Ein eilífðar hreinmey, í úlfahjörð, sem skrifar svo undir og deyr

Screen Shot 2016-07-13 at 21.08.54

Ísland er æðislegt. Frábært, stórkostlega fallegt og merkilegt. Krúttlegt og sætt.

Þjóðin er krúttleg og sæt. Menningin er krúttleg og sæt. Fótboltastrákarnir eru sterkir, krúttlegir og sætir. Peppliðið er krúttlegt og sætt. Það er allt svo saklaust og hreint og fallegt á Íslandi. Ísland er yndislegt.

Í þessum skrifuðu orðum eru fleiri ferðamenn en heimamenn í Reykjavík. Líklegast er þriðjungur allra sem nú eru á landinu, jafnvel helmingurinn, aðkomufólk. Gestir.

Hingað kemur fólk sem hefur nánast aldrei keyrt bíla af því það er fætt og uppalið í stórborgum þar sem allir taka lest. Hingað kemur fólk sem hefur aldrei horft með eigin augum lengra en 3 kílómetra í senn, annaðhvort hús eða mengun koma í veg fyrir að augað nái lengra. Hingað kemur fólk sem hefur alltaf þurft að kaupa sér drykkjarvatn á brúsum. Fólk sem hefur aldrei upplifað það áður að vera ganz aleine í náttúrunni, án þess að rekast á aðrar hræður.

Svo virðist sem flest þetta fólk felli hug til lands og þjóðar. Sambandið verður oft ástríðufullt og djúpt, svo stórfenglegt að það þarf að segja öllum frá því, og þá koma auðvitað fleiri. Samfélagsmiðlaþróunin síðustu átta árin lét þetta allt gerast af sjálfu sér.

Fjárfestar eru í þessum hópi heimsækjenda. Þau koma kannski bara í fjölskylduferð en fá ansi fljótt augastað á landinu sem söluvöru. Kaupa áður en aðrir gera það… Týpur eins og t.d. Michael Burry (úr The Big Short) sem fjárfestir aðeins í vatni nú til dags. Fólk eins og Bill Gates sem vill bara fá að vera normal og í friði úti á flóa. Fólk eins og einhverjir sádar og hann þarna Huang Nobu sem vildi kaupa Grímsstaði á fjöllum, fólk sem er ekki í EES en stofnar þá bara félög í EES og kaupir svo.

Það er svo ótrúlega mikið af fólk sem væri til í að eiga Ísland og það er líka ótrúlega mikið af fólki sem gæti svo auðveldlega eignast það með einni undirskrift. Eins auðveldlega og það sogar línu af kókaíni í hægri nösina.

En viljum við það?

Held ekki.

Akkúrat núna líður mér eins og Ísland sé titrandi smáblóm, hrein mey í úlfahjörð. Úlfarnir hanga á húninum og bíða þess að höftin losni. Þá munu þeir fara hér yfir eins og herra Sauron Saruman og soga lúpínur og fossa, jarðvarma, dali og fjöll, ekki upp í eina -heldur báðar nasir. Og smyrja svo restinni vel í góm.

Mig langar ekki að það gerist. Pössum okkur kæru álfar og aðrir eyjarskeggjar. Pössum okkur á úlfum þessa heims. Ok?

Margrét Hugrún skrifar

Margrét byrjaði að blogga árið 2002 og hefur verið óstöðvandi á þessu sviði allar götur síðan. Hún starfaði lengi sem blaðakona en þar áður var hún til dæmis plötusnúður og útvarpskona. Nú brasar hún í PR, vef og markaðsmálum hverskonar.