Draumaverksmiðju-kryddið

Glóandi hraunelfur rennur á ógnandi hraða, rústir bygginga sem hafa hrunið til grunna og örvæntingarfullt fólk á flótta. Þetta eru hughrif sem fregnir af jarðskjálftum og eldsumbrotum geta vakið og má að einhverju leyti rekja til draumaverksmiðjunnar í Hollywood þar sem dramatík er eitt mikilvægasta hráefnið. Kvikmyndahandrit sem myndi byggja á raunverulegum aðstæðum á Íslandi kæmist þó líklega ekki gegnum fyrstu síu hjá draumaverksmiðjunni þar sem launalausi starfsneminn grisjar handritabunkann og hleypir þeim vænlegu áfram á færibandið.

Eldgos á Íslandi hafa verið á þriggja ára fresti að meðaltali undanfarna öld og stórir jarðskjálftar yfir 5,5 á Richter á sex ára fresti að meðaltali yfir sama tímabil. Fyrir utan stóru skjálftana þá mælast jarðskjálftar á hverjum degi á Íslandi þó fólk finni ekki fyrir þeim. Tíðni og hversdagsleiki jarðskjálfta á Íslandi kristallast vel í því að á vef Veðurstofunnar er flipinn “Jarðhræringar” næstur við flipann “Veður” og hverju sinni er hægt að sjá yfirlit yfir jarðskjálfta á landinu síðustu 48 klukkustundirnar.

Það gerist öðru hverju að fréttir af jarðhræringum rjúfa hversdaginn og rata í fréttirnar. Þegar mikið gengur á þá berast þær fréttir jafnvel út fyrir landsteinana í erlenda fjölmiðla. Þá getur stundum örlað á draumaverksmiðjukryddi eins og þetta dæmi ber með sér um fyrirsögn úr breskum miðli frá 2018 þegar Katla bærði lítillega á sér: Roar of the evil sorceress: colossal Icelandic volcano threatens to wreak havoc on northern Europe in explosion which would dwarf ash cloud that grounded 100.000 flights in 2010.

Þótt svona fyrirsagnir geti verið broslegar í augum þeirra sem þekkja til þá sýna þær hversu mikilvægt er að miðla staðreyndum og útskýra hvernig staðan er í raun. Erlendir miðlar hafa fjallað töluvert um jarðskjálftahrinuna á Reykjanesi undanfarið með áherslu á mikinn fjölda skjálfta og að hún muni mögulega leiða til eldsumbrota. En umfjallanirnar hafa verið hófstilltar og vísað í upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum og vísindamönnum um að allt bendi til þess að ef eldgos verði þá muni það að öllum líkindum vera á smærri skala og hafa lítil áhrif.

Jarðskjálftahrinan hefur verið óvenju kröftug og margir sem upplifa óþægindi og óöryggi við stærstu skjálftana. En jarðhræringar eru hluti af daglegu lífi á Íslandi og innviðir og viðbrögð við náttúruhamförum taka mið af því. Hús eru byggð til að þola jarðskjálfta. Grannt er fylgst með stöðunni af Veðurstofunni, Almannavörnum, vísindamönnum og fleiri til þess bærum aðilum. Hættur samfara eldsumbrotum eru að mestu staðbundnar og eldgos eiga sér yfirleitt stað fjarri mannabyggð. Þetta er vissulega ekki nógu spennandi til að standa undir hamfaratrylli frá Hollywood enda er raunveruleikinn oft aðeins bragðdaufari. Sem betur fer.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.