Íslensk verslun tolluð úr landi

Það eru allskonar gjöld sem lögð eru beint og óbeint á skattborgara þessa lands sem sum hver virðast kosta meira en þau skila til ríkisins. Vörugjöldin eru gott dæmi um óbeinan skatt sem fullkomlega ómögulegt er fyrir nokkurn mann að skilja.

Ég hringdi á skrifstofu Tollstjóra rétt fyrir jólin til að reyna að komast að því af hvaða vöruflokkum vörugjöldin myndu falla niður, en ég var send á milli símtækja þar til ég fékk samband við ágætan mann sem gat sagt mér að það væru flokkar V1, V6 o.s.frv. en ég var engu nær enda vissi ég ekki frekar en hann hvaða vörur tilheyrðu V þessu eða V hinu en hann róaði mig og sagði að þessum upplýsingum yrði dælt inn í hugbúnaðarhúsin sem myndu svo keyra þetta inn í kerfi söluaðilanna sem myndi svo skila sér til neytenda á endanum. Það eina sem ég vissi á þessu stigi var að allt með sykurinnihaldi myndi lækka en ekki hve mikið þar sem það færi eftir innihaldi sykurs í viðkomandi vöru. Þannig voru nú vörugjöldin einfaldur og gagnsær skattur, við erum reyndar ekki alveg laus við þau en stærstan hluta og því ber að fagna. Það er mikið unnið með einföldun skattkerfsins ekki bara fyrir neytendur, heldur líka fyrir fyrirtækin og hið opinbera. Það er flókið og mikið verk að halda utan um órökrétta skattheimtu sem gæti einna helst hafa verið búin til í fílabeinsturni.

Talandi um ógagnsæa skattheimtu. Tollar.
Tollar, eru að skila ríkinu nokkra milljarða í tekjur á ári en flækjustigið sem fylgir þeim er gríðarlega kostnaðarsamt. Við erum ekki bara að tala um verndartolla á mat, heldur tolla á öllu hinu líka, skóm og fatnaði o.s.frv. Til dæmis getur skipt máli hvaðan varan kemur hversu háan toll hún ber, segjum (tilbúið dæmi) skór frá Bandaríkjunum gætu borið 40% toll á meðan skór frá Kanada 15%. Hver ákveður þetta og af hverju ekki sama prósentan? Greinarhöfundur gerir sér grein fyrir að fríverslunarsamningar geta haft áhrif á þetta en það breytir samt sem ekki þeirri staðreynd að þessi munur er samt sem áður til staðar og við getum þakkað okkur sjálfum fyrir, því hann er heimatilbúinn og ákveðinn hér á Íslandi.

Er verið að tolla fataverslun úr landi?
Vöxtur var á öllum sviðum verslunar um síðastliðin jól að frátalinni fataverslun sem dróst saman frá fyrra ári þrátt fyrir að verð á fötum hafi lækkað milli ára. „Fataverslun minnkaði um 2,1% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 3,6% á breytilegu verðlagi. Verð á fötum var 1,5% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.“ samkvæmt tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar

Það er erfitt fyrir íslenska söluaðila að keppa við erlenda fataverslun þegar vörur sem seldar eru á Íslandi bera í raun tvöfaldan toll. Flestir íslenskir söluaðilar kaupa vöru sínar í gegnum vöruhús í Evrópu og vöruhúsin kaupa fatnaðinn frá Kína sem þýðir að varan er fyrst tolluð inn í Evrópusambandið með 15% tolli og þegar hún lendir á Íslandi fær varan u.þ.b. 15% toll við komuna hingað. Glöggir lesendur eru nú þegar búnir að átta sig á að íslenskir söluaðilar borga í raun tvöfaldan toll áður en þeir setja á sína álagningu en hér er ekki minnst á þann 24% vsk sem leggst svo ofan á vöruna áður en hún er sótt (sem betur fer þarf ekki að telja upp vörugjöld hér) en ég ákvað til einföldunar að sleppa úrvinnslugjöldunum sem leggjast á við komu til landsins sem leggjast líka á vöruna. Það er reyndar heldur ekki minnst á hér að tollur er greiddur af flutningsgjöldum og tryggingargjöldum líka þannig að prósenturnar tvær í Evrópu og Íslandi leggjast ofan á heildarverðið við að koma vörunni alla leið til Íslands, ekki bara vöruverðið. Í hinum fullkomna heimi gætu söluaðilarnir óskað eftir endurgreiðslu á tollinum frá Evrópusambandinu en það leggur enginn út í þá vinnu því kostnaðurinn við að endurheimta þá fjárhæð væri að öllum líkindum hærri en fjárhæðin sem væri sótt. Þeir sem hafa ekki nýlega heimsótt tollur.is gera sér kannski ekki grein fyrir hvaða fylgskjöl þarf að týna til við tollafgreiðslu en það eru; aðflutningsskýrsla, vörurreikningur, farmbréf, flutningsgjaldareikningur og leyfi eða vottorð. Hvað þá við endurgreiðslu tolla hjá Evrópusambandinu.

Svo maður sé nú bjartsýnn þá er auðvitað ákveðinn kostur við þennan heimatilbúna vanda, en hann er sá að þar sem að við bjuggum hann til, þá hljótum við að geta breytt honum, eytt honum. Nú er bara að bíða og sjá hvort að tollarnir verði næst á dagskrá hjá fjármálaráðherra, vörugjöldin eru að mestu farin og hann á hrós skilið fyrir það. Það væri mikið unnið ef að tollarnir fengju að fjúka líka.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.