Hækja ríkisins

Nú þegar stór hluti hagkerfisins er í fangi ríkisins freistast menn til að líta á þróun síðustu vikna sem sönnun fyrir skipbroti kapítalismans. Að þar með sannist að hann geti ekki staðið óstuddur heldur reiði sig á ríkið í hamförum eins og þeim sem nú ganga yfir heimsbyggðina. Því þurfi að hverfa frá opnu markaðshagkerfi og alþjóðavæðingu.

Nú þegar stór hluti hagkerfisins er í fangi ríkisins freistast menn til að líta á þróun síðustu vikna sem sönnun fyrir skipbroti kapítalismans. Að þar með sannist að hann geti ekki staðið óstuddur heldur reiði sig á ríkið í hamförum eins og þeim sem nú ganga yfir heimsbyggðina. Því þurfi að hverfa frá opnu markaðshagkerfi og alþjóðavæðingu.

Þó svo að hinu opinbera hafi vaxið ásmegin síðustu ár og gegni nú mikilvægu hlutverki er þetta ótímabær dómur.

Markaðshagkerfin þurfa skýrt regluverk og eftirlit. Samhliða því greiða fyrirtæki og einstaklingar stóran hluta tekna sinna til ríkisins meðal annars til að það geti brugðist við hamförum. Einarðir talsmenn kapítalismans telja að ef hann væri innleiddur að fullu væru fyrirtæki og einstaklingar betur búnir til að takast á við áföll. Eflaust má þó deila um það.

Á Íslandi er hins vegar góð sátt um að taka höndum saman um að veita samfélagslega tryggingu vegna áfalla. Markaðshagkerfið nýtist síðan til að fjármagna samtrygginguna og sem öflugur hvati fyrir fólk og fyrirtæki.  Það leiðir til nýsköpunar og eykur skilvirkni.  Þeir sem vinna að því að bæta hag sinn auka ómeðvitað velferð alls samfélagsins.

Þetta voru meðal annars kraftarnir sem drógu okkur upp úr áfallinu 2008 þegar landsframleiðsla hrundi og ískyggilega margir misstu vinnuna. Einstaklingar og fyrirtæki leituðu nýrra leiða til að afla tekna og sköpuðu um leið nýja stoð undir íslenska hagkerfið úr nánast engu.

Náttúrufegurðin hafði alltaf verið til staðar og athyglin sem Ísland fékk í kjölfar hrunsins gerði sitt gagn. En það var ekki aðgerðaplan úr skýrslunni Endurreisn Íslands í kjölfar fjármálahruns sem olli því að við komumst upp úr síðustu kreppu á methraða. Það voru aðilar sem sáu tækifæri í flugrekstri, einstaklingar sem buðu íbúðir á Airbnb og eldhugarnir sem gerðu sér atvinnu úr því að bjóða erlendum gestum að virða fyrir sér stórbrotna náttúru landsins.

Til að opið markaðshagkerfi virki eins og til er ætlast verða fjárfestingar að geta tapast. Áföll verða og áætlanir ganga ekki eftir. Fyrirtæki fara í gjaldþrot og starfsfólk, tæki og tól færast úr úreldri starfsemi í annað sem kallað er eftir. Í því felst sveigjanleiki sem er lykillinn að því að aðlagast nýjum aðstæðum. 

Þó að erfitt verði að meta áhrif ákvarðana stjórnvalda vegna veirunnar fyrr en löngu seinna er líklegt að fráhvarf frá markaðshagkerfinu geri illt verra. Stór hluti atvinnulífsins og vinnufærra einstaklinga geta ekki verið í forsjá hins opinbera til lengdar. Stuðningur ríkisins er því ekki annað en hækja sem skjótt fjarar undan ef þjófélagið kemst ekki fljótlega aftur á lappirnar. Við getum ekki haldið úti öflugu velferðarkerfi og samtryggingu án kraftmikils atvinnulífs, nýsköpunar og tækifæra fyrir fólk til að bæta hag sinn. 

Án undirstöðu einkaframtaksins verður ekki hægt að fjármagna kostnaðarsamar aðgerðir sem ríkið hefur nú þegar ráðast í, hvað þá að vinna úr neyðinni sem auðveldlega skapast ef ástandið ílengist.

Afleiðingar víðtækra lokanna eiga eftir að koma í ljós, ekki síst í þeim hluta heimsins sem reiðir sig á frjáls viðskipti við vestræn ríki. Þar skiptir sköpum að geta aflað sér lífsviðurværis og sennilega fara fátæk ríki verst úr ástandinu ef markaðir opna ekki fljótlega.

Ástandið sýnir því betur en margt annað fram á mikilvægi öflugs opins markaðshagkerfis frekar en að aukin umsvif ríkisins sé leiðin til frambúðar. 

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.