Foreldrasamtök dreifa áfengisauglýsingum

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum birtu nýlega á fésbókarsíðu sinni myndband frá sænsku áfengisversluninni Systembolaget. Myndbandið sýnir vondan amerískan markaðsfræðing labba um verslunina og benda á leiðir til að auka hagnað. Í lokin hristir vinalega forstöðukonan hausinn og segir “Nei, svona gerum við þetta ekki hér.”

Þetta er yfirgengilega klénn PR-áróður. Sérstaklega er pínlegt að menn skyldu nota ekki geta staðist freistinguna til að koma höggi á ímynd hins vonda, gráðuga Ameríkana. Ameríkana sem hváir yfir þessari sérvisku Svía, þrátt fyrir að nútímaáfengiseinokun er gott sem bandarísk hugmynd. Já, búðir eins og SystemBolaget er að finna bæði í Bandaríkjunum og Kanada.

En, nei, muna: Ameríka vond og gráðug, Svíþjóð góð og dygðug. Mér finnst fyndið að samtök sem hafa “gegn áfengisauglýsingum” í nafni sínu skyldu dreifa einni slíkri. En nú segir einhver: “Pawel, hvaða rugl er í þér? Þetta er ekki auglýsing fyrir áfengi. Hér er bara verið að kynna hve ábyrg þessi ríkisrekna verslun er!”

Gott og vel. Framkvæmum smá hugartilraun. Segjum svo að frumvarpið góða verði að lögum. Segjum að ég stofni eigin vínbúð og búi til auglýsingar þar sem ég legg áherslu á það að ég selji ekki börnum og hugsi ekki um gróða heldur fagmennsku. Segjum að ég auglýsi á fullu í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Munu foreldrasamtökin þá dreifa myndböndum frá mér með orðunum “Flottir þarna hjá Vodkaverslun Pawels að láta gróðahyggjuna ekki stjórna sér. Vel gert!”

Myndi það gerast?

Mjög ólíklega. En af hverju? Skýringin væri líklega sú að að foreldrasamtökin myndu ekki trúa því Vodkaverslun Pawels meinti þetta. Þau trúa hins vegar því að Ríkinu standi gott eitt til með sínum auglýsingum.

En jafnvel ef það væri satt myndi það skipta máli? Nei. Auglýsing stendur ein og sér. Mynd af brosandi fólki með ákveðinn gosdrykk festir í sessi vörumerkið, fær fólk til að tengja vörumerkið jákvæðri tilfinningu og fær fólk til að vilja kaupa viðkomandi gosdrykk.

Auglýsing eins og þessi sem foreldrasamtökin dreifa festir í sessi ákveðið vörumerki (SystemBolaget), það fær fólk til að tengja vörumerkið við eitthvað jákvætt, og eykur þar með löngum fólks til að versla við þetta vörumerki næst þegar það vill upplifa eitthvað jákvætt. Auglýsingin eykur því áfengisneyslu. Þannig er það bara.

Áfengisauglýsingin sem foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum dreifa er vel gerð, lúmsk og lævís. Henni er ætlað að festa í sessi vörumerki vínsalans, auka og tryggja áframhaldandi stöðu hans á markaði. Líkt og í auglýsingunni sjálfri fékk SystemBolaget líklegast ráð færra markaðsmanna. Nema að öfugt við það sem þar er sýnt var enginn sem sagði: “Nei, svona gerum við þetta ekki.” Og svo dreifa menn þessu á feisbúkk. Þar sem börnin sjá þetta!

Myndbandið má sjá hér
https://www.youtube.com/watch?v=L4t-fCKQCP4

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.