Einokun ríkisins á verslun með áfengi er auðvitað algjör tímaskekkja

Hversu lengi ætla íslenskir ráðamenn að hafna nútímanum hvað þetta varðar? Ég ætla rétt að vona að staðan verði önnur árið 2031 því annars mun ég neyðast til að skrifa enn annan pistil.

Fyrir áratug síðan ritaði ég pistil hér á Deigluna þar sem ég taldi upp margvíslegar ástæður fyrir því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Í pistlinum kom fram að vegna afskipta ríkisins er sú áfengisstefna sem við eigum að venjast hér á landi mjög frábrugðin því sem gengur og gerist erlendis. Þar af leiðandi hafi hugsun okkar til áfengis, og sér í lagi áfengiskaupa, mikið brenglast.

Pistillinn þótti ekki framúrstefnulegur árið 2011 og hvað þá árið 2021. Við höfum öll heyrt þessa romsu áður; aukið hagræði í vörudreifingu, aukið hagræði fyrir viðskiptavini, minni umsvif hins opinbera, meiri fjölbreytni, aukin tækifæri fyrir sérverslanir, frekari möguleikar til reksturs matvöruverslana á landsbyggðinni. Heill hellingur af atriðum sem sýna að einokun ríkisins á verslun með áfengi er auðvitað algjör tímaskekkja.

Til að gera langa sögu stutta hefur lítið gerst í þessum málaflokki síðasta áratuginn – og raunar lengra aftur í tímann ef út í það er farið, þrátt fyrir ýmsar góðar tilraunir. Í gildandi lagaumhverfi hér á landi geta Íslendingar pantað sér áfengi á netinu og fengið sent heim að dyrum. Af óskiljanlegum ástæðum á þetta þó einungis við um erlendar vefverslanir. Dæmi eru um að innlendir framleiðendur áfengis selji afurðir sínar til útlanda, til sölu í erlendum vefverslunum, sem selja afurðina svo áfram til íslenskra neytenda í gegnum erlendu vefverslunina. Þannig hefur varan ferðast frá Íslandi og yfir Atlantshafið í þeim eina tilgangi að vera send aftur til landsins með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum. Það blasir við að þetta er fullkomið rugl auk þess sem fyrirkomulagið felur í sér ójafnræði fyrir bæði íslenska áfengisframleiðendur en einnig innlenda verslun.

En neyðin kennir naktri konu að spinna. Nú hefur íslenskur víninnflytjandi sem hefur um árabil flutt inn vín frá Frakklandi opnað netverslun fyrir íslenska neytendur. Netverslunin er skráð í Frakklandi, og þar af leiðandi erlend vefverslun, en vörur verslunarinnar eru geymdar á Íslandi og fást því afhentar samdægurs. Heildsalinn segir í samtali við RÚV að hann telji sig hafa fundið leið fram hjá einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis hér á landi.

Dæmin verða vart skýrari um hversu öfugsnúið og forneskjulegt kerfi við búum við. Er það virkilega vilji löggjafans innlendir markaðsaðilar þurfi „að finna leið framhjá ÁTVR“ með því að opna erlendar vefverslanir til þess að selja löglega vöru til íslenskra neytenda? Hversu lengi ætla íslenskir ráðamenn að hafna nútímanum hvað þetta varðar? Ég ætla rétt að vona að staðan verði önnur árið 2031 því annars mun ég neyðast til að skrifa enn annan pistil.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.