Byssur og bandarískt gildismat

Margt virðist benda til þess, að meðferð skotvopna verði eitt helsta kosningamálið í bandarísku forsetakosningunum á hausti komanda. Orsakir þess er óþarft að rekja hér en í öllu falli er ljóst, að full ástæða er til þess fyrir þegna þar vestra, að velta fyrir sér, hvort sá skýlausi réttur allra frjálsra manna þar í landi til að bera skotvopn, hafi nokkra skírskotun til aðstæðna í nútímanum.

Margt virðist benda til þess, að meðferð skotvopna verði eitt helsta kosningamálið í bandarísku forsetakosningunum á hausti komanda. Orsakir þess er óþarft að rekja hér en í öllu falli er ljóst, að full ástæða er til þess fyrir þegna þar vestra, að velta fyrir sér, hvort sá skýlausi réttur allra frjálsra manna þar í landi til að bera skotvopn, hafi nokkra skírskotun til aðstæðna í nútímanum. Því miður virðast margir Bandaríkjamenn líta svo á, að með lögum sem takmarki þennan rétt sé ríkisvaldið að hefta einstaklinsfrelsi þegnanna, en það er auðvitað eitur í beinum Bandaríkjamanna.

Það ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar, sem geymir hinn skýlausa rétt frjálsra manna til að bera skotvopn, hefur lengi verið þyrnir í augum frjálslyndra manna þar í landi og að þeirra mati mikill ljóður á því merka plaggi sem stjórnarskráin er. En allar breytingar á henni eru tabú, enda orð hennar meitluð í stein í huga bandarísku þjóðarinnar; ævarandi grundvallarreglur. Hins vegar er umhugsunarvert hvað hafi vakað fyrir forfeðrunum, sem sömdu þessar reglur, eins skynsamnir menn og þeir voru, með því að setja inn þetta ákvæði, sem síðan hefur kallað jafn miklar hörmungar yfir þjóðina og raun ber vitni.

Rétt er í því sambandi að huga að nokkru sem kallast tilgangur og forsaga lagaákvæðis. Eiginlegt ríkisvald var ekki fyrirferðarmikið er stjórnarskráin var samin og því á höndum frjálsra manna, annað hvort hverjum og einum eða í einhvers konar samstarfi, að gæta lendna sinna, lífs og eigna. Byssan var þá hugsuð sem nauðvörn grandvars borgara gegn yfirgangi óþjóðalýðs. Skotvopn í þá daga voru þannig úr garði gerð að með mikilli færni mátti hugsanlega hleypa af 3-4 skotum á mínútu og aðallega voru þessi vopn hugsuð til veiða. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og DEIGLAN treystir sér til þess fullyrða, að forfeðurnir góðu hafi með engu móti getað séð fyrir, að niðjar þeirra hefðu greiðan aðgang að handhægum UZI-vélbyssum, sem eru nær ómögulegar til veiða, en henta hins vegar vel vilji menn spreyja ómældu magni byssukúlna yfir mannsöfnuð á sem skemmstum tíma.

DEIGLAN er vissulega á móti byssum per ce og telur þær meðal allra verstu uppfinninga mannkynssögunnar. En hafi einhverjar þær aðstæður verið uppi á 18. öld sem réttlættu almenna byssueigna Bandaríkjamanna, eru þær aðstæður fyrir löngu gjörbreyttar. Það er skömm frá því að segja, en málflutningur Al Gores – þrátt fyrir allan hégómann og smeðjuna – í þessu máli lætur betur í eyrum en þau sjónarmið sem George Bush yngri heldur fram. Almennur réttur manna til byssueignar í nútímasamfélagi er fráleitur og er með engu móti samrýmanlegur hinum mestu mannréttindum; réttinum til lífs.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.