Gallinn við stuðningslánin

Við getum lært margt af bankahruninu og krísunni sem fylgdi í kjölfarið. Einn lærdómur er sá að tíminn er dýrmætur. Bið í óvissuástandi er mögulega versti óvinur rekstraraðila. Nú bíða stjórnendur fyrirtækja eftir að stuðningslán með ríkisábyrgð komist á koppinn, svo hægt sé að fá fé til rekstursins til að mætatekjutapi síðustu og næstu mánaða.

Það er til marks um lærdóm af bankahruninu hve hratt ríkisstjórnin brást við með tilkynningu um þessar aðgerðir. Aftur á móti er biðin eftir framkvæmdinni mörgum erfið. Það er nefnilega annað sem við getum lært af bankahruninu að skaðinn af bið er verri en mögulegt tap af því að girða fyrir allt sem getur farið úrskeiðis.

Mörg úrræða hins opinbera og bankanna í bankahruninu þurfti að lagfæra ítrekað til að þau gögnuðust. Fyrsta útgáfa átti iðulega að koma í veg fyrir svindl og svínarí eða að þeir sem ekki ættu skilið gætu fengið. Á endanum voru það breiðvirku lyfin sem runnu hratt í gegn sem virkuðu best.

Stuðningslán og svokölluð brúarlán eru ætluð til að mæta tekjutapi vegna kórónufaraldursins. Eðlilega er þeim aðeins ætlað að styðja við fyrirtæki sem eiga möguleika á að lifa krísuna af. Það gæti þó orðið vandasamt að meta hvaða fyrirtæki eru lífvænleg og hver ekki. Hver vika sem fer í að setja upp viðmið um hvernig þetta er ákvarðað verður til þess að fækka umsækjendum.

Það sem stingur þó mest í augu við þessi lán er ákveðin mótsögn milli skilyrða og framkvæmdar. Hún er sú að lánunum er einungis ætlað að brúa rekstrarkostnað en ekki að greiða upp önnur lán.

Fyrirtæki byrjuðu fyrir alvöru að finna fyrir tekjutapi vegna faraldursins í mars. Bláa lónið, sem sagði upp 400 starfsmönnum í gær, hefur þannig verið nær tekjulaust í þrjá mánuði. Samkvæmt bókstafnum gæti Bláa lónið aðeins nýtt stuðnings- og brúarlán til að greiða rekstrarkostnað frá þeim degi sem lánin verða greidd út – hvenær sem það verður.

Ef Bláa lónið hefði fengið yfirdrátt í viðskiptabanka sínum til að greiða laun starfsfólks og gera upp við birgja fyrir apríl eða maímánuð, þá mætti ekki nýta lánin til að greiða yfirdráttinn. Það væri endurfjármögnun samkvæmt lánareglunum. Það gæti því verið betra fyrir rekstraraðila að draga birgja sína á greiðslum þar til lánin koma til greiðslu, frekar en að fá stuðning bankans til að gera skuldina upp – eða að eigendur láni fé til rekstursins. Biðin eftir lánunum gerir aukinheldur að verkum að snjóboltinn stækkar.

Auðvitað vilja allir vel og markmiðið er að ná saman árangri. Þetta er þó aðeins lítið dæmi um hvernig varnaglar og dráttur á framkvæmd úrlausna geta skaðað og dregið mjög úr gagnsemi úrræða. Auðvitað væri réttast að þessi lán nýttust til að standa straum af rekstrarkostnaði á því tímabili sem tekjutapið varir. Á sama hátt og hlutabótaleiðin var afturvirk, þá mættu  rekstraraðilar gera upp skuldir vegna rekstrarkostnaðar frá og með marsmánuði. Þetta er einfalt að lagfæra svo úrræðið gagnist almennilega.

Í krísu er mikilvægt að hlutirnir gerist hratt. Það verða óhjákvæmilega mistök. Galdurinn er að bregðast hratt við þeim og gera betur, frekar en að reyna að hafa allt fullkomið frá byrjun.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)