Frelsið og forræðishyggjan

Það er skynsamlegri leið að hafa fleiri mánuði til skiptanna milli foreldra og meiri sveigjanleika og tryggja þannig börnum sem lengstan tíma með foreldrum sínum á mikilvægum fyrstu mánuðum lífs þeirra.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof hafa foreldrar rétt á 10 mánaða orlofi til að annast nýfædd börn sín, hvort foreldri á rétt á fjórum mánuðum og tveir mánuðir eru til skiptanna sem foreldrum er frjálst að ráðstafa sín á milli. Þessi breyting tók gildi í byrjun þessa árs. Nú liggur fyrir frumvarp til breytinga á þessum lögum þar sem fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði og gert er ráð fyrir orlofi verði skipt (að mestu) jafnt á milli foreldra. Gagnrýnisraddir segja að um forræðishyggju sé að ræða og foreldrar eigi að hafa frelsi til að ákvarða skiptingu orlofs.

Frumvarpið hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda en nú hefur verið lokað fyrir umsagnir. Alls bárust 250 umsagnir í samráðsgáttina. Helst virðast athugasemdir snúa að tvennu. Annars vegar hefur komið fram gagnrýni á það að stytta eigi tímabilið til töku orlofs í 18 mánuði úr 24 mánuðum og hins vegar áðurnefnd jöfn skipting orlofs milli foreldra, 6 mánuðir á hvort foreldri. Það er þó gert ráð fyrir að hvort foreldri geti afsalað sér einum mánuði til hins. 

Það er alls ekki skynsamlegt að stytta tímabilið til töku orlofs þar sem hvorki ríki né sveitarfélög tryggja með viðunandi hætti dagvistun frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á leikskóla. Jafnvel þó að leikskólar hafi heimild til að taka við börnum við 18 mánaða aldur,  þá fer því fjarri að það sé raunin að hægt sé að tryggja börnum leikskólapláss þá, sérstaklega í Reykjavík. Það er óhætt að taka undir það sem kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið að tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær leikskólavist sé eitt brýnasta viðfangsefnið í jafnréttismálum á vinnumarkaði. Það er nefnilega þannig að það lendir oftar en ekki á mæðrum að brúa það bil eða jafnvel öðrum konum innan fjölskyldunnar, t.d. ömmum.

Launamunur kynjanna er líka brýnt viðfangsefni í jafnréttismálum á vinnumarkaði. Fæðingarorlof feðra ýtir undir jafnari stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Launamunur milli karla og kvenna er að einhverju leyti til kominn vegna þess að konur fara frekar í fæðingarorlof og eru lengur í burtu. Á meðan kona er í fæðingarorlofi hefur karl í sama starfi fleiri tækifæri til að taka að sér aukna ábyrgð og vaxa í starfi. Hann er þar af leiðandi í betri stöðu til að hækka í launum, á meðan konan kemur inn á nákvæmlega sama stað og hún var á þegar hún fór. Því var það risastórt skref til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði þegar fæðingarorlofi feðra var komið á, á sínum tíma. Sá niðurskurður sem var á greiðslum til foreldra á árunum 2009 og 2010 var gríðarleg afturför þar sem það dró mikið úr töku fæðingarorlofs feðra og var algjörlega misráðið að fara í slíkan niðurskurð.

Þetta virðist nefnilega vera það sem helst stendur í vegi fyrir því að feður taki fæðingarorlof. Það að greiðslurnar séu svo lágar að feður hafi ekki efni á því að taka fæðingarorlof. Jú, það er oft þannig að faðir er með hærri tekjur en móðir en það er ekki þannig í öllum tilfellum. Með sömu rökum eru margar mæður í þeim sporum að hafa „ekki efni á því að taka fæðingarorlof” en eiga þær margra kosta völ? Þær taka einfaldlega orlof, sama á hvaða launum þær eru. Í tölum frá fæðingarorlofssjóði, sem vitnað er í umsögn Viðskiptaráðs, má sjá að með hækkandi tekjum fækkar þeim feðrum sem fullnýta rétt sinn en hlutfall mæðra er óbreytt. Mæður fullnýta rétt sinn í 98-99% tilvika óháð tekjum sínum.

Það er þó áleitin spurning fyrir jafnréttisbaráttuna hvort feður telji sig enn vera betri feður ef þeir skaffa vel fjárhagslega en meta ekki samvistir sínar við ung börn sín meira virði. En tölurnar sýna að ef markmiðið er að nýting beggja foreldra á orlofinu verði jöfn er ekki nóg að fjölga aðeins mánuðum föður. Til að auka nýtingu feðra á sínu orlofi er nauðsynlegt að hækka þak á greiðslum. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það þarf fleira að koma til.

Í skýrslu sem var gefin út af norrænu ráðherranefndinni árið 2019 kom fram að feður óttist um starfsframa sinn ef þeir taka orlof. Það er því einnig mikilvægt að breyta viðhorfum til fæðingarorlofs feðra. Staða kynjanna á vinnumarkaði verður mun jafnari þegar stjórnendur eiga jafnt von á því að konur og karlar taki fæðingarorlof og kyn hafi því ekki áhrif á ráðningar. Þegar kemur að vinnustöðum og viðhorfi stjórnenda þá hefur það víða breyst mjög til batnaðar og flest þau fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega þegar kemur að góðri mannauðsstjórnun horfa það jákvæðum augum að feður, jafnt sem mæður, taki orlof til að sinna nýfæddum börnum sínum. 

Þá sýndi áðurnefnd skýrsla líka að jafnræði er meira á heimilum þar sem feður taka fæðingarorlof og bæði feður og mæður eru ánægðari í samböndum þar sem jafnræði ríkir. Þá kom líka í ljós að með auknu jafnrétti í umönnun barna jókst ánægja feðra. Niðurstöður sýndu einnig að þegar ábyrgð á umönnun barna hvílir að mestu á öðru foreldrinu hefur það neikvæðar afleiðingar á parasambandið. Skýrslan sýndi jafnframt að feður sem ekki taka orlof, eða taka stutt orlof eru líklegri til að hafa gamaldags hugmyndir um karlmennsku og karlmennskuímynd. Fæðingarorlof feðra hefur því margvíslegar jákvæðar afleiðingar í för með sér.

En aftur að frelsi foreldra. Fjölskyldur eru mismunandi og þarfir þeirra ólíkar, það er mikið virði fólgið í því fyrir hverja fjölskyldu að hafa sveigjanleika til að skipuleggja fæðingarorlof fjölskyldunnar. Því hníga sterk rök í þá átt að hafa ákveðinn fjölda mánaða til skiptanna milli foreldra. Það er þó einnig gríðarlega mikilvægt að ákveðnir mánuðir séu eyrnamerktir föður.

Það er göfugt og verðugt markmið að stefna að því að fjölga þeim mánuðum sem feður hafa til að sinna nýfæddum börnum sínum. Það er þó ekki líklegt að það markmið náist á meðan fjölgun mánaða í orlofi fylgir ekki hækkun á þaki greiðsla. Meðan svo er, er skynsamlegri leið að hafa fleiri mánuði til skiptanna milli foreldra og meiri sveigjanleika og tryggja þannig börnum sem lengstan tíma með foreldrum sínum á mikilvægum fyrstu mánuðum lífs þeirra.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.