Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Hvalveiðar Íslendinga hafa löngum verið umdeildar. Ég er orðinn nógu gamall til að muna eftir því að að hafa hlustað á beina útvarpsútsendingu frá atkvæðagreiðslu á Alþingi, með nafnakalli, um bann við hvalveiðum árið 1985. Amma studdi bannið og það voru henni vonbrigði þegar tillagan var felld. Nokkru síðar var bannið samþykkt og við hættum að veiða hval árum saman.

Þegar ég komst svo til vits og ára varð ég fylgjandi hvalveiðum, fannst og finnst enn að skynsamleg nýting þessarar auðlindar sé í lagi. Ég hef átt í deilum um þessa afstöðu við skyni borið fólk allan tímann, fólk sem ekki er hrætt við útrýmingu einstakra hvalastofna heldur finnst óþægilegt og beinlínis átakanlegt að verið sé að drepa jafn greindar skepnur og hvalir virðast vera.

Rök þessa fólks, þeirra á meðal eru útlenskir vinir mínir, hafa jafnan verið þá hvort einhverja nauðsyn beri til þess að veiða hvali. Til marks um þankagang þeirra útlensku vina minna sem lifa og hrærast innan vébanda Evrópusambandsins þá hafa þeir beinlínis lagt til að sambandið myndi greiða Íslendingum fyrir að veiða ekki hval en ég hef á móti útskýrt og útlistað að hvalveiðar séu ekki trúar- eða tilvistarlegt atriði hjá Íslendingum.

Andstaða við hvalveiðar er óvíða meiri en hjá bandarískum almenningi og þar af leiðandi hjá bandarískum stjórnvöldum. Sú andstaða er ekki byggð á vísindalegum grunni, nema síður sé. Eins og hjá vinum okkar í Evrópusambandinu, og endurspeglaðist í spurningu skáldsins um árið, þá velta Bandaríkjamenn því fyrir sér hvaða nauðsyn reki okkur til þess að skjáta þessar tignarlegur skepnur.

Í fyrra voru 1004 Bandaríkjamenn skotnir til bana af lögreglunni þar í landi. Í hlutfallslegum samanburði jafngildir það að lögreglan á Íslandi skjóti einn Íslending til bana á hverju ári við framkvæmd löggæslustarfa. Hlutfall blökkumanna í þessum tölum vestra er sláandi. Það sem af er þessu ári hafa lögreglumenn í Bandaríkjunum skotið 31 af hverjum milljón blökkumönnum til bana. Það jafngildir því að hér á landi hefði lögreglan til og með 30. júní verið búin að bana sjö Íslendingum við það eitt að framfylgja og gæta að lögum og reglum.

Auðvitað er ólíku saman að jafna og allt það. En samt, hvaða nauðsyn rekur bandaríska lögreglumenn til þess að beita slíku ofurefli? 

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.