Hann er suðvestanstæður í dag

Suðvestanáttin var ríkjandi átt æsku minnar á Akranesi. Ekki endilega vegna þess oftast hafi vindur staðið úr suðvestri heldur vegna þess að það skipti mjög miklu máli hvort það var suðvestanátt eða ekki.

Suðvestanáttin var ríkjandi átt æsku minnar á Akranesi. Ekki endilega vegna þess oftast hafi vindur staðið úr suðvestri heldur vegna þess að það skipti mjög miklu máli hvort það var suðvestanátt eða ekki.

Sjósókn réði þar mestu. Frá Akranesi voru nálægustu mið í Faxaflóanum og þaðan réru dagróðrarbátar stíft, allt norður undir jökul, eins og sagt var. Sjólag var alltaf verst í suðvestanátt, enda flóinn opinn upp á gátt í þá áttina að Atlantshafinu. Í mikilli suðvestanátt gaf einfaldlega ekki á sjó og oft var eins og hún blossaði fyrirvaralaust upp.

Í þá daga var aðalsamgöngumátinn við höfðuborgina með Akraborg sem hélt uppi áætlunarsiglingum alla daga vikunnar, að jafnaði fjórar ferðir fram og til baka. Fyrsta ferð að morgni var lengst af kl. 8:30 frá Akranesi og tók siglingin klukkutíma. Að lokinni affermingu var lagt úr höfn í Reykjavík hálftíma eftir lendingu, eða kl. 10:00. Og þannig koll af kolli allan daginn. Síðar var ferðunum breytt þannig að fyrsta ferð frá Akranesi var kl. 8:00 og síðasta ferð frá Reykjavík kl. 18:30.

Ég man óljóst eftir gömlu Akraborginni, sem vitaskuld var ekki kölluð það fyrr en eftir að nýja Akraborgin var tekin í gagnið. Það skip þótt flott og má enn í dag berja það augum í Reykjavíkurhöfn, þar sem það liggur við festar og er notað sem skólaskip Landsbjargar.

Í nýju Akraborginni voru tveir aðalveitingasalir, þriðji var undir þiljum. Sá fremri var innréttaður grænum leðurstólum og viðarborðum og þar var einnig veitingasalan. Skipið hafði augljóslega ekki verið byggt fyrir samfélag þar sem áfengisneysla var tabú og því fór veitingasalan fram yfir barborð og var setið við barstóla.

Aftari salurinn var dekkaður appelsínugulum lit, leðurstólar og borð í stíl. Þar mátti reykja. Og þar hafði jafnframt verið komið fyrir sjónvarpi og VHS-vídeótæki með Tomma & Jenna spólu. Á meðan fullorðna fólkið fékk sér að borða í fremri salnum í fersku lofti sátu börnin yfir eilífum endurtekningum af Tomma & Jenna umlukin blágráu reykjarmistri frá þeim úr hópi fullorðinna sem ekki höfðu neina lyst á mat eða öllu heldur meiri lyst á nikótíni.

Og þetta var yfirleitt fínt. Akraborgin var ágætt sjóskip og ferðin tók ekki nema svona fimm þætti af Tomma & Jenna.

En ekki í suðvestanátt.

Á þessum árum fór ég að jafnaði 1-2 í mánuði til Reykjavíkur, einsamall frá á að giska 8 ára aldri. Daginn fyrir brottför var veðurfregna beðið átekta og ef það spáði suðvestanátt var ekki von á góðu. Stundum féllu ferðir einfaldlega niður en það kom þó fyrir að lagt var í hann í haugasjó. Þá var farin dýpri leiðin, sem svo var kölluð, utar í flóann. Fyrir okkur krakkana þýddi dýpri leiðin bara lengri leiðin og það þýddi líka lengri tíma um borð bullandi sjóveikur.

Í Akraborginni voru engir ælupokar. Einhverjum hafði dottið það snjallræði í hug að notast við sérútbúna æludalla í stað hefðbundinna poka. Síðar komst ég að því að hönnun þessara æludalla hafði verið sótt í kínverska take-away menningu sem þá hafði rutt sér til rúms á Norðurlöndum og meginlandi Evrópu. Dallarnir voru örlítið stærri en þeir sem notaðir eru undir hrísgrjón, en úr álíka hvítum plasthúðuðum pappa, og það sem mestu skipti, lokinu hafði vitaskuld verið sleppt. Þótt handhægir væru þessir dallar og röðuðust vel í hvern annan galtómir, þá minnkaði notagildi þeirra stórlega þegar þeir höfðu raunverulega verið notaðir. Erfitt gat reynst að labba um veitingasalinn til að losa úr dallinum, með skipsdallinn sjálfan veltandi hliðanna á milli, án þess að úr slettist.

Suðvestanáttin skipti mig minna máli eftir að ég fékk bílpróf árið 1992 og flesta þá sem erindi áttu til Reykjavíkur hætti hún að skipta máli þegar Hvalfjarðargöngin opnuðu árið 1998 og siglingar með Akraborginni lögðust af.

Suðvestanáttin hætti svo að skipta Akurnesinga máli, svo heitið geti, eftir að útgerð þar lagðist svo gott sem af fljótlega upp úr síðustu aldamótum. Það er helst norðvestanáttin sem er til trafala núna, hún getur verið ansi stíf á sjöundu holunni á Garðavelli.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.