Hafnaboltaæðið 2016

Íslenskir hafnaboltaáhugamenn hafa lengi mátt búa við skammarlega vanrækslu íslenskra fjölmiðla á íþróttinni. Ekki eiga þeir von á betra á næstu vikum þegar hætt er við því að fátt annað komist að heldur en túrneringin í Frakklandi. Til þess að koma til móts við þarfir þeirra beggja mun Deiglan halda áfram reglulegri umfjöllun um þjóðaríþrótt Bandaríkjanna og má búast við að sú umfjöllun þéttist eftir því sem líður á tímabilið.

Fyrir þá sem ekki vita þá er hafnaboltinn í Bandaríkjunum leikinn á sumrin. Tímabilið hefst þegar fyrstu merki hringrásar lífsins byrja að láta kræla á sér í byrjun apríl, og tímabilið stendur þar til laufin byrja að falla á haustin. Hafnaboltinn er því vorboðinn ljúfi í hugum Bandaríkjamanna, en ameríski fótboltinn boðar hins vegar vosbúð, vetrarhörkur og dauða.

Tímabilið hefur því staðið í rúma tvo mánuði og hafa flest lið leikið um sextíu leiki og einungis um eitt hundrað leikir eftir hjá hverju liði þar til úrslitakeppnin hefst. Það má því segja að línur séu farnar að skýrast nokkuð, þótt ekki sé á vísan að róa með nokkurn skapaðan hlut í hafnaboltanum; þar geta sviptingarnar verið miklar og óvæntar; og stutt verið á milli alsælu og örvæntingar.

Það er ekkert áhlaupsverk að byrja að njóta hafnaboltaíþróttarinnar. Eins og flest annað gott þá má segja að hún sé áunninn smekkur. Til þess að geta notið hafnaboltans þarf þolgæði, smekkvísi og umtalsvert meiri lærdómsvilja heldur en þarf til þess að geta gleymt sér yfir íþróttum sem byggjast á ofbeldi og ruddaskap.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að glæða tilveru sína áhuganum á hafnabolta þá skal bent á það hér að hægt er að gerast áskrifandi að bandarísku hafnaboltadeildinni (MLB) fyrir einungis 109 dali á ári (um 14 þúsund kall) og fá þá að sjá hvern einasta leik tímabilsins. Þetta eru alls 2.430 leikir, sem taka að jafnaði þrjá til fjóra klukkutíma (en stundum miklu meira). Það eru að lágmarki 8,500 klukkutímar í heild svo hver klukkutími kostar ekki nema rétt rúmlega eina og hálfa krónu. Vandfundinn er ódýrari afþreying. Og það er heldur engin þörf á að eyða krónu í nokkra aðra dægradvöl því árið er ekki nema rúmlega 8.800 klukkutímar. Sá sem horfir allan sólarhringinn, allan ársins hring nær því rétt svo að horfa á heilt tímabil—og er þá öll úrslitakeppnin eftir.

Það er því ljóst að mikið má spara af útgjöldum með því að byrja að fylgjast með hafnaboltanum—því þá er enginn tími fyrir golf, laxveiði, sumarleyfi með fjölskyldunni og önnur fjár- og tímafrek áhugamál.
Til þess að komast af stað er ráðlegt að ætla sér ekki um of heldur fylgjast með afmörkuðum hlutum til þess að byrja með. Hér að neðan er boðið upp á tvo „byrjendapakka“ fyrir sumarið.

Fylgist með Chicago Cubs
Hið sögufræga lið hefur ekki orðið meistari frá árinu 1908. Þrátt fyrir það býr ekkert félag að jafn einörðum stuðningsmönnum. Heimavöllurinn, Wrigley Field, er smekkfullur sama á hverju gengur og þótt áhorfendur beri sig vel og þykist vongóðir þá blundar í þeim vissan um að þótt allt líti vel út þá muni það fara á versta veg á endanum. Cubs eru langefstir í deildinni núna og flestir spá þeim titlinum. Það verður enginn svikinn af því að byggja upp væntingar í sumar og leyfa þeim svo að hrynja yfir sig í vonbrigðum í haust.

Síðasta tímabil Vin Scully með Dodgers
Fyrsti leikur Vin Scully var árið 1952. Þá lék liðið í New York, en hann fluttist vestur yfir fjöll og sléttur með liðinu til Los Angeles og hefur verið aðalþulur liðsins allar götur síðan. Þetta er því 67. árið sem hinn 88 ára gamli Scully er á bak við hljóðnemann hjá liðinu. Hann er tungulipur sem ljóðskáld, uppfullur af fróðleik um sagnfræði hafnaboltans, veraldarsöguna og bókmenntir. Ólíkt öllum öðrum þulum þá starfar hann einn síns liðs—og er betri en nokkur annar í bransanum. Besta leiðin til þess að byrja að skilja hafnaboltann er einmitt að horfa á heimaleiki Dodgers og hlusta á Vin Scully þylja upp úr viskubrunni sínum.

Þeir sem eru áhugasamir um að taka þátt í líflegu starfi Samtaka íslenskra hafnaboltaaðdáenda mega hafa samband við undirritaðan og verða allar umsóknir um aðild teknar til málefnalegrar umfjöllunar og litið verður á þær sem trúnaðarmál. Nú þegar allir eru hættir í skíðagöngu og hjólreiðum þá hlýtur röðin að vera komin að hafnaboltanum. Þeir sem vilja vera tilbúnir þegar hafnaboltaæðið rennur á landann, mega engan tíma missa. Þú tryggir ekki eftir á.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.