Flas er falli næst

Á svipaðan máta og lægðir leggjast yfir Ísland í veðurfarslegum skilningi og færa okkur leiðindi í formi roks, rigningar og ófærða þá koma reglulega lægðir yfir íslenska samfélagsmiðla og færa landsmönnum sömuleiðis leiðindi í formi ómálefnalegrar umræðu og ofsareiði yfir afmörkuðu málefni. Veðurstofa Íslands hefur búið til lítið verkfærasett fyrir þá landsmenn sem skilja ekki veðurkort með því að lýsa yfir gulum, appelsínugulum og brúnum aðvörunum þegar lægðir skella á landinu. Ennþá hefur engin ríkisstofunun tekið sig til og búið til aðvörunarskala þegar heykvíslarnar eru brýndar og málefnaleg umræða fer í smá kaffi.

Kannski er þetta verkefni fyrir nýjan útvarpsstjóra? 

Síðasta lægð átti sér stað 6. febrúar síðastliðinn þegar sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson lagði til að það gæti verið góð hugmynd að lækka hraða ökutækja í Reykjavík vestan Snorrabrautar. Viðbrögðin voru nokkuð fyrirsjáanleg, gríðarleg reiði en minna um hárbeitta gagnrýni eða ný sjónarmið dregin fram. 

Það hefði verið áhugavert að heyra aðeins betur rökin fyrir lægri hraða.   

Þau eru í stuttu máli: meira öryggi, minni hávaði og betra flæði.  Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO)  þá eru 90% líkur á því að gangandi vegfarandi lifi af ákeyrslu á 30 kílómetra hraða þá. Á hinn bóginn eru líkur á andláti orðnar um 70% þegar ekið er á gangandi vegfaranda á 50 kílómetra hraða. Hraði drepur. 

Hið sama á við varðandi minni háttar árekstra. Tryggingarfélög ættu að vera baráttumenn fyrir lægri hámarkshraða þar sem sú aðgerð hefði mjög jákvæð áhrif á þeirra framlegð. Á heimasíðu Samgöngustofu má sjá slysakort  þar sem sést að á götum með meiri hraða er meira af slysum. Sjónsvið ökumanns minnkar með auknum hraða. Við 50 kílómetra hraða sér hann lítið annað en veginn sjálfan. Á 30 kílómetra hraða sér hann einnig hvað er á gangstéttum í kringum sig og er mun betur meðvitaður um umhverfi sitt og betur í stakk búinn að bregðast við atburðum. 

Stærsti hávaðavaldur í byggð er akstur bíla og af þeim kemur mestur hávaði af bílum sem keyra hratt. Hávaðakort  Umhverfisstofnunnar sýna að íbúar svæða sem búa við götur þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar búa við miklu meiri hávaða en íbúar 30 kílómetra gatna. Sveitafélög styrkja húseigendur við hraðbrautir í byggð til þess að setja þykkara gler í gluggana svo hávaðinn innanhúss minnkar. Fólk undir berum himni virðist eiga að ganga um með hjálm og rykgrímu til þess að sína hraðakstri tillitssemi. 

Flæðisrökin fær fólk oft til þess að staldra við. Það veit það hver maður að ef hann keyrir frá Reykjavík til Akureyrar (eða öfugt) á 80 km meðalhraða þá kemur hann fyrr á áfangastað en vinur sinn sem keyrir á 70 km meðalhraða. Þess vegna hlýtur lægri hraði að þýða hærri ferðartími. 

Þetta er þó ekki alveg svona einfalt. 

Í borgarumhverfi er umferð sífellt að taka af stað og stöðvast vegna gatnamóta og gangbrauta. Það er því lítið um langa vegkafla þar sem hægt er að ná háum hraða. Þar til viðbótar hrynur meðalhraðinn á meðan beðið er á ljósum. 

Við lægri meðalhraða þá eykst afkastageta götunnar þar sem stöðvunarvegalengd minnkar og bílar geta verið nær hvor öðrum. Þá batna gatnamót þar sem við minni hraða er auðveldara fyrir bílstjóra að blanda sér inn í umferð sem gengur hægar. Loks er ábati af því að fleira fólk hættir sér út á götur þegar búið er að draga úr hraða. Það eykur því umferð gangandi, hjólandi og rafskutlandi . 

Það er því ljóst að ábatinn af minni hraða í þéttri borgarumferð er mikill en vankantar færri en virðast við fyrstu sýn. 

Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel lítið lækkun hraða skilar strax árangri . Það er þó ekki nóg að skipta út hraðaskiltum. Til viðbótar við ákvörðun um lægri hraða á hættulegum vegköflum þurfa sveitafélög og Vegagerðin að fjárfesta í hraðaminnkandi innviðum eins og gróðursetningu á borgartrjám, breikkun gangstétta, aðgreinda hjólastíga og skemmtilegar lausnir eins og þrívíddarsebrabraut eins og má finna í Ísafjarðarbæ.

Heimildir:

WHO, áhrif aksturshraða á alvarleika slysa https://www.who.int/violence_injury_prevention/publications/road_traffic/world_report/speed_en.pdf 

Slysakort á heimasíðu samgöngustofu: https://www.samgongustofa.is/umferd/tolfraedi/slysatolur/slysakort/

Hávaðakort fyrir Reykjavík á heimasíðu Umhverfisstofununar: https://www.ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Hollustuhaettir/Havadakort/RB-Ln-Yfirlit2.pdf

Það eru samtökin 20splenty sem hafa safnað saman þessum rökum fyrir betra flæði við lægri hámarkshraða: http://www.20splenty.org/20mph_limits_save_time_and_improve_traffic_flow  https://www.forbes.com/sites/tanyamohn/2018/08/31/lowering-speed-limits-even-a-little-means-less-speeding-and-safer-streets/

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.