Farsæld barna

Takist félags- og barnamálaráðherra og svo sveitarfélögunum í framhaldi að hrinda þessum metnaðarfullu áætlunum í framkvæmd rætist vonandi sú draumsýn sem við öll höfum um að börnin okkar fái alltaf þá þjónustu og þann stuðning sem þau þurfa, þegar þau þurfa hann.

Félags- og barnamálaráðherra lagði nýverið fram frumvörp á Alþingi sem fela í sér umfangsmiklar breytingar á uppbygginu og skipulagi á þjónustu í þágu barna. 

Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hins vegar breytingar á núgildandi barnaverndarlögum. 

Samþættingarfrumvarpið felur í sér mjög metnaðarfull áform um að veita börnum og fjölskyldum þeirra snemmtækan stuðning og viðeigandi aðstoð þegar þörf þykir. Þá er það eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins að tengja betur saman mismunandi þjónustukerfi þannig að brugðist sé strax við og á heildstæðan hátt þegar upp kemur vandi í lífi barns. Kerfin eiga að tala saman og foreldrar eiga ekki að þurfa að hlaupa út um allan bæ í leit að hinum og þessum stuðningi og ráðgjöf. Öll börn sem á þurfa að halda munu eiga tengilið eða málastjóra ef málið er þeim mun alvarlegra, sem á að halda utan um mál barnsins og leiða það áfram í samvinnu við foreldra og barn. Ríkar skyldur eru með þessu lagðar á sveitarfélög að tryggja börnum og foreldrum tengilið eða málastjóra. Sá aðili hefur svo samkvæmt lögunum skýrt hlutverk sem meðal annars felst í því að tryggja barni aðgang að þjónustu í samræmi við þarfir barnsins. 

Ljóst er að verði frumvarpið að lögum munu sveitarfélögin þurfa að leggja í mikla vinnu við að setja upp og innleiða skipulag í kringum störf tengiliða og málastjóra, en gert er ráð fyrir því að þetta séu aðilar sem starfa í nærumhverfi barnsins. Í tilviki tengiliðar sé um að ræða starfsmenn leik- eða grunnskóla og málastjóri sé starfsmaður félagsþjónustu sveitarfélags. Þá má gera ráð fyrir að auknum fjármunum og mannafla þurfi að verja í að veita börnum þá þjónustu sem þau þurfa á að halda, þegar fyrir liggur stuðningsáætlun sem útfærir þá þjónustu sem barnið á að fá. Slík þjónusta getur t.d. verið í formi greiningar, sálfræði- eða læknisþjónusta, námskeið, aðstoð við nám eða félagsstarf eða hvað annað sem kann að stuðla að bættum hag barnsins. Mörg sveitarfélög hafa staðið fyrir verkefnum og breytingum á innra skipulagi til að ná þeim markmiðum sem sett eru í frumvarpinu. Með lögfestingu er hins vegar stigið stærra skref og skyldur sveitarfélagsins til að koma máli barns í ákveðinn farveg bundnar í lög. 

Takist félags- og barnamálaráðherra og svo sveitarfélögunum í framhaldi að hrinda þessum metnaðarfullu áætlunum í framkvæmd rætist vonandi sú draumsýn sem við öll höfum um að börnin okkar fái alltaf þá þjónustu og þann stuðning sem þau þurfa, þegar þau þurfa hann. 

Þar sem pistill þessi er nú þegar orðinn alltof langur, bíður umfjöllun um breytingar á barnaverndarlögum næsta pistils.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.