Búmannsins seigla

Einu sinni fór hópur vísindamanna að rannsaka landbúnaðarhætti í fjallahéruðum Perú. Vísindamennirnir rákust á það sem þeim virtist við fyrstu sýn vera gríðarleg óhagkvæmni í landbúnaðarháttum heimamanna. Hver bóndi var með marga litla ræktunarreiti á mismunandi stöðum í sveitinni. Þetta þótti aðkomufólki ansi léleg nýting á vinnuafli bændanna þar sem mikill tími tapaðist við að ganga á milli reita og hefði betur nýst við umhirðu. Þetta þótti vera klárt dæmi um afdalamennsku og virtist þeim augljóst framfaraskref að búa til markað með reitina svo bændurnir gætu sameinað og stækkað sína reiti og aukið þannig hagkvæmni.

Þetta var ríkjandi skoðun þar til einn vísindamaðurinn, Carol Govland, gerðist svo bíræfin að spyrja bændurna hreint út af hverju þeir dreifðu reitunum sínum frekar en að hafa þá hlið við hlið. Svörin leiddu í ljós aldargamla áhættustýringaraðferð samfélagsins. Enginn er búmaður nema hann berji sér segir íslenskt máltak. Barningurinn er jafnvel enn meiri í 4.000 metra hæð í Andesfjöllunum. Vont veður, skriður, jarðskjálftar geta á svipstundu þurrkað út heilu uppskerurnar og svelt fjölskyldur. Það er til lítils að eiga átta frábær ár ef allir svelta á ári níu. Þess vegna höfðu bændurnir komið sér upp kerfi þar sem margir reitir þeirra gátu orðið fyrir skakkaföllum en þó staðið eftir reitir sem gáfu af sér mat út veturinn.

Þessi aldagamla hugmynd bænda í Perú, að fórna hámarks framleiðni fyrir seiglu, getunni til þess að standa af sér áföll, á alltaf við, en ekki síst í dag.

Íslendingar höfðu fram til ársins 1910 einungis einn ræktunarblett: landbúnað. Landið bar þá um 50.000 íbúa en ef það fjölgaði mikið umfram það þá fækkaði landsmönnum aftur í kjölfar áfalla á borð við eldgos, farsóttir og uppskerubrest. Upp úr 1910 hófst togaravæðingin og skapaði nýjan reit, sjávarútveginn en aflabrestur hafði oft miklar afleiðingar og aldrei meiri en þegar síldin hvarf.  fimmtíu árum síðan 1962 opnaði Búrfellsvirkjun sem knúði álverið í Straumsvík og varð orkuútflutningur þriðji reitur landsmanna. Fimmtíu árum síðar hófst svo kraftmikill vöxtur ferðaþjónustunnar sem varð á örfáum árum stærsta útflutningsgrein landsins.

Ef bændurnir í Perú væru spurðir myndu þeir líklegast segja okkur vera á réttri leið: fjórir reitur eru betra en einn reitur, en þeir myndu eflaust bæta við en tuttugu reitir eru samt betri en fjórir!

Um leið og við hlúum að okkar kjarnaatvinnugreinum þurfum við að leggja vinnu í að þróa fleiri reiti til þess að auka getu okkar til þess að mæta áföllum. Seigla verður töfraorð stjórnmálamanna á komandi misserum.

Grein Carol Govland nefnist Cultivating diversity: Field scattering as agricultural risk management in Cuyo Cuyo, Dept. of Puno, Peru. og má meðal annars finna hér:  https://deepblue.lib.umich.edu/handle/2027.42/105533. Bæði Jared Diamond vitnar í rannsóknina í bók sinni The World until Yesterday auk þess sem Charles Mahron sem vitnaði í sömu greinina í bókinni Strong towns.  

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.