Fæðingarorlof sonar míns

Þegar ég komst að því að ég væri ólétt fyrir rúmu ári síðan þá vissi ég að lífið yrði aldrei eins fyrir mig og kærasta minn, við yrðum von bráðar foreldrar. Þetta voru hinar mestu gleðifregnir sem við hefðum getað óskað okkur. Á fyrstu mánuðum meðgöngu minnar voru umræður á Alþingi um lengingu fæðingarorlofs ársins 2020 úr 9 mánuðum í 10, með þeirri breytingu var skipting á milli foreldra sú að báðir foreldrar fá 4 mánuði sem eru óframseljanlegir og svo eru 2 mánuðir sem er foreldrum frjálst að nýta eins og þau vilja. Fyrir flestar mæður var þetta lítil breyting, flestar mæður tóku 3 mánuðina sem voru skilyrtar öðru foreldri og svo þá þrjá sem voru til að deila en fyrir hitt foreldrið þýddi þetta amk einn auka mánuður og fyrir börnin meiri tíma með báðum foreldum.

Í núgildandi lögum um fæðingarorlof segir: í 1. kafla, 1. gr. „Lög þessi taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Lög þessi taka einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.“ Í 2.gr segir um markmið laganna „Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir [við báða foreldra]. Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Nú liggja fyrir breytingar á lögum um fæðingarorlof sem fela í sér að hvort foreldri fær 6 mánuði og fæðingarorlofið lengist um 2 mánuði frá breytingunni sem tók gildi 2020. Ég held að það sé ekki annað hægt en að fagna þessu sérstaklega, og með þessarri breytingu er tryggt að barn fái að njóta jafnrar samvista við sitthvort foreldri sitt.

Fæðingarorlof er borgað með tryggingargjaldi, sem fyrirtæki landsins greiða. Því er þetta orlof í eðli sínu vinnumarkaðsmál, enda eru breytingarnar sem eru nú hugaðar á fæðingarorlofinu einmitt hluti af hinum svokallaða lífskjarasamning. Ég fæ borgað úr fæðingarorlofssjóð sem hlutfall af launum með vissum skerðingum en svo get ég snúið til baka til vinnu í sömu stöðu og laun. Það sama á við um föður barnsins. Hann á rétt á fæðingarorlofi nákvæmlega eins og móðir.

Það sem hefur gerst í gegnum árin er að fyrst tóku karlmenn ekki fæðingarorlof bæði því þeir áttu ekki rétt á því og svo því heimilið hafði ekki efni á því, karlmaðurinn var nefninlega á hærri launum. Þetta hefur aðeins breyst kynbundinn launamunur hefur minnkað (þó ekki horfið), mánaðargreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækkað og feður eiga nú rétt á fæðingarorlofi rétt eins og móðir, meira að segja sama rétt og móðir. Nú er verið að lengja þann rétt og gefa það að meginreglu að foreldrar eigi rétt á sama magni af fæðingarorlofi.

Markmið fæðingarorlofs er enn og aftur réttur barnsins að eiga samvistir við báða foreldra sína og því eru svör gegn breytingum líkt og að barnið þurfi meiri tíma með móðurinni vegna brjóstagjafar ekki nægjanlega sterk til þess að taka þann rétt af hinu foreldrinu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til að börn fái aðeins brjótstamjólk til 6 mánaða eftir það á það að vera blönduð fæða, það eru til leiðir til þess að brjóstamjólk geti verið gefin barni þrátt fyrir að móðir sé ekki á svæðinu á þeim tíma, jafnframt ef móðir kýs að vera lengur heima með barni sökum brjóstagjafar þá getur hún gert það en bara ekki fengið tekjur frá fæðingarorlofssjóði.  Svo heyrist enn í dag hátt að karlmennirnir séu á hærri launum og því hafi heimilið ekki efni á því að senda hann í fæðingarorlof. Fæðingarorlofsgreiðslur eru launatengdar og því ætti það nú ekki að vera hindrun þó ég telji að laun undir vissri upphæð ættu ekki að vera skert um 20% líkt og er gert nú. Ein önnur sagan sem heyrist því miður allt of oft er að faðirinn geti ekki tekið orlofið vegna vinnu sinnar eins og vinnuveitandi neiti slíku, ef svo er þá er það brot á hans rétti.

Ég á í dag lítinn dreng sem vonandi fær tækifæri einn daginn til að verða faðir og þegar sá dagur kemur vona ég innilega að ekki þurfi enn að rífast um það hvort hann eigi að fara í fæðingarorlof eða hvort hann eigi að fá jafn mikinn tíma og hitt foreldrið. Ég vona að það verði sjálfsagt að karlmenn taki jafnan þátt í heimilisverkum og í að ala upp börnin, líkt og faðir hans gerir. Það er framtíðin sem ég óska syni mínum.

Greinin heitir fæðingarorlof sonar míns bæði vegna þess að ég vona að ef/þegar hann verður faðir fái hann orlof en jafnframt því þetta fæðingarorlof foreldra hans er í raun hans.

Að lokum vona ég að feður þessa lands láti nú í sér heyra og fagni þessu máli.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.