Grænar tölur alls staðar

Tekjur hins opinbera af fasteignaskatti eru um tvöfalt hærri hér á landi en að meðaltali á Norðurlöndunum þegar litið er til hlutfalls af verðmætasköpun.

Það voru mikil fagnaðarlæti á mínu heimili þegar Þjóðskrá birti nýtt fasteignamat fyrir árið 2022. Meðalhækkun á landinu öllu var um 7,4%. Grænar tölur alls staðar.

Á eftir útsvari er fasteignaskattur stærsti tekjuliður sveitarfélaganna. Tekjurnar telja tugi milljarða á ári hverju og hafa hækkað mikið undanfarin ár samhliða hækkun húsnæðisverðs og sveitarfélögin hafa aldrei haft það betra en núna. Raunar eru tekjur hins opinbera af fasteignaskatti um tvöfalt hærri hér á landi en að meðaltali á Norðurlöndunum þegar litið er til hlutfalls af verðmætasköpun. 

Fasteignaskatturinn er hluti af fasteignagjöldum og er í raun og veru ekkert annað en eignaskattur. Hann er greiddur árlega sem hlutfall af verðmæti eigna eigendanna til sinna sveitarfélaga eins og það er metið samkvæmt fasteignamati. Þarna verðum við að staldra við. 

Fyrir það fyrsta getur opinbert mat á verðmæti húsnæðis aldrei endurspeglað raunvirði eignar í öllum tilvikum. Í öðru lagi þarf hækkun fasteignamats alls ekki að tengjast hækkun á væntu endursöluverði eignarinnar. Í þriðja lagi er afar sérstök nálgun, ef ekki gjörsamlega galin, að nota sveiflukennt fasteignaverð sem grundvöll fyrir skattlagningu. Það leiðir til þess að í bókum sveitarfélaganna hefur skattstofn þeirra stækkað (grænar tölur alls staðar muniði) og með aukinni skattheimtu er auknum fjármunum varið í rekstur. Þetta hafa sveitarfélögin því miður gert og sú eyðsla er ógætileg þar sem hagur meðalmannsins er ekki endilega 7,4% betri en hann var í fyrra þrátt fyrir að eitthvað eignarmat segi annað. 

Það blasir við að fasteignaskatturinn byggir á hæpnum grundvelli, er ógagnsær og óréttlátur. Hér hlýtur að vera hægt að gera betur.

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.