Gosið sem neitar að hætta

Eldgosið á Reykjanesi er löngu hætt að vera krúttlegur lítill ræfill eins og því var fyrst lýst. Þótt það eigi enn langt í land með að teljast til stærstu gosa þá er engu að síður um að ræða meiriháttar náttúruhamfarir.

Eldgosið á Reykjanesi er löngu hætt að vera krúttlegur lítill ræfill eins og því var fyrst lýst. Þótt það eigi enn langt í land með að teljast til stærstu gosa þá er engu að síður um að ræða meiriháttar náttúruhamfarir.

Það eru vissulega forréttindi, og einstakt í raun, að geta fylgst með jarðsögunni verða til í beinni útsendingu eða hreinlega á vettvangi og það er auðvitað enn meiri gæfa að þessar hamfarir skyldu verða akkúrat á þeim stað sem raunin varð. Hins vegar verður ekki hjá því litið að um hamfarir er að ræða og verði ekki lát á gosinu – sem ekkert bendir til – þá mun það fljótlega hafa umtalsverð áhrif á umhverfi okkar.

Jarðsagan segir okkur að gos á Reykjanesskaga getur staðið árum og jafnvel áratugum saman. Við þurfum að vera undir það búin og við þurfum að gera ráð fyrir að svo geti farið. Hvaða áhrif mun það hafa á samgöngur til og frá landinu, hvaða áhrif mun það hafa á búsetu á svæðinu? Ættu stjórnvöld, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, að huga að langtímaskipulagi byggðar út frá þessum möguleika?

Eða ætlum við bara að ræsa út gröfukalla þegar í óefni er komið til að ryðja upp varnargörðum?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.