Guðs útvalda þjóð

Áform ísraelskra stjórnvalda um að innlima landsvæði á Vesturbakkanum í trássi við alþjóðalög hafa verið réttilega gagnrýnd. Hvort ríkisstjórn Ísraels lætur verða af þessum gjörningi á eftir að koma í ljós en jafnvel þau ríki sem hingað til hafa reynt að gæta sanngirni og jafnvægis í afstöðu sinni til hinnar endalausu og að því er virðist óleysanlegu deilu fyrir botni Miðjarðarhafs hafa gagnrýnd áformin harðlega og hvatt ísraelsk stjórnvöld eindregið til að falla frá þeim.

Það er raunar rannsóknarefni hversu margir hafa sterkar skoðanir og skýra sýn á stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs. Að mínu viti er hver sá sem telur sig skilja til fulls eða hafa lausn mála í farteskinu annað hvort lygari eða einfeldningur. Afstaða íslenskra stjórnvalda síðustu misserin hefur verið sú að halda fast við tveggja ríkja lausnina, hvetja til stillingar og að jafnvægis sé gætt í afstöðu til deilunnar. Sú hefur raunar ekki alltaf verið raunin þegar horft er til baka og því miður skipa flest ríki heims sér í andstæðar fylkingar þegar kemur að þessu máli, oftar en ekki útfrá eigin hagsmunum sem ekkert hafa með deiluna sjálfa að gera.

Einhvern tímann verður á þessum vettvangi hægt að rýna þessa deilu í sögulegu ljósi og reynt að varpa ljósi á það hvers vegna almenningsálitið hefur snúist mjög gegn Ísraelum í þessari deilu hin síðari ár. En þetta er hvorki staður né stund til þess. Þó má segja að þar eiga Ísraelar sjálfir sök á máli, harðlínuöfl þar í landi hafa haft betur, eiginlega allar götur síðan Ytzak Rabín, þáverandi forsætisráðherra, var skotinn í bakið af landa sínum úti á götu fyrir að ganga til friðarsamninga við Palestínumenn.

Það er auðvitað erfitt fyrir marga að skilja viðfangsefnið sem Ísrael stendur frammi fyrir. Spurningin um frið er líka spurning um öryggi. Við Íslendingar eigum því láni að fagna að okkar nágrannaerjur snúast alla jafna um skiptingu flökkustofna eða veiðiheimildir í síldarsmugunni við Svalbarða, eða rányrkju erlendra togara á Reykjanesshrygg. Fyrir Ísraelsmenn eru nágrannaerjur tilvistarlegt viðfangsefni. Frá stofnun hefur Ísrael verið umkringt þjóðum sem hafa það efst á prógramminu hjá sér að má gyðingaríkið af yfirborði jarðar – og það hefur svo sannarlega verið reynt.

Hernám Ísraels á landssvæðum sem samkvæmt alþjóðalögum eiga að tilheyra Palestínu er svartur blettur á annars merkilegri og glæstri sögu þessa unga ríkis. Stór hluti ísraelsku þjóðarinnar er á þessari sömu skoðun og hernámið er gríðarlega umdeilt þar í landi. En öfgar næra öfgar og hin ömurlega víxlverkun voðaverka á báða bóga yfirgnæfir smám saman raddir skynseminnar beggja vegna. Um það vitnar saga þessara tveggja þjóða síðasta mannsaldurinn, og lengur auðvitað.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.