Enn sterkara bandalag

Nýafstaðinn leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins markar ákveðin tímamót í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Á fundinum samþykktu leiðtogar bandalagsríkjanna þrjátíu framtíðarstefnu sem felur í sér enn nánara samstarf á sviði öryggismála en hingað til.

Nýafstaðinn leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins markar ákveðin tímamót í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Á fundinum samþykktu leiðtogar bandalagsríkjanna þrjátíu framtíðarstefnu sem felur í sér enn nánara samstarf á sviði öryggismála en hingað til.

Saman mynda NATO-ríkin þrjátíu ekki einungis öflugasta varnarbandalag allra tíma, þau eru stærsti vettvangur lýðræðisþjóða til að stilla saman strengi og hafa áhrif, eins og framtíðarstefna bandalagsins ber með sér. Því má heldur ekki gleyma að NATO-ríkin þrjátíu hafi að baki sér helming heimsframleiðslunnar og eru því í sameiningu stærsta efnhagsveldi heims. Í þessu ljósi verður að skoða framtíðarstefnu bandalagsins, NATO 2030.

Sterkari Atlantshafstengsl og aukið öryggispólitískt samstarf eru leiðarstefið í tillögunum sem byggja á víðtæku samráði undir merkjum NATO 2030. Í stefnunni er áhersla lögð á samheldni bandalagsríkjanna í viðbrögðum við breyttu öryggisumhverfi ríkjanna.

Ríkari áhersla er lögð á viðnámsþol samfélaga, á áhrif loftslagsbreytinga á öryggi ríkjanna og á að viðhalda tæknilegu forskoti þeirra. Aðildarríkin eru sammála um að standa vörð um alþjóðakerfið, alþjóðalög og þau grunngildi sem bandalagið byggir á, eiga með sér nánara pólitískt samráð og auka stuðning við samstarfsríki.

Það var mikið gæfuspor fyrir unga þjóð þegar Íslendingar stóðu að stofnun NATO árið 1949 ásamt ellefu öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Aðild Íslands að bandalaginu er kjarninn í þjóðaröryggisstefnu Íslands. Bandalagið hefur tryggt frið og öryggi í Evrópu á þeim rúmlega sjötíu árum sem síðan eru liðin. Aðildarríkjum hefur fjölgað úr 12 í 30 og styrkur bandalagsins og áhrif vaxið samhliða því.

Hlutverk og erindi bandalagsins til framtíðar eins og það birtist í nýrri stefnu undirstrikar mikilvægi þessa samstarfs og um leið mikilvægi aðildar Íslands að þessu samstarfi.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.