Fín þétting við Háteigsveg

Ég geng framhjá Sjómannaskólanum við Háteigsveg oft í viku. Þetta er leið barna minna í skólann. Á ákveðnum, stuttum kafla á leiðinni get ég borið Sjómannaskólann augum án þess að annað hindri þá sýn.

Það má sannarlega færa nokkuð fín rök fyrir því að í þeirri fagurfræðilegum upplifun felist ákveðin lífsgæði fyrir mig og aðra sem labba, eða keyra, sömu leið. Og að þau lífsgæði séu einhvers virði. Ein opinber stofnum, Minjastofnun, var til dæmis á þessari skoðun: að mikilvægt væri að fólk gæti séð Sjómannaskólann í heilu lagi frá Háteigsvegi.

Skipulags- og samgönguráð (sem ég sit í) féllst á þessi rök. Þó svo að maður styðji heildarlausnina þá er samt mikilvægt að átta sig á að svona ákvarðanir hafa ýmis konar afleiðingar. Þarna stóð til dæmis til að byggja námsmannaíbúðir fyrir nokkra tugi nemenda. Þessir nemendur hefðu getað rölt í háskólann við hliðina á, á hverjum morgni. Nú þarf að finna þeim pláss annars staðar, og lengra frá.

Reiturinn sem Sjómannaskólinn er á í 10 mínútna göngufjarlægð frá Hlemmi og öruggt að margir myndu vilja þar búa ef það stæði til boða. Líklega myndi markaðurinn byggja hátt og þétt ef hann einn fengi að ráða, óheftur og óbeislaður. Það skipulag sem nú hefur verið samþykkt gerir ráð fyrir sjö nýjum 2-3 hæða íbúðarhúsum. Sem er frekar hóflegt.

Ég er ánægður með þessa uppbyggingu og hlakka til að sjá hana verða að veruleika. Fleiri íbúar þýða bætta þjónustu og betra mannlífi í Hlíðum og Holtum. Ég átta mig á að svona uppbygging vekur oft umtal og að hluti íbúa í hverfinu vildi einfaldlega ekki sjá fleiri byggingar á reitnum. Ég get borið virðingu fyrir þeirri afstöðu, og geri, en er henni almennt ósammála. Þétting er góð hugmynd.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.