Glæpur gegn mannkyni af hálfu sósíalista í Venesúela

Fátækt og hungur er veruleiki fólksins í landinu eftir tveggja áratuga óstjórn sósíalista og þrjár milljónir manna hafa flúið landið á síðustu árum.

Mannréttindabrot einræðisstjórnar sósíalistans Nicolas Maduro á stjórnarandstæðingum í Venesúela eru svo umfangsmikil og alvarleg að þau jafngilda glæp gegn mannkyni. Þetta er niðurstaða óháðrar rannsóknarnefndar sem skipuð var af Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári til að rannsaka ásakanir á hendur sósíalísku einræðisstjórninni í Caracas.

Ástand mála í Venesúela hefur hríðversnað eftir að sósíalistar tóku þar völdin árið 1999 en landið er frá náttúrunnar hendi eitt auðugasta ríki jarðar, einkum vegna mikilla olíulinda. Fátækt og hungur er veruleiki fólksins í landinu eftir tveggja áratuga óstjórn sósíalista og þrjár milljónir manna hafa flúið landið á síðustu árum.

Árið 2016 tók Maduro sé einræðisvald og hefur frá þeim tíma virt réttilega kjörið þjóðþing landsins að vettugi og gert það valdalaust með atbeina hersins. Í ársbyrjun 2019 lýsti Juan Guaidó, sem er lýðræðislega réttkjörinn forseti hins valdalausa þjóðþings, forseta Venesúela til bráðabirgða. Fjölmörg ríki, þ.á m. Ísland, lýstu yfir stuðning við Guaidó sem bráðabirgðaforseta og skoruðu á stjórnvöld að boða til frjálsra og löglegra kosninga.

Á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna var í kjölfarið ákveðið að skipa nefnd til að rannsaka stjórnarhætti sósíalista í Venesúela. Niðurstöður nefndarinnar voru birtar í gær og þær eru sláandi. Þar er leitt í ljós að alvarlegir glæpir gegn stjórnarandstæðingum voru framdir með vitund og vilja æðstu valdhafa, oft beinlínis að þeirra undirlagi, með kerfisbundnum hætti. Frelsissvipting, pyntingar, nauðganir og morð eru meðal þeirra glæpa sem tilgreindir eru í skýrslunni. Sannað þykir að sérstakar dauðasveitir yfirvalda hafi myrt 413 manns á umliðnum árum. Mörg fórnarlambanna voru skotin í höfuðið af stuttu færi, m.ö.o. aftökur án dóms og laga.

Það er gott til þess að vita að Ísland var í hópi þeirra ríkja sem stigu fram fyrir skjöldu á síðasta ári til að gagnrýna ástand mála í Venesúela. Utanríkisráðherra hafði forystu um málið og ríkisstjórnin stóð að baki þeirri ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við Guaidó. Sú afstaða var síður en svo sjálfgefin og raunar ekki óumdeild.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.