Covid-bólurnar

Í dag 25 maí, voru stór skref stigin í Covid-19 faraldrinum á Íslandi þar sem neyðarstigi almannavarna var aflétt, hámarksfjöldi mannamóta hækkaði úr 50 í 200, líkamsræktarstöðvar opnuðu og tveggja metra reglan varð valkvæð. Fyrsta Covid-19  tilvikið á Íslandi var greint 28. febrúar og samkomubanni var komið á þann 15. mars. 

Búið er að gefa það út að Ísland verði opnað fyrir ferðamönnum þann 15. júní en nánari útfærslur hafa ekki verið kynntar. Faraldurinn gengur nú niður í Evrópu á meðan hann er enn á uppleið víða um heim og þjóðir álfunnar eru byrjaðar að skoða leiðir til þess að opna aftur landamæri sín á sem öruggastan hátt. 

Fyrstu skrefin eru varfærin en smám saman birtist okkur mynd af marglaga heimi hvar svæði þar sem heimsfaraldurinn dregst saman byrja að þenja út sín útmörk. 

Ein af fyrstu Covid-19 ferðabólunum var Baltneska bólan þar sem Eistland, Lettland og Litháen ákváðu að opna landamæri sín fyrir íbúum hvors annars. Fólk utan bólunnar þarf eftir sem áður að fara í 14 daga sóttkví við komu til landanna. Önnur ríki hafa farið svipaða leið: Austurríki og Þýskaland hyggjast opna Austur-Þýsku bóluna þann 15. júní og Ástralía og Nýja Sjáland ætla að opna Tasmaníubóluna.  

Ísland gerði tilraun til þess að búa til Norður-Atlandshafsbólu þegar ákveðið var að fólk frá Grænlandi og Færeyjum þyrfti ekki að fara í sóttkví við komu til landins. Yfirvöld þessara landa hafa enn sem komið er ekki endurgoldið greiðann og þurfa íbúar þeirra sem skreppa í helgarferð til Íslands að fara í 14 daga sóttkví þegar heim er komið og þessi bóla því ekki virk. 

Í gær tilkynnti ríkisstjórn Svartfjallalands að ekkert Covid tilfelli hefði komið upp í landinu í 20 daga og landið væri því laust við vírusinn. Samhliða því var tilkynnt að landið myndi fljótlega opna dyr sínar fyrir ferðamönnum frá svæðum þar sem lítið væri um smit. Viðmið Svartfellinga er að fyrst um sinn verði einungis hleypt til landsins ferðamönnum frá löndum þar sem smittíðni er minni en 25 tilfelli á hverja 100.000 íbúa. 

Þetta eru kaldar kveðjur til Íslendinga sem telja sig hafa náð einna bestum árangri í baráttunni gegn Covid-19 í Evrópu en hér á landi var tíðnin um 528 smitaðir á 100.000 eða tuttugufalt hámark Svartfjallalands. 

Bóluheimur komandi mánaða er áhugaverður frá mörgum hliðum. Læknisfræðilega er opnað á möguleikann á því að það komi önnur bylgja af kórónuveiru til landa þar sem hjarðónæmi hefur ekki verið náð. Þá er tæknilega hliðin áhugaverð. Verður að vera beint flug milli landa í Covid-bólum eða munu flugvellir bjóða upp á sérþjónustu fyrir millilendingu milli slíkra svæða þar sem fólk úr öðrum svæðum er ekki í sömu álmum eða göngum. 

Pólitíska hliðin er sú uggvænlegasta. Það er í höndum stjórnmálamanna víða um heim að meta áhættu og ábata af því að opna landamæri. Fyrstu viðbrögð virðast vera að opna sig fyrir „kunningjum“, fólk eins og okkur, fólk sem við þekkjum. 

Stjórnmálaöfl sem ganga út á að loka löndum fyrir fólki af öðrum menningarsvæðum munu sjá hér mikið tækifæri til þess að loka svæðum og löndum langt umfram það sem vísindin telja ráðlegt. Pólitískar afleiðingar heimsfaraldursins gætu þannig orðið langlífari en efnahagslegu afleiðingarnar. 

Árin fyrir Spænsku veikina hafa verið kölluð alþjóðavæðingin hin fyrsta. Þá gat fólk ferðast um allan heim vegabréfalaust og átt viðskipti hvar sem er við hvern sem er. Hömlur sem voru settar á ferða- og viðskiptafrelsi á öðrum áratug síðustu aldar hafa margar hverjar aldrei gengið til baka. 

Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig nú mun spilast úr spilunum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.