Harðskeljadekk og humarfroða

Þökk sé frönskum bræðrum, sem þráðu ekkert heitar en að selja bíldekk fyrir 120 árum, fékk hin fámenna íslenska þjóð enn eitt tækifæri til að fagna mögnuðum árangri sinna eigin landsmanna á heimssviðinu í fyrradag.

Þökk sé frönskum bræðrum, sem þráðu ekkert heitar en að selja bíldekk fyrir 120 árum, fékk hin fámenna íslenska þjóð enn eitt tækifæri til að fagna mögnuðum árangri sinna eigin landsmanna á heimssviðinu í fyrradag. Veitingastaðurinn Dill vann það afrek að hljóta hina eftirsóttu Michelin stjörnu, í annað skipti. Bíldekk og sælkeramatur ætti almennt ekki kalla ekki fram sterk hugrenningatengsl en hið fyrrnefnda var þó kveikjan að því sem er í dag æðsta viðurkenning sem veitingastöðum getur hlotnast.

Á því herrans ári 1900 glímdu bræðurnir André og Edouard Michelin við þann vanda að skapa eftirspurn eftir vörunni sinni. Þeir voru hjólbarðaframleiðendur en þar sem færri en 3.000 bifreiðar voru í Frakklandi á þessum tíma þurftu þeir að vera framsýnir og frumlegir. Þeim datt það snjallræði í hug að gefa út leiðarvísi fyrir ökumenn bifreiða til að hvetja til aukins aksturs með tilheyrandi og arðvænlegu sliti á hjólbörðum. Í fyrsta leiðarvísinum sem kom út í 35 þúsund eintökum voru kort, hótel, bensínstöðvar, verkstæði o.fl. gagnlegt fyrir bifreiðaökumenn. Michelin leiðarvísirinn var svo gefinn út í fleiri löndum á næstu árum og hefur verið gefinn út óslitið síðan með undantekningum þegar fyrri og seinni heimsstyrjaldirnar stóðu yfir.

Í fyrstu var leiðarvísinum dreift ókeypis en eftir að André sá stafla af honum nýttan sem stoð undir vinnubekk á bílaverkstæði var ákveðið að byrja að rukka fyrir hann. Þá var einnig bætt við flokkunarkerfi fyrir veitingastaði. Bræðurnir fundu fyrir auknum áhuga á kaflanum um veitingastaðina og fóru að senda útsendara til að taka út veitingastaði, allt í leyni að sjálfsögðu. Árið 1926 var byrjað að veita veitingastöðum Michelin stjörnur og árið 1931 var flokkunin frá einni upp í þrjár stjörnur kynnt. Fimm árum síðar var útskýrt hvað hver stjarna stendur fyrir:

1 stjarna – Mjög góður veitingastaður í sínum flokki (Une très bonne table dans sa catégorie)

2 stjörnur – Frábær matreiðsla, þess virði að leggja lykkju á leið sína (Table excellente, mérite un détour)

3 stjörnur – Einstök matreiðsla, þess virði að gera sér sérstaka ferð (Une des meilleures tables, vaut le voyage)

Það eru ekki bara veitingastaðir með Michelin stjörnur sem eru nefndir í leiðarvísinum. Allir veitingastaðir sem mælt er með í leiðarvísinum fá flokkun í formi hnífapara þar sem ein hnífapör þýða notalegur veitingastaður og fimm hnífapör þýða lúxus veitingastaður. Þá er einnig veitt svokölluð Bib Gourmand viðurkenning fyrir veitingastaði sem bjóða upp á gæðamat á hagstæðu verði.

Það var Dill veitingastaðurinn sem kom Íslandi á kortið hjá Michelin þegar staðurinn fékk stjörnu árið 2017 og ruddi þannig braut íslenskra veitingastaða á svið þeirra bestu. Sama ár voru fjórir aðrir veitingastaðir nefndir í Michelin leiðarvísinum fyrir Norðurlönd. Árið 2018 voru áfram fimm íslenskir veitingastaðir í leiðarvísinum, þar af Dill með Michelin stjörnuna sína. Árið eftir kom svo reiðarslag þegar Dill var svipt stjörnunni en sú bót var þó í máli að níu íslenskir veitingastaðir komust í leiðarvísinn og Skál fékk Bib Gourmand viðurkenninguna. Í ár vann Dill svo það afrek að endurheimta stjörnuna sína. Auk þess eru fimm aðrir íslenskir veitingastaðir nefndir í leiðarvísinum í ár.

Það er alveg ástæða til að staldra við þá staðreynd að 360 þúsund manna þjóð geti státað af slíkum gæðum og úrvali veitingastaða. Viðurkenning frá Michelin hefur þýðingu fyrir ímynd Íslands sem áfangastaður fyrir matgæðinga auk þess að vera mikilvæg hvatning fyrir íslenska veitingastaði að sýna metnað, frumleika og gæði. Og vegna þess að bræður vildu selja fleiri hjólbarða fyrir 120 árum getur fólk átt von á því að sjá uppblásinn dekkjakall (Michelin manninn) í öndvegi þegar það mætir í sínu fínasta pússi til að snæða á dýrustu veitingastöðum heims.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.