnvel þó að það skili ekki endilega auknum tækifærum til atvinnu.

Eins og áður sagði þá er einkageirinn að svara því kalli að einhverju leyti en það væri virkilega áhugavert að rannsaka betur hvort að þær námsleiðir og kennsluaðferðir sem eru notaðar í óhefðbundu námi í dag séu vænlegri til árangurs og myndu höfða betur til drengja í hefðbundnu námi á háskólastigi.

Heimild:
https://vinnumalastofnun.is/media/1526/menntun-nytt-pr-ar.xlsx

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.