Framtíðarsýn í stað fortíðarböls

Á þessu mikla kosningaári er kannski rétt að við setjum okkur öll viðmið um hvaða framtíð við viljum kjósa. Hvað viljum við frá fólkinu sem á að stýra landinu okkar. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða eiginleika forseta eða þingmanna, við viljum öll eitthvað sérstakt í okkar leiðtogum.

Áður fyrr var það veikleikamerki að skipta um skoðun, vera opin fyrir hugmyndum frá öðrum stjórnmálamönnum og einna verst að sýna á sér einhvern veikan blett. Stjórnmálamenn áttu að vera harðir, grimmir, óhagganlegir og temmilega íhaldssamir (hvort sem um hægri eða vinstri menn var að ræða). Kappræður áttu að byggjast upp af einstaklingnum tilbúnum með vopn gegn andstæðingum sínum án þess að vera endilega tilbúnir með hvaða framtíðarsýn þeir höfðu. Allt snerist um hvað hver og einn gerði í gær fremur en að fjalla um hvað eigi að gera á morgun.

En þetta var fortíðin. Við höfum tækifæri á því að breyta þessa, horfa fram á við og hætta að líta sífellt í baksýnisspegilinn.

Ég ætla að setja mér viðmið fyrir komandi kosningar. Ég vil leiðtoga sem getur sett sig í spor annarra og sýnt samkennd, því aðeins þá getur hann tekið réttar ákvarðanir. Ég vil leiðtoga sem er stoltur en laus við hroka og hlustar því á hugmyndir hvaðan sem þær koma. Ég vil leiðtoga sem gleðst yfir því sem vel gengur, lærir af því sem miður fer og stappar í okkur stálinu ef eitthvað bjátar á. Ég vil hlýjan leiðtoga sem sýnir pólitískum andstæðingum sínum virðingu en ekki illsku. Ég vil framtíðarsýn en ekki fortíðarböl.

En hvernig fáum við leiðtoga sem hér er lýst á þing og á Bessastaði?

Með því að samþykkja ekki að kappræður einkennist af fortíðarskotum í stað framtíðarsýnar. Með því að segja að við viljum heyra hvort frambjóðandi hafi yfir höfuð eitthvað að bjóða. Með því hlusta ekki þegar frambjóðendur rakka næsta frambjóðanda niður án þess að segja stakt orð um eigið ágæti. Með því að segja við viljum einhvern sem kann að læra af sögunni en er ekki svo fastur í henni að sjá ekki framtíðina fyrir sér.

Við viljum forseta og Alþingi sem skapar Íslandi bjarta framtíð.

Reynum að hafa þetta hugfast þegar við göngum í kjörklefann hinn 25. júní nk. og svo aftur í haust.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.