Fíknarvandinn og dauðasyndirnar sjö

Dabbi í Nesi, flugdólgurinn og Jón sinnep hafa eflaust allir fengið tilfinningaleg sjokk í æsku og þar með ánetjast áfengisfrónni.

Árið 1953 kom út bók eftir Bill nokkurn Wilson. Bókin heitir 12 spor og 12 erfðavenjur en í henni leitaðist Bill við að hjálpa fólki að vinna bug á áfengisfíkn með því að feta leið sem talin er í 12 sporum.

Bill Wilson var áfengissjúkur verðbréfasali og í samvinnu við áfengissjúkan lækni, að nafni Bob Smith, stofnaði hann heimsþekkt sjálfshjálparsamtök sem kölluð eru AA. Hann var jafnframt mikill áhugamaður um trúarbrögð, sálfræði og okkúltisma.

Í  fyrrnefndri bók má finna nákvæmar leiðbeiningar um hvernig feta skuli þessi spor í þeim tilgangi að vinna bug á fíknarvanda. Síðan hafa margir reynt og sumum tekist.

Taumlaus iðkun dauðasynda

Í kaflanum um 6. sporið leggur Bill áherslu á að fólk sé viljugt að fá almætti sitt til að fjarlægja það sem Bill kallaði alla skapgerðarbrestina og í kjölfarið skýrir hann hnitmiðað út í hverju þessir brestir eru fólgnir. Hann skrifar:

Flestir óska þess að geta losnað við þá annmarka sem eru mest áberandi og eyðileggjandi. Enginn vill vera svo sjálfsánægður að það sé litið niður á hann fyrir að vera montinn, né svo ágjarn að hann sé stimplaður þjófur. Enginn vill verða svo reiður að hann fremji morð, svo lostafullur að það leiði til nauðgunar, svo gráðugur að hann borði sér til heilsutjóns. Enginn vill vera kvalinn af stöðugri öfund eða vera sem lamaður af leti

(bls 66. útg 2010)

Það þarf nú engan eldriborgara með IQ upp á 170 til að sjá að þarna skrifar maðurinn um Dauðasyndirnar 7. Og það þarf heldur ekki að þekkja nema einn alka til að vita að um leið og lokað er á eina dauðasynd fær oftast önnur sama pláss og áfengið hafði áður í lífi viðkomandi. Það er að segja ef ekki er farið í það af fullum krafti að leysa greiðlega úr sálarflækjum þeim er orsökuðu fíknarhegðun í upphafi.

Sjokkið kallar á sefunarþorsta

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan árið 1953 og margt hefur verið uppfært í þessum fræðum sem öðrum. Nýjustu vísindi í sálar -og félagsfræðum sýna okkur til dæmis að allir sem glíma við fíknarvanda hafa orðið fyrir einhverskonar áföllum í æsku. Áföllum sem leiða síðar til óseðjandi sefunarþorsta sem flestir kalla fíkn.

Til dæmis er það þekkt hvernig fórnarlömb kynferðisobeldis borða sér til heilsutjóns og það er væntanlega engin tilviljun að flúraðir vandræðapésar lyfta lóðum fyrir framan spegilinn í Laugum, hreinlega að farast úr sjálfsánægju sem einnig hefur verið kölluð mont, dramb, hroki eða hégómi. Þá eru það þessir klassísku, reiðu, þurru alkar sem garga á kassakrakkana í Bónus, sína eigin krakka og kerfið í heild sinni milli þess sem þeir sefa sig í bláum bjarmanum af tölvuskjánum þar sem þeir trolla á kommentakerfum eða stúdera sódómískan svita í undraheimum internetsins.

Það er mismunandi hvaða syndir henta hverjum og einum til huggunar. Við öllum dauðasyndunum hafa þó fyrir löngu verið stofnaðir sérstakir 12 spora hópar fyrir þau sem hafa farið með gleðina svo út af sporinu svo að úr varð fíkn.

Matarfíklar hittast á O.A fundum, kynlífsfíklar í S.L.A.A, gráðugir skuldarar og spilafíklar fara í D.A. og svo framvegis. Reyndar eru til mikið fleiri en sjö tegundir 12. spora hópa enda ótal afbrigði af þessum höfuðsyndum.

Mergurinn málsins

Það sem ég vil með þessu segja er að áfengi, sælgæti, matur, fíkniefni, klám, reiði, hroki eða annað sem fólk notar til að sefa sig er ekki vandamálið í sjálfu sér.

Vandamálið er að fólk skuli yfirleitt vera þannig statt að það hafi löngun til að sefa sig með þeim hætti að það sjálft bíði andlegt, líkamlegt eða félagslegt heilsutjón af.

Í stað þess að taka aftur og aftur sömu umræðuna um hvort við ættum að leyfa sölu áfengis á frjálsum markaði ættum við frekar að spá í hvernig hægt er að hjálpa bræðrum okkar og systrum að vinna úr áföllum sínum og afleiðingum (fíkn).

Einnig væri gott að velta því fyrir sér hvernig má fyrirbyggja að nýr fíkill verði til. Huga rækilega að uppeldi barna okkar. Velta því fyrir okkur hvað barn þarf til að dafna í sál sinni og verða öruggur og glaður einstaklingur sem finnur enga þörf til að þamba yfir sig af áfengi eða hugga sig óhóflega með öðrum hætti. Með vel ígrunduðu uppeldi gætum við kannski fækkað fíklum komandi kynslóða?

Íslendingar voru jú öldum saman ákaflega þjökuð þjóð sem þurfti vægast sagt á fróun og huggun að halda. Öll orkan fór í lífsbaráttuna og einhver örfá andartök fengust kannski til að flýja í fegurð norðurljósa, fálka og fjallstinda. Þegar brennivín var til þá var það oftast klárað. Þörfin var mikil.

Barnið grætur meira þegar snuðið er tekið af því

Þjakaðir íslendingar veittu börnum sínum lélegt uppeldi öld fram af öld. Tilfinningalíf þeirra var að litlu virt (og tilfinningalífi allra almennt). Reiðir og bældir pabbar ólu upp reiða og bælda syni. Fjarhuga og þreyttar mæður áttu einmana og andlega vanrækt börn.

Það er því ekki að undra að við hér á þessari djöflaeyju skulum eiga eitthvað met í áfengismeðferðum, vera komplexuð, flókin og sjúk í hverskonar veruleikaflótta. Þetta þarf þó ekki að vera svona áfram. Við getum stýrt þessu á farsælli braut. Það hefur margoft tekist, en þó ekki með því að taka snuðið af barninu.

Vandinn hreiðrar um sig í kjallara sálarlífisins og það er þar sem þarf að taka til. Hann má svo fyrirbyggja með því að ala upp hamingjusöm börn.

Þetta gerum við ekki með því að banna Jóni og Gunnu að opna litlu sætu vín og ostabúðina sína, refsa Katrínu fyrir að reykja grasið sitt meðan hún hlustar á Bob Dylan og loka svo Konráð inni í 12 ár fyrir að koma með e-pillur til landsins.

Þetta segir sig pínu sjálft. Er það ekki?

Margrét Hugrún skrifar

Margrét byrjaði að blogga árið 2002 og hefur verið óstöðvandi á þessu sviði allar götur síðan. Hún starfaði lengi sem blaðakona en þar áður var hún til dæmis plötusnúður og útvarpskona. Nú brasar hún í PR, vef og markaðsmálum hverskonar.