Ferðaþjónustu fórnað í von um gott leikhúsár, sem kom svo ekki

Það er ekkert sanngjarnt við þetta ástand. Ekki nokkuð. Það er ekki sanngjarnt að tónlistamaðurinn geti ekki haldið tónleika, það er ekki sanngjarnt að leiðsögumaðurinn geti ekki farið með um bæinn og það er ekki sanngjarnt að veitingamaðurinn geti ekki eldað mat.

Í sumar var lífið komið í nokkuð hefðbundið horf, söfn og sundlaugar opnuðu á ný. Viðburðir fóru af stað með takmörkunum. Einhver tilgerðarminnsti og best heppnaði 17. júní var haldinn vítt og breytt um borg og land.

Ferðalög til og frá Íslandi voru gerð möguleg með skimum á landamærum, sem síðar var breytt í tvöfalda skimun fyrir þá sem dvöldu í lengri tíma. Ferðaþjónustan rankaði aðeins við sér. Fjöldi þeirra sem þáðu atvinnuleysisbætur minnkaði úr 50 þúsundum í apríl í 20 þúsund í júní! Á tveimur mánuðum. Sparnaðurinn fyrir þjóðarbúið hljóð á tugum milljarða.

Í lok júlí fóru smitum að fjölga. Því var alfarið skellt á þessa hóflegu landamæraopnun. Settar voru á hundrað manna takmarkanir. Á grafi sést að þær takmarkanir einar virtust strax duga til að draga úr smitum. Faraldurinn var á niðurleið. 

Nú er augljóst að aðgerðir á landamærum OG samkomutarkanir hafa hvort tveggja áhrif á útbreiðslu faraldurs. Með hertum aðgerðum á landamærum berast færri smit til landsins (en samt alltaf einhver) og með hertum samkomutakmörkunum dreifast smitin hægar. Hvort tveggja virkar en samkomutakmarkanir eru árangursríkari aðgerð.

Þegar stemningin fyrir miklum landamæralokunum náði hámarki sendi fjármálaráðuneytið sendi frá sér stórfurðulegt minnisblað sem færði „efnahagsleg rök“ fyrir landamæralokun. Því var hálfpartinn lofað að það myndi leiða til veirulauss samfélags, án mikilla takmarkana innanlands. Í lokin var meðal annars haldið fram að skynsamlegast væri ef ferðalangar myndu greiða gjald í samræmi við þær efnahagslegu afleiðingar sem ferðalög þeirra gætu haft.

Það má spyrja hvers vegna sambærilegt minnisblað hafi ekki verið gert út frá samkomutakmörkunum. Væri ekki eðlilegt að fermingaveislur myndu greiða áhættugjald í samræmi við gestafjölda (helst í öðru veldi)? Eða leikhús? Eða íþróttaviðburðir? Rökin fyrir því væru nefnilega jafngóð. Hver einasta veisla getur startað nýjum faraldri með einhver smit eru enn í gangi.

Hundrað manna takmarkanir í júlílok höfðu sýnilega áhrif. Í kjölfar landamæralokana 14. ágúst breyttist hins vegar lítið. 14 daga nýgengi var 19,9 þann dag en var komið niður í 18,5 tólf dögum síðar. En snemma í september var samkomutakmörkunum lyft og tveggja metra reglan sett í einn meter. Það var eins og það hafi þurft að standa við loforðið um að landamæralokanir gætu gert okku frjáls innanlands.

Þriðja bylgjan hófst þarna þennan dag. En öfugt við ferðamannabylgjuna frá því í sumar sem óx fremur hægt og hægt var að slá niður með fremur hóflegum aðgerðum þurfti hörðustu úrræðin til ráða við viðburðabylgjuna.

Það var rétt ákvörðun hjá ríkisstjórn nú að loka ekki á 14 daga sóttkví á landamærum í stað tvöfaldrar skimunar. Ekki að hún hefði haft nein teljandi áhrif. Rúm tvö prósent velja sóttkví í stað skimunar, flestir líklega vegna ótta við læknisfræðileg inngrip. Jafnvel þótt örfáir fylgi ekki reglum skiptir það ekki svo miklu máli ef allt samfélagið er í hægagangi. En áherslan á landamærin gefur fólki falska öryggiskennd og glæðir vonir um fjölmennar matarveislur og jólatónleika.

Það er ekkert sanngjarnt við þetta ástand. Ekki nokkuð. Það er ekki sanngjarnt að tónlistamaðurinn geti ekki haldið tónleika, það er ekki sanngjarnt að leiðsögumaðurinn geti ekki farið með um bæinn og  það er ekki sanngjarnt að veitingamaðurinn geti ekki eldað mat.

En það er ljóst að það er misauðvelt að reyna að láta ólíka parta þjóðlífsins ganga í heimfaraldri. Í haust völdum við ekki að verja það sem best gat þó gengið… heldur á það sem margir söknuðu mest.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.