Gott boozt í byrjun árs

Eftir óhófsát sem gjarnan fylgir jólahátíðinni er megrun janúarmánaðar orðin jafn mikill fylgifiskur skammdegisdrungans og lóann er vorboðinn ljúfi. Til þess að lyfta mesta skammdegisþunglyndinu byrjar maður að plana sumarfríið og sér sig fyrir sér skokka léttklædda um ströndina á suðrænum slóðum. En maður sér augljóslega að lyfta þarf grettistaki til þess að þessi jafna gangi upp.

 

Misgáfuleg heilsuráð hellast yfir mann á netheimum og tilboð um grennra mitti á nokkrum mínútum öskra á mann og landinn er mjög móttækilegur í byrjun janúar fyrir allskonar heilsutilboðum.

 

Ég prófaði til dæmis að þræla ofan í mig eplaediki, sítrónsafa, vatni og hunangi í þeirri von að ég vaknaði helmingi mjórri eftir áramótaeðluna og nýárskonfektið. Það er auðvitað skemmst frá því að segja að þetta var ógeðslega vont og jólavömbin jafn þanin og áður.

 

Í þessari stemmingu voru greinilega fjölmargir aðrir eftir jólin því 292.870 boozt drykkir voru seldir á nokkrum sólahringum í gegnum aha.is[1]. Til sölu voru 10 drykkja kort á 4.990 krónur. Þetta gera litlar 146.142.130 krónur í sölu á nokkrum sólahringum. Það myndi ég kalla góða byrjun á árinu. Ég geri svo ráð fyrir að aha.is taki um það bil 20% af sölunni söluþóknun til sín eða um það bil 30 milljónir. Það er alls ekki svo slæmt boozt í byrjun árs.

 

Þessi 10 skipta kort eru svo gild í 4 mánuði eða til 30.04. 20015. Það er jú auðvitað þannig með svona kort að mörg þeirra týnast, eins og gengur og gerist, en skoðum aðeins hvað gerist hjá Boozt barnum ef allir kaupa alla sína djúsa. Opið er frá 8-20 virka daga og 10-18 um helgar. Það eru 1160 klukkustundir sem opnar eru á tímanum sem kortin eru gild. Það eru 252 boozt á klukkutíma eða 4 á mínútu en staðirnir eru 3 og þetta ætti að ganga vel hjá þeim með öflugu starfsfólki.

 

Þetta er frábært dæmi um það sem hægt er að gera vel með því að þekkja þörfina á markaðnum hverju sinni. Ég efast stórlega um að slík herferð hefði gengið jafn vel í desember þar sem Íslendingar virðist ekki sjá upp úr Dominos pizzakössunum og KFC fötunum þegar þeir hlaupa búð úr búð að redda öllu pakkaflóðinu. Þá virðast haustáhyggjurnar um að komast ekki kjólinn fyrir jólinn á bak og braut því yfirþyrmandi áhyggjur af því að ná ekki að klára allt heltekur alla. Þá vinnur auðvitað fljótlegasta lausnin fyrir alla fjölskylduna í matarmálum.

 

Vertíðarþjóðin, sem þarf ekki nema að litlu leyti að róa til fiskjar eða heyja til að hafa í sig og á, heldur uppteknum hætti og tekur þetta allt í árstíðarbundnum skorpum. Markaðurinn lærir svo að þjóna þessum þörfum og koma til móts við þessar helstu sveiflur.

 

En hvað með blessaða sjómennina sem eru akkúrat útá sjó þegar tilboðið er í gangi? Eiga þeir ekkert að komast í bikiníið fyrir sumarið þegar þeir koma í land og vilja taka matarræðið í gegn? Og hvað með þá sem vilja standa við markmiðin um að komast í kjólin fyrir jólin? Hvers eiga þeir að gjalda? Sem betur fer eru frábærar lausnir fyrir fyrirtæki til þess að þjóna þeim. Persónuleg markaðssetning hefur þróast mikið síðustu ár og verð ég alltaf jafn hamingjusöm þegar ég fæ lausnir sem sniðnar eru að mínum vanda en þarf ekki að lesa í gegnum auglýsingar sem bjóða hárþynningarlyf og stinningarmeðöl.

 

Þegar vel er haldið á markaðsmálum fyrirtækja geta fyrirtæki náð frábærum árangri í rafrænni- og persónulegri markaðssetningu en þessi heimur þróast hratt og verður gaman að fylgjast með þeirri þróun næstu misseri.

[1] Ef marka má talninguna á heimasíðu þeirra á aha.is sem tilgreinir þann fjölda sem keypt hefur tilboðið.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)